Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:17:15 (3182)

1998-01-29 12:17:15# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:17]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér fer fram mjög mikilvæg umræða og væntanlega verður hún fyrirferðarmikil enda er um að ræða mál sem krefst þess að um þau sé fjallað talsvert ítarlega. Ég hef að vísu stundum látið koma fram við svipuð tilefni að mér finnst áhuginn á þeim stóra, mikla og þýðingarmikla málaflokki vera einskorðaður við tiltölulega fáa. Við sjáum oft einmitt í umræðum um vegamál að það eru ekki mjög margir sem eru viðstaddir þá umræðu. Kannski undirstrikar það ákveðinn misskilning um þetta mál, þetta sé landsbyggðarmál sem sé fyrst og fremst umræðuefni fyrir landsbyggðarmenn að fjalla um, en svo er auðvitað alls ekki.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið í umræðunni að gríðarlega margt er óunnið í vegamálum hér á landi. Við erum illa stödd að þessu leyti. Við þurfum ekki annað en að bera saman vegakerfi okkar við vegakerfi víða annars staðar þá sjáum við að okkar staða er miklu lakari en víða í löndunum í kringum okkur. Engu að síður hefur gríðarlega mikið verið gert. Ég minni t.d. á Vestfjarðagöngin í mínu kjördæmi og ýmsar stórkostlegar vegabætur sem hafa átt sér stað. Við þurfum ekki annað en að líta 10--15 ár aftur í tímann til að sjá að þrátt fyrir allt og þrátt fyrir að okkar þjóðarbú hafi verið að ganga í gegnum ýmsa og mikla erfiðleika á þessu tímabili hefur sem betur fer tekist á margan hátt að byggja hér upp myndarlegt vegakerfi við mjög erfiðar aðstæður fyrir litla þjóð í strjálbýlu landi. Ég held að það skipti máli fyrir okkur þegar við ræðum slík mál að ræða þau í einhverju samhengi, og átta okkur á því hversu tröllaukið og mikið verkefni það er að byggja upp vegakerfi í landi eins og okkar. Þegar svo við bætist að við búum við þær aðstæður að sívaxandi kröfur héðan af höfuðborgarsvæðinu eru um gríðarlega miklar framkvæmdir sem virðast fá aukinn þunga með hverju árinu sem líður, þrátt fyrir að verið sé að auka mjög verulega framlög úr Vegasjóði til vegamála á höfuðborgarsvæðinu.

Það sem gerir það að verkum að krafan eykst ár frá ári um bætta vegi er m.a. að við erum að keppa við þjóðir sem eru með mjög myndarleg innri samgöngumannvirki og mjög öflugt vegakerfi. Sú breyting hefur líka orðið að flutningar á landi fara vaxandi, krafa markaðarins er um aukna tíðni og þess vegna hefur það einfaldlega gerst, með líka batnandi vegakerfi, að þessi flutningsmáti hefur færst af sjó upp á land og við því verður ekkert gert. Það er bara eðlilegur hluti af nútímavæðingu þjóðfélags okkar. Við sjáum það ef við lítum til landanna í nágrenni við okkur, að þar er lögð mjög mikil áhersla á að bæta einmitt vegakerfið, infrastrúktúrinn í sjálfu samgöngukerfinu, vegna þess að menn gera sér grein fyrir því að það er lykillinn að svo mörgu öðru. Þetta nefni ég vegna þess að við erum núna að ræða í senn tvær áætlanir. Annars vegar hefðbundna vegáætlun, að þessu sinni til fimm ára af ástæðum sem hæstv. samgrh. hefur rakið, og enn fremur langtímaáætlun. Ég held að það skipti óskaplega miklu máli fyrir okkur að okkur takist á þessum vetri að ljúka þeirri áætlanagerð. Það er einfaldlega mjög mikilvægt fyrir eitt þjóðarbú að geta byggt á áætlanagerð til lengri tíma við framkvæmdir sem skipta miklu máli fyrir þjóðarbúið. (KHG: Fimm ára áætlun hefur verið gerð.) Fimm ára áætlunin snerist um allt aðra hluti, hv. þm., og ég vona að hinn gamli sósíalisti sem er nú sem óðast að ganga af þeirri trú, hv. 5. þm. Vestf., geri sér grein fyrir því að talsverður munur er á efnahagslegum áætlunum sósíalismans í Sovétríkjunum og framkvæmdaáætlunum sem við höfum verið að fjalla um hér í vegamálum. Það er ,,en helt anden sag`` eins og Daninn segir.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að sjá aðeins lengra fram í tímann þótt við þurfum eðli málsins samkvæmt, vegna þess að þjóðfélag okkar er að breytast, að taka þessar áætlanagerðir upp með reglubundnu millibili. Á sl. ári tókst að afgreiða hafnaáætlun til fjögurra ára í fyrsta skipti frá Alþingi og það fer ekkert milli mála að því hefur almennt verið fagnað af sveitarstjórnarmönnum sem þurfa að vinna eftir slíkri áætlun. Þar með er komin ákveðin festa sem menn geta byggt á. Það er reyndar alveg rétt sem menn hafa sagt að Alþingi getur á hverjum tíma breytt síðan vegáætluninni með fjármögnun. Engu að síður er hér kominn ákveðinn rammi sem menn vinna út frá og við sjáum að þrátt fyrir að vegáætlun hafi verið skorin niður mjög oft á mörgum árum í tíð allra ríkisstjórna, sem allir stjórnmálaflokkar hafa átt aðild að, hefur vegáætlunin á hverjum tíma samt sem áður haft mjög mikið gildi.

