Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 15:22:43 (3217)

1998-01-29 15:22:43# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[15:22]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það eru einkum tvö atriði sem mig langar til að gera að umræðuefni. Annars vegar er laukrétt hjá hv. þm. að það væri gaman að geta gert meira í vegamálum. Ég man á hinn bóginn ekki eftir því frá síðasta kjörtímabili að flokkur hans hafi verið áhugasamari en Sjálfstfl. um vegagerð og allra síst þegar kom inn fyrir Elliðaár.

Hugmyndin um hálendisveg hefur oft verið rædd mjög ítarlega. M.a. var það í lok síðasta áratugar, frekar en árið 1990, sem ráðstefna var haldin í Mývatnssveit einmitt um möguleika þess að leggja veg yfir Sprengisand og þá í tengslum við það ef kæmi til þess að leggja háspennulínu suður sandinn. Var þá gert ráð fyrir því að reyna að nýta fjármagn svo að kæmi að notum við vegagerð, bæði vegna línulagnar og eins vegna þjóðvegarins sem yrði þá norður í Bárðardal.

Vegalanging af þessu tagi er auðvitað mjög dýr, kannski 2 milljarðar, og mikið hagsmunamál fyrir Norðlendinga og Sunnlendinga ef slíkur vegur yrði lagður. En því miður höfum við enn ekki fullnægt frumþörfunum. Því miður er ekki enn svo komið að búið sé að leggja sómasamlegan veg yfir Snæfellsnesfjallgarð né um Bröttubrekku þannig að maður mundi kannski halda að þingmanni Vesturlands þætti liggja meira á ýmsu öðru en að leggja allan metnað sinn í hálendisvegi.