Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:25:56 (3205)

1998-01-29 14:25:56# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:25]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði ekki í mínu máli að framkvæmdir við Hvalfjarðargöng hefðu orðið til að seinka öðrum framkvæmdum. Ég sagði að þær hefðu komið þarna á milli og að fjárveiting sem tengist þeim hefði verið tekin af öðrum framkvæmdum á sama tíma. Hitt er jafnljóst að þær ábyrgðir og annað sem þessu tengdist minnti á þau fyrirheit sem gefin voru 1990--1991 í sambandi við langtímaáætlun þá og hafa í raun legið fyrir síðar, um að Austfirðingar yrðu næstir í röðinni þegar ráðist yrði í meiri háttar vegaframkvæmdir. Þetta er kjarni málsins.

Það er alveg ljóst sem hv. þm. minnir á að Hvalfjarðargöng koma að góðu gagni sem vegaframkvæmd og auðvitað verður ekki farið í sömu uppbyggingu í Hvalfirði eftir tilkomu þeirra. Það er auðsætt mál. En þegar það síðan gerist að hér kemur áætlun til 12 ára þar sem frekari jarðgöngum er ýtt til hliðar, þá verður þessi niðurstaða hörmuleg. Ég skil ekki að nokkur geti réttlætt það að standa þannig að máli í sambandi við áætlanagerð hér, sem á að taka til vegaframkvæmda í heild, að setja nauðsynjamál eins og jarðgangaframkvæmdir til hliðar. Þær verður auðvitað að vinna stig af stigi í áföngum og þar eru verkefnin mörg og brýn. Þess vegna er ekki við hæfi að leggja þær til hliðar eins og hér er gert og kistuleggja slíkar framkvæmdir.