Ég held að það væri sérstakt fagnaðarefni ef okkur tækist, sem okkur verður að takast, að afgreiða þessa langtímaáætlun vegna þess að þannig getum við reynt að skoða lengra fram fyrir okkur og sett okkur eðlileg markmið til að stefna að. Ég held að mjög þýðingarmikið sé að menn geri sér grein fyrir að þetta mun hafa í för með sér mjög breytt vinnubrögð. Að mínu mati er það óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að við afgreiðum vegáætlun með þessu móti, að við verðum oft að taka stærri áfanga en við höfum verið vön. Við verðum að búa svo um hnútana að hægt verði að bjóða út stærri verk sem ná yfir lengra tímabil en eitt ár í senn. Þar verðum við að sjálfsögðu að hafa í huga lög þau sem gilda um fjárreiður ríkisins, en einnig þá vinnu sem samgn. lagði í þegar við vorum að afgreiða hafnaáætlunina og gaf tóninn um hvernig hægt sé að vinna að verkum á grundvelli samþykktrar verkáætlunar eins og vegáætlunar eða hafnaáætlunar. Ég held að mjög mikilvægt sé að við áttum okkur á þessu af því að það plagg sem hér liggur til grundvallar og við erum að ræða gerir ráð fyrir að við séum að ráðast í mjög stór verk á ýmsum sviðum. Það er alveg óhjákvæmilegt að þau verk verði unnin í heildstæðum áföngum í mörgum tilvikum. Þess vegna verður það oft og tíðum örugglega upp á teningnum að við verðum að bjóða út verk sem taka yfir lengri tíma en eitt ár jafnvel þótt fjárlög séu ekki samþykkt nema eitt ár í senn. Þetta höfum við líka gert í ýmsum tilvikum. Ég tek sem dæmi þverun Gilsfjarðar en útboð þess verks var mjög vel heppnað. Það var boðið út þannig að það var í raun valkvætt. Verktakarnir áttu val um hvort þeir kláruðu verkið á tveimur eða þremur árum og var í þeirra hag að bjóða þannig í það að verkinu yrði lokið á styttri tíma. Það hefur tekist mjög vel.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um einstök verkefni heldur langar mig að nota tækifærið við 1. umr. til að fjalla almennt um þessa vegáætlun því að ég hef að sjálfsögðu tækifæri til að fara ofan í einstök verk í þeirri umræðu sem fer fram á næstu vikum í samgn. Alþingis. Þess vegna langar mig aðeins að velta þessu upp á annan hátt. Ég nefndi áðan þýðingu samgöngubóta fyrir þjóðarbúið. Hverju það breytir þegar við fáum betri vegi. Ég held að mjög mikilvægt sé að við áttum okkur aðeins á því. Hver er hin þjóðhagslega þýðing bættra samgöngumannvirkja? Hverju hafa þau skilað okkur? Ég er t.d. ekki í nokkrum vafa um að það mikla átak sem gert var á síðasta kjörtímabili á sinn hlut í því að við höfum upplifað meiri hagvöxt núna en dæmi eru um á liðnum árum.

