Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:37:34 (3189)

1998-01-29 13:37:34# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:37]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur vakið máls á mjög alvarlegri stöðu sem við blasir þar sem allsherjarverkfall er yfirvofandi á fiskiskipaflotanum. Eðlilegt er að Alþingi taki þetta mál til umfjöllunar. Á hinn bóginn er ljóst að við munum ekki frekar nú en endranær í umræðu sem þessari leysa deilu sem samningsaðilar þurfa að fjalla um.

Hér eru miklir hagsmunir í húfi eins og hv. málshefjandi vakti réttilega athygli á. Reikna má með að sá loðnukvóti sem óveiddur er og væntanlega þarf að veiða á næstu fjórum til fimm vikum geti gefið 6--7 milljarða í útflutningstekjur. Það jafngildir 4--5 milljörðum í tekjum þjóðarinnar. Ef þessi verðmæti töpuðust, þá jafngilti það 1,5% í kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna. Hér eru býsna miklir hagsmunir í húfi.

Þessi deila er sérstök að því leyti að hún snýst fyrst og fremst um verðmyndun á sjávarfangi. Inn í hana blandast önnur atriði eins og sérkröfur vélstjóra. Þær kröfur hafa gert það að verkum að samtök sjómanna hafa ekki átt samleið í þeirri kjaradeilu sem nú stendur fyrir dyrum.

Ef við rifjum aðeins upp þróun verðlagsmálanna þá var með samkomulagi allra aðila ákveðið að hverfa frá miðstýrðu fiskverði árið 1992 með nýrri löggjöf sem þá var samþykkt. Árið 1994 þegar ljóst var að óánægja væri um framkvæmdina í einstökum atriðum af hálfu sjómanna voru ákvæði um sérstaka samráðsnefnd lögfest. Hún dugði ekki til þess að greiða úr og leysa óánægjuna þannig að með sérstöku samkomulagi eftir verkfallið 1995 var lögfest sérstök úrskurðarnefnd til þess að taka á málum þar sem óánægja var varðandi fiskverð. Þetta hefur heldur ekki reynst nægjanlegt til að eyða tortryggni og óánægju af hálfu sjómanna.

Ríkisstjórnin hefur fylgst með þróun þessa máls og þróun viðræðnanna en satt best að segja hefur sú þróun verið lítil og deiluefnið ekki þroskast mjög mikið á milli aðila. Fyrir tæpum tveimur vikum átti ég samtöl við forustumenn deiluaðila og gerði það að tillögu minni að þeir mundu koma til óformlegra viðræðna til þess að kanna hvort hægt væri að koma umræðum á skrið. Að höfðu samráði við ríkissáttasemjara og forustumenn deiluaðila fengum við Ásmund Stefánsson, fyrrv. forseta ASÍ, til að stýra þeim viðræðum. Þær stóðu í síðustu viku. Sl. sunnudag varð uppstytta í þeim viðræðum en á fundi ríkissáttasemjara í gærmorgun ákváðu aðilar að taka þær umræður upp aftur. Þær stóðu í gærkvöldi og í morgun en mér er óhætt að segja að þrátt fyrir þessar tilraunir horfi þunglega um lausn deilunnar. Ég tel þó að þær þreifingar sem farið var út í með tilliti til þess hversu hægt hafði miðað og sérstaks eðlis deilunnar, þ.e. að hún snýst fyrst og fremst um verðmundun, hafi verið til gagns og skýrt stöðuna þó nokkuð.

Varðandi þá spurningu hv. þm. um lagaumhverfi, þá hef ég lýst því yfir við samningsaðila að ríkisstjórnin væri tilbúin til viðræðna við þá sameiginlega varðandi breytingar á lagaumhverfinu. En viðræður þeirra innbyrðis hafa ekki leitt til þess að þeir gætu komið sameiginlega að því borði til lausnar á slíkum viðfangsefnum. Á þessu stigi gildir fyrst og fremst að hvetja samningsaðila til að nýta þann skamma tíma sem til stefnu og finna lausn. Á þeirra herðum hvílir höfuðábyrgðin. Við hljótum að senda þeim þau skilaboð í dag að við ætlumst til þess að þeir nýti tíma sinn til að finna lausn á þessu máli sem hefur svo mikla þýðingu og snertir svo margra hagsmuni.