Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:27:57 (3206)

1998-01-29 14:27:57# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er til þess að greiða fyrir því að þingmenn ættu að ná samkomulagi um jarðgöng þegar hv. þm. segir að hann viti ekki hvort taka eigi alvarlega óskir um jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.

Ég vil annars segja, herra forseti, að það er alveg út í hött hjá hv. þm. að halda því fram að skortur sé á nýrri hugsun í þeirri áætlunargerð sem hér er lögð fram og að hér sé ekki um heildstæða stefnu í samgöngumálum að ræða. Þetta er úr lausu lofti gripið eins og ég hygg að hv. þm. sé ljóst. Hann hefur glöggt auga fyrir áætlunargerð og hefur áreiðanlega tekið eftir því að sá mikli munur er á þessari langtímaáætlun og þeim sem áður hafa verið fram lagðar, að hér eru sett fram skýr markmið sem miða að því að reyna að fullnægja frumþörfum þéttbýlisstaða sem ná 200 íbúum eða fleiri, þeim frumþörfum að þangað liggi vegur inn á hringveginn, ekki margir vegir, en að sé hægt komast inn á hringveginn á fullgildum vegi með fullum þunga og bundnu slitlagi. Það er þessi hugsun sem veldur því að vonir standa til þess að Alþingi nái saman um að marka þessa heildstæðu stefnu sem skiptir mestu máli fyrir þá staði sem afskekktastir eru. Í því sambandi vil ég nefna Ísafjarðardjúp. Ég vil nefna Patreksfjörð--Barðaströnd. Ég vil nefna Norður-Þingeyjarsýslu og ég vil líka nefna staði eins og Vopnafjörð og Norður-Múlasýslu sem hv. þm. eru kunnir.

Auðvitað má alltaf, herra forseti, ræða um það að leggja meira fé til vegagerðar en ríkisstjórn leggur fram á hverjum tíma. Þó yrði nú seint svo komið að stjórnarandstaðan mundi kvarta yfir því að of mikið væri lagt fram, of mikil áhersla væri lögð á nýbyggingar vega. Óttaðist ég það raunar ekki núna.

Að síðustu vil ég segja um (Forseti hringir.) lagningu rafbrauta að eftir þeim upplýsingum sem ég hef er svo dýrt að leggja járnbrautarteina milli Keflavíkur og Reykjavíkur að óhugsandi er undir að standa. Reykvíkingar hafa þessi mál í athugun en frumathuganir hafa ævinlega sýnt að kostnaður er of mikill.