Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:37:22 (3210)

1998-01-29 14:37:22# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:37]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Til umræðu er vegáætlun ásamt langtímaáætlun til tólf ára. Það sem telst til nýmæla er að í langtímaáætluninni er fólgin stefnubreyting varðandi markmið og skiptingu í vegamálum. Vonandi fær langtímaáætlunin afgreiðslu á Alþingi nú en síðasta langtímaáætlun fékk ekki afgreiðslu sem ályktun þingsins. Stefnubreytingin hefur verið rakin hér, að það er sett það markmið að tengja þéttbýliskjarna með 200 íbúa og fleiri við hringveginn eins og það er kallað. Þetta felur í sér nýja skiptingu og að hin gamla kjördæmaskipting er þá lögð til hliðar.

Hvað varðar Austurland er að mínum dómi ekki eftirsjá fyrir okkur að gömlu skiptingunni. Eftir að hún hefur verið notuð um alllangt árabil stöndum við mjög illa í vegamálum svo vægt sé að orði komist. Þar eru eftir mjög mikil verkefni eins og hægt er að komast að raun um ef gluggað er í þann verkefnalista sem fylgir áætluninni. Ef fram gengur hefur áætlunin í för með sér miklar framfarir fyrir Austur- og Norðausturland í almennri vegagerð með einstöku undantekningum sem ég kem nánar að á eftir.

Þörf er á því að endurskoða vegáætlun og endurskoða markmiðin og einnig að endurskoða verkefnin í takt við breytta tíma. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr hafa orðið gífurlegar breytingar í umferð á vegum á undanförnum árum, þungaflutningar hafa færst upp á land í auknum mæli og gámaflutningar eru gífurlegir hvort sem þeir eru um fjallvegi eða láglendi. Umferðarmannvirkin þola ekki umferðina. Vegir voru gjarnan lagðir eftir landinu í sparnaðarskyni, ef svo má að orði komast, þar sem umferð var ekki mjög mikil, brýr eru einbreiðar og þola ekki þann þunga sem nýtískuflutningatæki bjóða upp á núna. Eðlilega koma ný verkefni inn í langtímaáætlunina, t.d. í endurbyggingu brúa sem kosta mjög mikla fjármuni.

Þegar farið er yfir langtímaáætlun í vegamálum sem á að gilda til tólf ára vekur það mest umtal sem ekki er í áætluninni. Það er ekki þar fyrir að ég vil minnast á nokkur atriði sem rétt væri að taka til sérstakrar skoðunar í samgn. sem fær frv. til meðferðar að lokinni 1. umr.

Talað er um að tengja þéttbýlisstaði við hringveginn eins og það er kallað. En það er ekki reiknað með því að klára hringveginn á þessum tólf árum. Vegurinn um Breiðdalsheiði tilheyrir þjóðvegi 1, sem hefur til þessa verið kallaður hringvegur. Mér er kunnugt um að reiknað er með því að fara leiðina með fjörðum og klára hana. Það er mikið fagnaðarefni því að þar eru mjög erfiðir farartálmar en eigi að síður er erfitt að skiljast við þessa áætlun án þess að lokið sé við veginn frá Egilsstöðum til Breiðdals um Breiðdalsheiði eða fundin leið innan ramma áætlunarinnar til þess að ljúka við hann á þessum tíma.

Hér hafa spunnist umræður um jarðgangamál. Ég vil aðeins taka fram við 1. umr. örfá atriði í því efni til að undirstrika það sem gert hefur verið á þeim vettvangi. Á Austurlandi hafa um langan tíma verið umræður og undirbúningur undir ákvarðanatöku um jarðgangagerð. Sérstök nefnd hefur skilað skýrslu um þau mál, velt upp ákveðnum kostum þar sem lögð voru til Austfjarðagöng og þar sem lögð var til ákveðin leið, þ.e. að tengja Norðfjörð, Seyðisfjörð aðalvegakerfinu með jarðgöngum um Mjóafjörð. Sú skýrsla liggur fyrir. Þessir kostir hafa verið skoðaðir á Austurlandi um nokkurt skeið og vissulega hefur sýnst sitt hverjum, ég neita því ekki, og skoðanir hafa verið skiptar um forgangsröðun í málinu. Hins vegar er ljóst að algjör samstaða er um að hlíta þeirri niðurstöðu sem sveitarstjórnarmenn og alþingismenn setja í forgang í þessu efni. Ég hef enga trú, og tek undir með 4. þm. Austurl. í því efni, að það verði til trafala varðandi jarðgangagerð.

