Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 15:28:02 (3220)

1998-01-29 15:28:02# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[15:28]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kunni betur við tóninn í hæstv. samgrh. núna í stað þess bera það á mig að ég vilji ekki fullnægja frumþörfunum fyrst áður en kemur að þeim málum sem ég var að gera að umræðuefni. Ég vildi benda hæstv. samgrh. á að með þeim frumvörpum sem eru að koma inn á Alþingi er verið að útiloka ákveðna möguleika. Ég bendi hæstv. ráðherra á bókina Ísland hið nýja eftir Trausta Valsson og Birgi Jónsson þar sem fjallað er sérstaklega um vegagerð og vegagerðarmál og fari ég með rangt mál eftir þeirri bók má leiðrétta það. En ég spyr og bið hæstv. ráðherra að svara því: Er það þá rangt sem sett er þar fram að með þessum svæðisskipulagstillögum sé verið að útiloka vegagerð að vissu marki á hálendinu í framtíðinni? Við erum sammála hæstv. ráðherra um að það beri að fullnægja frumþörfum í vegagerð, það beri að lagfæra brýr og vegi á hringveginum þannig að það verði boðlegt með tilliti til öryggis umferðar. Síðan tel ég að samgöngur beri að tryggja innan sveitarfélaga og bendi þá sérstaklega á Snæfellsbæ í mínu kjördæmi þar sem hefur í rauninni verið lofað að gera úrbætur langt umfram það sem nú er, herra forseti.