Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:57:50 (3215)

1998-01-29 14:57:50# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., StB
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:57]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu annars vegar till. til þál. um langtímaáætlun og hins vegar vegáætlun fyrir árin 1998--2002. Það eru vissulega ánægjuleg tíðindi og gott tilefni til að fá tækifæri til að ræða vegamál og fjalla um langtímaáætlun. Það hefur vissulega skort nokkuð á að við reyndum að horfa til lengri tíma hvað varðar framkvæmdir í samgöngumálum en með því að leggja fram langtímaáætlun í vegagerð er komið til móts við þau sjónarmið.

Áætlun um vegagerð er vissulega áætlun um tiltekna byggðaþróun. Ég lít á viðfangsefnið þeim augum því bættar samgöngur auðvelda skipulag allrar þjónustu samfélagsins. Bættar samgöngur lækka kostnað við flutninga á milli landshluta og gera fyrirtækin vítt og breitt um landið samkeppnisfærari til að sinna þjónustu. Bættar samgöngur lækka vöruverðið og eru þess vegna mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir landsmenn alla og ekki síst þá sem þurfa að kaupa vöru sem flutt hefur verið af höfuðborgarsvæðinu út um landið. Eins og allir vita er langmest af því sem flutt er inn til landsins af þjónustu og vöru og selt út um landið selt héðan af höfuðborgarsvæðinu.

Auk þess bæta vegasamgöngur möguleika okkar til að efla ferðaþjónustuna og gera þá atvinnugrein fýsilegri kost til atvinnuuppbyggingar.

[15:00]

En allt sem gera þarf í vegamálum eins og öðru þarf fjármuni og þessari tillögu fylgir áætlun um tekjuöflun. Gert er ráð fyrir að verulegir fjármunir gangi til vegaframkvæmda og á þessu ári séu tekjur til vegaframkvæmda ríflega 7,5 milljarðar en hækki síðan á hinu fjögurra ára áætlunartímabili upp í tæplega 9 milljarða.

Það hefur verið gagnrýnt nokkuð gegnum tíðina að ekki skuli allir fjármunir sem innheimtir eru af umferðinni ganga til vegaframkvæmda. Sú gagnrýni er eðlileg en við höfum hins vegar staðið frammi fyrir því að þurfa að skerða markaða tekjustofna, nýta þá fjármuni til annars svo sem til heilbrigðismála eða mennta- og menningarmála. Við höfum því ekki náð að setja alla þá fjármuni í vegaframkvæmdir sem e.t.v. hefði þurft að gera. Hins vegar er það eðlilegt viðfangsefni og eðlilegt umfjöllunarefni að taka afstöðu til þess hversu miklir fjármunir fari til vegagerðar. Niðurstaðan er sú sem hér birtist og ég geri engar athugasemdir við hana í ljósi stöðu ríkisfjármála þrátt fyrir mikinn bata í þeim.

Samgöngunefnd fær tillögurnar til umfjöllunar og hlýtur þá að líta á þessa vegáætlun og langtímaáætlunina í ljósi annarra samgönguáætlana. Við hljótum að verða að meta nauðsyn framkvæmda í vegagerð út frá stöðunni í siglingum, uppbyggingu hafnarmannvirkja og þróun þeirrar þjónustu sem veitt er með strandsiglingum. Eins hljótum við að líta á þörfina fyrir uppbyggingu vegakerfisins í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið á undanförnum árum í flugsamgöngum. Það er ástæða til að hvetja hv. samgn. til að skoða vegaáætlun í þessu ljósi.

Hér liggur fyrir áætlun um framkvæmdir allt fram til ársins 2010 og tillögur um tilteknar framkvæmdir. Sú veigamikla breyting hefur hér orðið á vinnubrögðum að þingmenn koma ekki eins að tillögugerðinni, skiptingu milli einstakra framkvæmdaáfanga, eins og áður hefur verið. Ég geri ráð fyrir að hæstv. samgrh., sem mælir fyrir þessari tillögu og hefur kynnt hana, hún hefur verið rædd í þingflokkum stjórnarflokkanna og áður í ríkisstjórn, hafi komið að þessari vinnu með einum eða öðrum hætti. Hins vegar er ljóst að Vegagerðin hefur lagt meginlínurnar. Mér sýnist svo vera og sakna þess að hafa ekki haft tækifæri til að koma fyrr að þessu verki en raun ber vitni. Mér þykir síðra að hafa tillöguna fyrirliggjandi án þess að geta rönd við reist nema þá í gegnum störf samgn. Ég vil að hæstv. samgrh. heyri að ég hefði viljað fá tækifæri til að koma að þeirri vinnu eins og eðlilegt er að þingmenn kjördæma fái. En nóg um það. Þessi leið er valin og við þurfum að fjalla um hana.

