Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:32:16 (3188)

1998-01-29 13:32:16# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:32]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár vegna hins alvarlega ástands sem blasir við í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Ef svo heldur sem horfir þá stöðvast fiskiskipaflotinn á næstu dögum með því að verkfall skellur á nk. mánudag. Flotinn mun halda til hafnar aðfaranótt þriðjudags og veiðar allra skipa yfir 12 tonnum stöðvast. Að vísu rétt að hafa í huga að þegar skip koma úr löngu úthaldi þá eiga þau eftir að taka út sín lögbundnu frí eða inniveru þannig að í þeim skilningi kemur verkfallið ekki að fullu til framkvæmda fyrr en að nokkrum dögum liðnum.

Staðan í deilunni er þannig að síðustu sáttafundir hafa verið árangurslausir þó enn reyni menn að tala saman. Ég held að ég ljóstri ekki upp neinu leyndarmáli hér þó að ég segi að mat þeirra sem til þekkja er að andrúmsloftið í samskiptum deiluaðila sé óvenjuerfitt.

Öllum er ljóst að mikið er í húfi. Fram undan eru verðmætustu mánuðir fiskveiðiársins, loðnuvertíð í febrúar og mars. Sem dæmi mætti taka að á árinu 1997, síðustu vertíð, veiddust í febrúarmánuði 457 þús. tonn af loðnu sem gáfu á milli 5 og 6 milljarða kr. í útflutningstekjur. Í febrúar 1996 veiddust sömuleiðis yfir 400 þús. tonn þó útflutningsverðmætið hafi reyndar verið enn meira á því ári sökum betri loðnufrystingar og hærra verðs. Þá er eftir að meta tapið af þeirri röskun sem verður í hefðbundinni framleiðslu á vetrarvertíð í söltun, frystingu, rækjuiðnaði o.s.frv. Ekki má heldur gleyma þeirri röskun sem orðið getur á útflutningsmörkuðum ef framleiðslan stöðvast um langan tíma. Síst má gleyma því að þúsundir fiskverkafólks og annarra starfsmanna í landi munu missa vinnu sína og sjómenn munu missa laun sín í verkfalli, eins þeir sjómenn sem ekkert hafa haft nema kauptrygginguna í síðasta mánuði.

Deilan er að því leyti sérstæð, herra forseti, að hún snýst öðrum þræði um tæknileg atriði eða aðferðir. Hún snýst um aðferðir við verðlagningu á fiski, einkum þegar tengsl eru við viðskipti með veiðiheimildir. Að hluta er um sömu ágreiningsatriði að ræða og tvívegis áður hafa orðið tilefni harðra deilna milli sjómanna og útvegsmanna. Það liggur í eðli þessa bakgrunns deilunnar og sjálfri kröfugerðinni að komið getur til kasta stjórnvalda og löggjafans að eiga hlut að lausn deilunnar, þó ekki með því að setja lög á sjómenn eða deiluna. Það væri versti kosturinn að slá því þannig enn einu sinni á frest að reyna að finna aðferðir sem friður getur orðið um auk þess sem íhlutun í vinnudeilur er aldrei annað en neyðaraðgerð. Nei, hitt er jafnljóst að sum atriði deilunnar eða a.m.k. kröfugerðarinnar, svo sem aukin veiðiskylda á eigin kvóta og breyttar reglur um framsal veiðiheimilda, snúa beint að fiskveiðilöggjöfinni. Önnur atriði eins og fyrirkomulag verðlagningar eða verðmyndunar á fiski gætu einnig tengst henni. Þetta er hið sérstaka eðli deilunnar, herra forseti, auk þess hversu stórt og alvarlegt málið er í þjóðhagslegu samhengi.

Allt þetta gerir það að verkum að ég tel óhjákvæmilegt að taka málið upp og fara yfir stöðu þess á þessum næstsíðasta starfsdegi Alþingis áður en verkfall skellur á nk. mánudag ef svo heldur sem horfir.

Ég vil því að lokum, herra forseti, beina spurningum til hæstv. sjútvrh. í þessu sambandi auk þess sem ég vænti þess að fleiri hæstv. ráðherrar, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. til að mynda, reifi sín sjónarmið. Ég spyr hæstv. sjútvrh.:

1. Hvernig metur hæstv. ráðherra stöðuna í deilunni nú?

2. Hvað hefur ríkisstjórnin aðhafst til að reyna að koma á samningum eða a.m.k. hreyfingu á viðræður?

3. Hyggst ríkisstjórnin grípa til einhverra aðgerða eða íhlutunar og þá af hvaða toga?

Ég held að afar mikilvægt sé að það liggi skýrt fyrir, bæði hér á Alþingi og ekki síður gagnvart deiluaðilunum sjálfum, hvort og þá af hvaða toga íhlutun stjórnvalda gæti orðið.