Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:53:58 (3195)

1998-01-29 13:53:58# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:53]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki þá dul að leggja til lausnir á þessari erfiðu vinnudeilu úr ræðustól á Alþingi. Ég vil nota þessa örstuttu stund til að undirstrika hve gífurlegir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðarbúið. Um 1% samdráttur í hagvexti myndi leiða af bresti í loðnuvertíðinni og loðnan bíður ekkert eftir okkur. Hún bíður ekki eftir því að menn nái samningum eða breyti lögum. Þess vegna er ábyrgð samningsaðila mikil. Það er rétt sem kom fram áðan að þeir hafa fengið þessa auðlind til notkunar og þess vegna er ábyrgð þeirra mikil að setjast niður og ná samkomulagi undir þeim leikreglum sem gilda eða þá gera tillögur hverju þeir vilja að sé breytt. Ábyrgðin er mikil. Allt er tilbúið til að taka á móti loðnu á þeim svæðum sem hafa byggt sig upp til þess. Fjárfestingar hafa verið gífurlegar á síðari árum í þeirri grein. Vertíð hefur verið döpur fram að þessu. Síldveiðarnar hafa brugðist að nokkru leyti þannig að hér yrði afar alvarlegt ástand á vordögum ef þetta verkfall gengur fram og allir verða að leggjast á eitt að koma í veg fyrir það, löggjafinn og samningsaðilar. Með því er ég ekki að segja að löggjafinn eigi að grípa inn í deiluna. Ábyrgð samningsaðilanna er ótvíræð í þessu efni.