Þegar við lítum á vegáætlunina sjáum við að mikil áhersla er lögð á viðhald og þjónustu í sambandi við vegakerfið. Kostnaður við almenna þjónustu er mikill. Á fyrsta tímabili langtímaáætlunar er gert ráð fyrir að setja 4 milljarða í almenna þjónustu og 6,3 milljarða í viðhald vega. Þetta eru miklar fjárhæðir en sýna okkur vel hversu umfangsmikið verkefnið er.

Eins og við er að búast vil ég fara nokkrum orðum um það sem snýr að mínu kjördæmi, Vesturlandskjördæmi. Þar hafa orðið heilmiklar framfarir við vegaframkvæmdir á umliðnum árum. Við höfum náð stórum áföngum þó margt sé ógert enn. Í því sambandi vek ég athygli á því sem ég sagði fyrr að það hafa orðið heilmiklar breytingar á Vesturlandi vegna þess að flugsamgöngur hafa nánast lagst af og siglingar til hafna á Vesturlandi tekið miklum breytingum. Nánast allir flutningar sjávarafurða fara landveg þannig að áherslan á uppbyggingu vegakerfisins er enn mikilvægari en áður ef litið er til þeirrar hliðar. Flutningar á sjávarafurðum um vegakerfið valda miklu álagi á vegina sem ekki eru alls staðar mjög burðugir og í því ljósi þarf að meta aðstæðurnar.

Eins og fram kemur í áætluninni eru helstu verkefnin þau --- ég tel ástæðu til að nefna þau hér því hér er um mikilvæg framkvæmdaáform að ræða --- að gert er ráð fyrir að ljúka tengingu við Hvalfjarðargöngin sem eru mikilvæg samgöngubót og munu gjörbreyta samgöngum á Vestur- og Suðvesturlandi. Stefnt er að því að byggja upp hluta af veginum í Norðurárdal þar sem hann fullnægir ekki þeim kröfum sem gera þarf um þjóðveg 1. Gert er ráð fyrir að byggja upp veginn um Bröttubrekku, Vestfjarðaveginn og Svínadal. Byggja á nýjan veg um svokalla Vatnaheiði sem tengir Snæfellsnesið, suður- og norðursvæðið í stað Kerlingarskarðs. Auk þessa er gert ráð fyrir vegi um Kolgrafarfjörð og gert ráð fyrir framkvæmdum við breikkun brúa. Allt eru þetta mikilvægir áfangar en engu að síður hlýt ég að nefna atriði sem ekki er tekin afstaða til. Tímans vegna verð ég að segja frá því í stuttu máli.

Fyrst vil ég nefna að ég tel einsýnt að leita þurfi leiða til að lengja endurgreiðslutímabilið vegna fjármögnunar tenginga við Hvalfjarðargöngin. Það er nauðsynlegt að líta til þess og vil ég því nefna það sérstaklega vegna framkvæmda sem nauðsynlegt er að hraða.

Í þessari áætlun er ekki tekið á vandamálinu við uppbyggingu vegar um Fróðárheiði og Borgarfjarðarbrautarinnar sem eru mjög mikilvægir hlekkir í samgöngukerfinu. Á Snæfellsnesinu er hins vegar tekið á uppbyggingu vegar um Vatnaheiðina en í mínum huga er nýr vegur um Vatnaheiði og varanleg lausn á samgöngum í Kolgrafarfirði nátengd atriði og nauðsynlegt að líta á þau í samhengi. Ég hefði því kosið að í þessari áætlun væri gert ráð fyrir að fara yfir Kolgrafarfjörð en ekki fyrir hann.

Þá vil ég að lokum, herra forseti, nefna að safnvegir mjög víða eiga mjög langt í land, ekki aðeins á Vesturlandi heldur um landið allt. Ég tel mjög nauðsynlegt að samgn. líti til þess að tryggja þarf framkvæmdir og uppbyggingu safnvegakerfisins ekki síður en aðra þætti vegakerfisins.