Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:11:40 (3203)

1998-01-29 14:11:40# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:11]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum tvö mikilvæg mál varðandi vegagerð í landinu, þ.e. vegáætlun til fjögurra ára, 1998--2002, og síðan langtímaáætlun til tólf ára. Hvort tveggja eru væntanlega afar þýðingarmikil mál í augum margra ef ekki allra landsmanna og skiptir miklu hvernig á er haldið.

Ég ætla að gera að umtalsefni fáein atriði til viðbótar því sem fram hefur komið af hálfu fulltrúa Alþb. í samgn., hv. þm. Ragnari Arnalds, sem kom með margar ábendingar varðandi málið. Ég tek undir þær og alveg sérstaklega varðandi hið takmarkaða fjármagn til þessa málaflokks miðað við þær brýnu þarfir sem fyrir liggja. Afleiðingarnar eru að sjálfsögðu þær að hér er mun minna til skiptanna en þyrfti að vera til vegaframkvæmda.

En aðrir þættir þurfa hér einnig umræðu. Að mínu mati skortir nýja hugsun í sambandi við þessa áætlunargerð og vöntun á því að jafnhliða henni liggi fyrir samgöngustefna fyrir landið, heildstæð samgöngustefna sem framkvæmdir í vegamálum taki mið af og falli að. Á það skortir mjög og það viðurkenndi hæstv. samgrh. í morgun í andsvari. Hann svaraði ábendingum mínum með því að bæta þyrfti úr eða þannig skildi ég orð hans.

[14:15]

Annar þáttur sem ég mun nefna hér varðar þörfina á því að draga úr notkun innlends eldsneytis í okkar vegasamgöngum, okkar samgöngum á landi ekki síður en í öðrum þáttum okkar þjóðarbúskapar vegna þeirra skuldbindinga sem við þurfum að búa okkur undir að uppfylla og liggja raunar þegar fyrir í rammasamningi um loftslagsbreytingar sem við erum aðilar að. En það mun reyna á í mjög auknum mæli á komandi árum að við tökum til hendi og búum okkur undir að uppfylla skuldbindingar sem við þurfum á okkur að taka og liggja fyrir í stórum dráttum eftir ráðstefnuna í Kyoto. Þar á auðvitað þáttur eins og samgöngur á landi, vegasamgöngurnar, sinn hlut að, því þær valda hátt í þriðjungi af losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið og um fjórðungi ef litið er til allra gróðurhúsalofttegunda samanlagt þannig að þar er mjög stórt mál á ferðinni. Ég sé ekki í þessari áætlun að neitt sé verið að hugsa um þau efni og hæstv. ráðherra vék ekki einu orði að þessu þýðingarmikla máli í framsöguræðu sinni.

Síðan eru það mál sem snúa að landsbyggðinni og mínu kjördæmi sérstaklega sem ég ætla að minna hér á og þar hlýt ég fyrst af öllu að koma að því sem hefur þegar verið minnst á í umræðunni, þ.e. að jarðgangaframkvæmdum er ýtt algerlega til hliðar í þessari langtímaáætlun og þar með horfið frá framkvæmdaáformum sem menn hafa gert ráð fyrir að væru í sjónmáli á því fjögurra ára tímabili sem tillaga að vegáætlun er um, en ekkert slíkt er á ferðinni. Jarðgöng eru eingöngu á blaði með fjárveitingu til 12 ára upp á 120 millj. kr. til rannsókna og skiptir það auðvitað sáralitlu fyrir framkvæmdir þó að rannsóknir þurfi auðvitað að koma til.

Varðandi þessa stöðu þá liggur málið þannig að Austfirðingar hafa staðið í þeirri trú --- þá á ég við almenning á Austurlandi, sveitarstjórnarmenn og okkur þingmenn, a.m.k. þann sem hér talar og væntanlega flesta þar til þá nýlega að þessi áætlun var mótuð og liggur fyrir --- að á næsta áætlunartímabili, næstu tveimur árum eða a.m.k. næstu fjórum árum, yrðu undirbúnar og hafist handa við framkvæmdir vegna jarðganga á Austurlandi. Á síðustu langtímaáætlun sem lá fyrir Alþingi og fjallað var um í þingnefnd þó hún yrði ekki endanlega samþykkt, var gert ráð fyrir því að framkvæmdir við jarðgöng á Austurlandi hæfust 1998. Okkur var ljóst eftir að ráðist var í Vestfjarðagöngin og þeim hraðað, að einhver dráttur kynni að verða, eitt eða tvö ár, á því að við þetta væri staðið. Ýtt hefur verið á eftir þessum málum eftir föngum úr kjördæmi, af sveitarstjórnarmönnum, af sambandi þeirra og almenningi, að við þessi markmið yrði staðið. En nú blasir það við að svo er ekki. Þeim er ýtt algerlega til hliðar. Jafnhliða eru settar fram óskir um jarðgangaframkvæmdir af þingmönnum annarra kjördæma sem ég veit ekki hvort eigi að taka alvarlega út af fyrir sig svo augljóst sem það er að röðin er komin að Austurlandi í þessum málum samkvæmt fyrri stefnumótun og allri sanngirni og ber að sjálfsögðu að vísa frá hugmyndum um brigður í þeim efnum.