Nýlega kom út dönsk skýrsla ,,hinna vitru``, held ég að þeir séu kallaðir. Það er eins konar efnahagsráð Danmerkur, skipað aðilum úr stjórnsýslunni, úr atvinnulífinu, háskólunum og er sjálfstæð stofnun sem tekur til meðhöndlunar efnahagslega hluti og reynir að greina þá og taka afstöðu til þeirra. Í síðustu skýrslu sem þeir gáfu út á liðnu hausti fjölluðu þeir m.a. ekki síst um vegamál og umhverfismál. Að hluta til reyndu þeir að meta þýðingu samgöngubóta fyrir þjóðarbúið í heild. Þeir vöktu athygli á því að með batnandi samgöngumannvirkjum eigi heimilin völ á fleiri vörutegundum en áður á lægra verði. Þetta er nákvæmlega það sem kemur heim og saman við það sem við þekkjum. Í öðru lagi fjölgar starfstækifærum sem eykur líka sveigjanleika á vinnumarkaði. Þetta sjáum við þegar atvinnusvæðin og þjónustusvæðin stækka. Það kemur líka heim og saman við það sem við höfum verið að halda fram. Lægri flutningskostnaður, segja þessir menn, og tímasparnaður því samfara hefur í för með sér öflugri framleiðslu og aukna framleiðni. Það er mjög fróðleg niðurstaða sem þeir komast að með tölulegri athugun, að 1% vöxtur í mannvirkjagerð á sviði samgöngumála lækkar framleiðslukostnað danska útflutningsiðnaðarins um allt að 0,16% á ári. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða forsendur liggja hér að baki en ef við skoðum þetta í íslensku samhengi, þá mundi þetta þýða að 1% aukning í mannvirkjagerð á sviði samgöngumála lækki framleiðslukostnað útflutningsgreinanna um 0,16%. Þetta mundi væntanlega þýða fyrir sjávarútveginn sem flytur út fyrir 100 milljarða á ári um 160 millj. kr. útgjaldalækkun. Ef vöruútflutningurinn í heild er tekinn sem er 130 milljarðar, þá eru þetta um 200 millj. kr. að mér sýnist á ári. Þetta sýnir okkur hversu þýðingarmikið þetta er og væri fróðlegt fyrir okkur að reyna að gera sambærilegar athuganir. En mig grunar að þær mundu leiða til þess að tilkostnaður útflutningsgreinanna lækkaði hraðar hjá okkur vegna þess að samgöngutengdur kostnaður, flutningstengdur kostnaður, er örugglega hærri hér á landi en á hinni flötu Danmörku.

Mig langar aðeins að koma að þessari áætlun og hvernig hún er uppbyggð. Ég held að það hafi verið orðið mjög þýðingarmikið fyrir okkur og raunar óhjákvæmilegt að brjótast út úr þessu öngstræti sem við vorum komin í. Það er alveg rétt sem talsmaður Alþb., hv. 4. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, hefur verið að tala um, hann vék aðeins að því í þessari umræðu en sérstaklega í umræðunni sem fram fór vorið 1996 um vegáætlunina, að við vorum komin í ákveðið öngstræti. Við vorum með almennu vegaskiptinguna sem byggðist á þríliðunni frægu, við vorum komin með stórverkefni, brúargerð og öryggisþætti og alls konar hluti sem voru utan við þessa frægu skiptingu. Það var höfðatölureglan, það var höfuðborgarsvæðið, það var framkvæmdaáætlun hér og framkvæmdaáætlun þar. Við vorum á vissan hátt komin í mikið öngstræti. Og við sáum vissulega hvað mundi gerast við umræður um vegáætlunina á þessum vetri. Að sjálfsögðu mundu kjördæmin hvert um sig krefjast aukins hlutar utan hinnar hefðbundnu skiptingar. Menn voru þegar komnir í þær stellingar. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli og ég tek því mjög undir orð talsmanns Alþb. í þessari umræðu að þessu leytinu, að við brjótumst út úr þessu. Hvernig er hægt að gera það? Ég held að það hafi verið gert í þessum tillögum mjög skynsamlega. Hér er lagt til að við reynum einfaldlega að skilgreina fyrir okkur ákveðin markmið. Að hverju ætlum við að stefna til ársins 2010. Hvað er það sem við viljum ná? Hvað er raunhæft að við náum? Hvernig getum við raðað því í forgangsröð? Og hvernig er það gert í þessari áætlun?