Hins vegar er það rétt að ekki er gert ráð fyrir jarðgöngum í þessu plaggi nema tiltölulega takmörkuðu fjármagni til rannsókna. Það breytir því ekki að við höldum að sjálfsögðu undirbúningnum áfram á Austurlandi og komumst að niðurstöðu um hvar eigi að byrja, þrengjum hringinn, til þess að það sé hægt að beina rannsóknum að ákveðnum kosti og undirbúa hvar eigi að byrja. Ég lít svo á að Alþingi hafi sagt sitt álit í þessu efni og ég trúi ekki að farið verði að hverfa frá þeirri röð.

[14:45]

Í síðustu langtímaáætlun, þó að hún hlyti ekki endanlega afgreiðslu, er staðfest að vilji þingsins var þá að Austfjarðagöng yrðu tekin á öðru og þriðja tímabili þeirrar áætlunar. Það liggur fyrir í þingskjölum. Ég tel því að Alþingi hljóti að taka mið af sínum fyrri verkum í þessu efni og þeim umræðum sem þar hafa verið, því að þessi jarðgangaferill nær allt til ársins 1987, svo ekki sé farið lengra aftur, þegar framkvæmdir voru hafnar við Ólafsfjarðarmúla og göng þar. Var samkomulag um að Vestfirðingar kæmu næst og síðan var uppi sú almenna skoðun að Austfjarðagöng kæmu þar á eftir. Ég lýsi yfir vilja mínum til að vinna í þeim málum og undirbúa ákvarðanatöku um jarðgöng því að ég tel að þrátt fyrir þessa áætlun eigi það ekki að hafa áhrif á þá undirbúningsvinnu, og vinna verði að því að fá ákvörðun um jarðgangagerð. En aðstæður m.a. á Austurlandi geta leitt til þess að fara verði yfir þetta mál upp á nýtt og fá fram ákvörðun í því máli en ég lýsi því yfir að ég tel að við þingmenn Austurlands eigum að halda okkar striki varðandi þetta mál.

Það var einkum þetta tvennt sem ég vildi koma á framfæri um málefni kjördæmisins. Ég tel að þó að Hvalfjarðargöng hafi verið tekin inn á milli, ef svo má segja, sé það algerlega sérákvörðun. Það voru sérlög frá Alþingi. Það var framkvæmd sem var utan við Vegasjóð og fjármögnuð með veggjaldi og lántökum. Ég tel því að það eigi ekki að hafa áhrif á þá hugsanlegu framkvæmdaröð sem yrði í jarðgangagerð.

Nefna mætti fleiri atriði sem þyrfti að huga að og vafalaust verður hugað að þeim, því áætlunin er til endurskoðunar á fjögurra ára fresti hvað verkefni snertir. Ekki er gert ráð fyrir nýrri tengingu um Hornafjarðarfljót, svo dæmi séu nefnd, í þessari langtímaáætlun. Það er mál sem hefur verið til umræðu á heimavettvangi og væri full ástæða fyrir samgn. að rýna í það mál. Það er ábending frá minni hálfu og mætti lengi telja. Ég efast ekki um að ábendingar eru nægar í þessu efni.

Ég vil ljúka máli mínu með því, enda er tími minn búinn, að hvetja til þess að áætlanirnar hljóti vandaða umræðu, sem ég efast ekkert um, og verði samþykktar sem ályktun Alþingis fyrir vorið.