Í rauninni má segja að ákvarðanir um Hvalfjarðargöng hafi gengið gegn þeim loforðum sem sneru að Austurlandi. Þó að þau séu fjármögnuð á annan hátt er ljóst að þau taka til sín verulegar upphæðir í vegafé, hundruð millj. kr. og kannski hátt í milljarðinn þegar allt er samanlagt sem kemur af vegafé til þeirra framkvæmda og tenginga við þau jarðgöng þannig að þau taka auðvitað frá öðrum framkvæmdum.

Af hálfu hæstv. samgrh. hefur því gjarnan verið svarað til þegar jarðgöng ber á góma á Austurlandi að ekki sé samstaða um það í fjórðungi hvar eigi að byrja. Þetta er málflutningur sem sæmir ekki hæstv. ráðherra því að það er alveg augljóst að á því stendur ekki á Austurlandi að menn taki saman á því verkefni þegar ljóst er að um alvöru er að ræða að ráðast í það að koma sér saman um þetta. Á síðasta ári voru þau mál rædd í hópi þingmanna Austurlands þar sem ég hef ýtt á eftir því að þessi mál væru rædd og stefna mótuð. Þar komu yfirlýsingar frá öllum um að menn mundu leggja sig fram um að móta sameiginlega stefnu, ekki mundi standa á því í hópi þingmanna Austurlands að finna málamiðlun í sambandi við það hvar skuli ráðist í næstu jarðgöng. Allur fyrirsláttur um að það standi á því að vísa á verkefni í jarðgangagerð er út í bláinn og ekki sæmandi ráðherra samgöngumála að hafa slíkt uppi í sambandi við þessi mál.

Það eru mikil vonbrigði að staðan skuli nú vera með þessum hætti þegar þessar áætlanir birtast á Alþingi og mikið undrunarefni í raun að á þetta skuli fallist. Það kemur kannski ekki á óvart með hæstv. samgrh. sem lengi hefur verið við það heygarðshorn að ýta frá framkvæmdum í jarðgangagerð. Hitt kemur meira á óvart að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn skuli hafa fallist á að leggja fram þessar áætlanir með þeim hætti sem hér blasir við. Ég gæti vitnað til margra ummæla sem varða þetta efni. Ég ætla að spara mér það því að tími er hér naumur. En ég minni m.a. á það sem frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi hefur komið og frá framkvæmdastjóra þeirra samtaka sem skrifaði m.a. í Morgunblaðið 22. feb. 1997 um þetta efni, auðvitað mjög hvetjandi, og þessi mál verða til umræðu áfram því að við þetta verður ekki unað.

Margir aðrir stórir þættir varðandi samgöngumál á Austurlandi eru ekki hér á blaði að ég fæ séð. Ég nefni vegalagningu yfir Breiðdalsheiði, þ.e. framkvæmdir á þeim vegi sem ég sé ekki að reiknað sé með að komi til hér eins og á við um þéttbýlisstaði og á það er eðlilega minnt af Austurlandi að svo er ekki og það skiptir mjög miklu máli að stefna sé tekin varðandi þau mál. Það er ljóst að takmarkað fé, allt of naumt skorið fé, verður til þess að ýmsum framkvæmdaþáttum er ýtt til hliðar. Þar eru jarðgöngin stærsti þátturinn en fjölmörg önnur nauðsynjamál koma þar einnig til.

Í sambandi við nýmælin ítreka ég að þar skortir mjög á að eitthvað komi fram sem máli skiptir í þeim efnum. Það er ekki við hæfi að við skulum ekki leitast við hér á samræmdan hátt að draga úr notkun innflutts eldsneytis. Þar eru kostirnir margir. Lagning rafbrauta eða járnbrauta í einhverju formi á að vera til alvarlegrar skoðunar hér og nú. Ekki er orð um þetta. Sama gildir að sjálfsögðu um upptöku rafknúinna bifreiða og aðstöðu til þess að hefja notkun þeirra í þéttbýli sem og í sambandi við nýtt eldsneyti sem liggur kannski eitthvað lengra fram í tímann. Þetta er stórmál sem á að ræða í sambandi við þessar áætlanir og ég mun e.t.v. taka til máls frekar um það síðar í umræðum.