[12:30]

Í fyrsta lagi er lögð áhersla á uppbyggingu bundins slitlags. Það er gert með því að stefnt er að því að ljúka hringvegi með bundnu slitlagi sem er auðvitað mjög þýðingarmikið fyrir stóra hluta landsins eins og norðausturhornið og Vestfirðina og vegum að honum til þéttbýlisstaða með 200 íbúa eða fleiri.

Í öðru lagi. Að tengja saman með uppbyggðum vegi nálæga byggðakjarna með fleiri en 1.000 íbúa á hvorum stað.

Í þriðja lagi. Leggja bundið slitlag á mikilvægar ferðamannaleiðir með mikla umferð.

Í fjórða lagi er talað um burðarþolið, sem við vitum að er orðið of lítið miðað við þá vaxandi umferð sem er um vegina í þungaflutningum.

Í fimmta lagi er fjallað um umferðaröryggismálin. Ég get vitnað í ýmsa talsmenn hv. stjórnarandstöðu sem hafa m.a. lagt mikla áherslu á það að útrýma einbreiðum brúm. Þingmaður eins og t.d. hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur margoft vakið athygli á hættunum í sínu kjördæmi vegna þessa, þrátt fyrir að ég viti að hann keyri mjög hægt og gætilega. Við sjáum að öll þessi markmið eru sjálfsögð og eðlileg markmið og ég trúi því ekki að hér í þingsölum sé ágreiningur um það að við viljum stefna að því einmitt að reyna að ná þessu á þessu árabili.

Nú getum við auðvitað sagt: Þetta ætti ekki að gera fyrir árið 2010, þetta á bara að gerast á morgun. Og ég held að út af fyrir sig gætu allir tekið undir að það væri óskaplega gott að vera búinn að ljúka þessu öllu á morgun. En lífið er bara flóknara og þetta kostar mikla peninga. Þess vegna er raunhæfara markmið að orða þetta svona eins og gert er í tillögunni. Ef við hins vegar víkkum út það sem við viljum gera á þessum árum þá þurfum við einfaldlega meiri peninga eða þá að við verðum að fresta einhverju öðru af því sem hér er verið að tala um. Við náum því ekki öllu á þessum tíma. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að við verðum að reyna að setja okkur raunhæf markmið miðað við þær tekjuforsendur sem við teljum líklegt að standist og vinna í samræmi við það.

Hér hefur verið fundið að því að vegáætlun hafi verið skert. Það er ekki svo, virðulegi forseti, að verið sé að skerða vegáætlun í fyrsta skipti í Íslandssögunni á þessu kjörtímabili. Eins og ég nefndi áðan hefur hver einasta ríkisstjórn og allir stjórnmálaflokkar komið að því að skerða vegáætlun og við getum síðan deilt um hvers hlutur er verstur. En hér er þó alla vega verið --- kannski í ljósi þeirrar bitru reynslu --- að fitja upp á nýrri aðferð sem er sú að í stað þess að vera með lánveitingar til átaks í þetta skiptið, og greiðslu af því átaki í þetta skiptið, sem hefur orðið dálítið ruglingslegt, eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi áðan, þá er tekin upp sú aðferð að Vegasjóður njóti tekjupósta sinna en greiði þess í stað tiltekið fast umsýslugjald til ríkisins. Ég held að þetta sé líka aðferð til að brjótast út úr því öngstræti sem menn hafa verið að vitna hér til og sem er alveg rétt að við höfum verið í og við höfum verið að taka mikinn slag um.

Ég vil síðan segja í lokin, virðulegi forseti, vegna þess að tíminn líður miklu hraðar en maður reiknar með, að mjög mikilvægt er að menn átti sig á því að 20% af stofnvegaframlaginu eiga síðan til viðbótar við þau verkefni sem hér eru talin upp að renna til almennra verkefna í kjördæmunum. Enn fremur er gert ráð fyrir því að á árunum 1998--2002 muni framlag til tengivega, sem er mjög þýðingarmikið fyrir ýmis kjördæmi, t.d. Suðurland, hækka um 20%. Ég held þess vegna, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að mjög mikilvægt sé að við reynum að vinna okkur áfram á grundvelli þeirrar hugsunar sem hér er sett fram, hugsunar sem felur í sér að við eigum að feta nýjar leiðir að markmiðum sem við hljótum að geta verið sammála um.