Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:00:54 (3198)

1998-01-29 14:00:54# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:00]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Sjómannadeilan er að komast á mjög alvarlegt stig og illt að vita til að aðilar deilunnar skuli varla talast við. Afkoma þjóðarbúsins er undir þessum atvinnuvegi komin eins og hér hefur margítrekað komið fram.

Það skal viðurkennt að lausn deilunnar er mjög flókin og rekst hvað á annars horn þegar kröfugerð sjómanna er skoðuð. Krafan um allan fisk á markað stangast t.d. á við stjórnarskrána að mati lögmanna. Krafan um að auka veiðiskyldu skipa með aflaheimild úr 50% annað hvert ár í 90% hvert ár gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar á sumum stöðum landsins ef samþykkt yrði.

Í fyrsta lagi mun atvinna hundruð manna vera í hættu en á síðasta fiskveiðiári keyptu aðilar í Reykjaneskjördæmi um 19.000 þorskígildistonn af leigukvóta. Einfalt er að benda á að eitt stærsta fiskvinnslufyrirtækið á Suðurnesjum, þar sem starfa á þriðja hundrað manns sem vinna 11 þúsund tonn af fiski á ári, keyptu leigukvóta fyrir um 150 millj. á síðasta ári. Tugir manna frá þessu fyrirtæki munu tapa vinnunni ef leigukvótinn verður tekinn af. Það er staðreynd málsins, sama hvaða hug menn bera til þessa fyrirkomulags. Staða þeirra sem áfram hafa vinnu hjá fyrirtækinu yrði erfiðari og ótryggari.

Í öðru lagi mun leigukvótaverðið hækka upp úr öllu valdi ef framsalið verður aflagt. Framboðið verður miklu minna og nánast lítið en eftirspurnin óbreytt.

Í þriðja lagi munu varanlegar aflaheimildir hækka verulega. Þeir sem hingað til hafa leigt munu sækjast eftir kaupum. Þróunin yrði því þvert á það sem almenningur vill, þ.e. að svokallaðir sægreifar mundu græða meira en nokkru sinni á sameign þjóðarinnar vegna hækkandi verðs bæði á leigu- og eignarkvóta. Þetta er því, herra forseti, vítahringur og ég held að allar kollsteypur í stjórn fiskveiða leiði aðeins til óöryggis hjá sjómönnum og fiskvinnslufólki og geri fyrirtækjum nánast ókleift að skipuleggja starfsemi sína fram í tímann.