Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:14:30 (3180)

1998-01-29 12:14:30# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einmmitt kjarni málsins sem þarf að koma fram að þingmenn núverandi stjórnarflokka hafa látið beygja sig í duftið í samgöngumálum. Þeir hafa verið svínbeygðir ár eftir ár allt þetta kjörtímabil. Hvert einasta ár hefur verið afgreitt með því að skera niður vegaframkvæmdir og niðurskurðurinn hefur verið vaxandi og aldrei sem á yfirstandandi ári, rúmar 1.160 millj. kr. Það er kjarni málsins. Hvernig verja menn núna þennan niðurskurð? Með því að segja: ,,Það er þensla og það þarf að skera niður vegaframkvæmdir til að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af þenslu.`` Gott og vel. En hvað gerir sama ríkisstjórn og sömu þingmenn? Hún samþykkir í fjárlögum að hefja hverja stórframkvæmdina á fætur annarri hér á höfuðborgarsvæðinu fyrir lánsfé upp á milljarða kr. Þá þarf ekki að tala um þenslu. Ég spyr hv. þm. Magnús Stefánsson: Býr þenslan bara í vegunum? Býr hún ekki í stórframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu?