Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 15:30:01 (3221)

1998-01-29 15:30:01# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[15:30]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í dag ræðum við þáltill. um vegáætlun fyrir árin 1998--2002 og einnig langtímaáætlun í vegagerð fyrir árin 1999--2010, eða alls í um 12 ár. Ég tel að þessar áætlanir séu spor í rétta átt og að hér sé á vissan hátt um ákveðna stefnubreytingu að ræða varðandi áætlanagerð í vegamálum. Það er nauðsynlegt fyrir þingmenn og aðra þegna þessarar þjóðar að fá nokkurs konar heildarmynd af því hvernig vegakerfið kemur til með að líta út í framtíðinni vegna þess að við þurfum að horfa inn í framtíðina hvað samgöngur snertir. Samgöngur eru mjög stór þáttur í allri byggðaþróun og hafa mjög mikil áhrif á byggðamunstur á Íslandi.

Þessi missirin er mjög mikið talað um sameiningu sveitarfélaga og greiðar samgöngur eru stór þáttur í því að mögulegt sé að sameina sveitarfélög, sameina atvinnusvæði og þess háttar. En eins og oft áður vantar sárlega fjármagn inn í þennan málaflokk eins og reyndar í svo marga aðra málaflokka. Ég er á vissan hátt óánægður með það hve seint þingmenn koma að þessu máli. Við höfðum of skamman tíma til að hafa áhrif á grunnvinnuna. En ég treysti því að þegar þáltill. þessi fer til samgn., verði tekið tillit til ýmissa atriða sem ég vil gera athugasemdir við.

Eins og þingheimur veit eru um 25% tengivega landsins í Suðurlandskjördæmi. Alls er vegakerfið á Suðurlandi um 2.900 km en einungis 700 km af þessum 2.900 km eru malbikaðir. Okkur hefur gengið illa að fá fjármagn í tengivegina en það er örlítið komið til móts við okkur varðandi nýjan flokk vega sem kallaðir eru ferðamannaleiðir. Mér finnst hins vegar vanta inn í þann flokk, þegar við erum að velta fyrir okkur þessum ferðamannaleiðum, vegi eins og t.d. Landveginn, þ.e. veginn sem liggur um Landmannahrepp upp að Galtalæk, inn í Landmannalaugar og þar inn að hálendinu. Þessi vegur er einnig mikið notaður til vikurflutninga og það er mjög brýnt að Landvegur verði flokkaður sem ferðamannavegur.

Nákvæmlega á sama hátt er vegurinn að Bakkaflugvelli í Landeyjum ekkert annað en ferðamannavegur. Bakkaflugvöllur er samgönguæð má segja, ein af samgönguæðum Vestmannaeyinga við fastalandið og þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að flokka þann veg undir ferðmannaleið. Það er og vert að vekja athygli á því í þessari umræðu hve dýrt er fyrir Vestmannaeyinga að nýta sér þjóðveginn milli lands og eyja, þ.e. að nýta Herjólf. Það er gríðarlega dýrt fyrir Vestmannaeyinga og full ástæða til þess að skoða þau mál enn þá nánar.

Annað vekur athygli mína í umræðunni þegar verið er að tala um t.d. gangagerð, að þá er Suðurland aldrei nefnt á nafn. Mér finnst full ástæða til þess að menn skoði af alvöru hvort ekki sé ástæða til þess að kanna hvort t.d. ætti ekki að grafa göng í gegnum Hellisheiði og tengja þannig Suðurland betur við höfuðborgarsvæðið. Ég ek þessa leið nánast á hverjum einasta degi og það er gríðarleg umferð á þessum slóðum. Ég er fyrst og fremst að tala um að kanna hvort þessi þáttur sé arðbær. Þá er ég líka að velta fyrir mér hlutum eins og að fjármagna slíka framkvæmd líkt og Hvalfjarðargöngin.

Það styttist einnig í þáltill. um göng til Vestmannaeyja og þess vegna finnst mér engin ástæða til annars en að Suðurland sé með í umræðunni þegar menn tala um gangagerð. Við þurfum líka að taka tillit til þess hve mikil umferð er á þessum svæðum og ég hvet þess vegna hæstv. samgrh. til að hafa okkur með í því tali.

Það er annað sem mér finnst full ástæða til þess að vekja athygli á og verja ákveðnu fé til þess að rannsaka, þ.e. arðsemi framkvæmda eins og t.d. svokallaðs Suðurstrandarvegar sem tengir Suðurland við Reykjanes. Það mundi gjörbreyta samskiptum og atvinnumynstri á þessum svæðum. Mér finnst líka full ástæða, eins og hv. þm. Gísli Einarsson benti á áðan, að rannsaka möguleika á hálendisvegi á milli Suðurlands og Norðurlands, reikna út arðsemi og þar fram eftir götum. Við getum líka nefnt framkvæmdir eins og við Uxahryggjaveg og tengja þannig saman Suðurland og Vesturland. Ég er ekki að tala um að við eigum að ráðast strax í þessar framkvæmdir heldur að könnun verði gerð á því hvort það sé arðsamt.

Enginn má þó skilja orð mín þannig að ég geri mér ekki grein fyrir því að við þurfum að fullnægja öllum grunnþörfum í vegamálum áður en ráðist er í jafnstórar og miklar framkvæmdir og ég er að benda á. En mér finnst þegar við erum að skyggnast inn í framtíðina að þá sé sjálfsagt að hafa þetta inni.

Ég sé líka í þessari áætlun, og það gleður mig mjög, að Vegagerðin er að ráðast í breikkun brúa. Með bættu vegakerfi hafa þessar þröngu brýr okkar verið ákveðinn farartálmi og ákaflega hættulegar en í þessari áætlun er gert ráð fyrir að ráðast í framkvæmdir hvað það varðar.

Að lokum vil ég að það komi fram að hér er um spor í rétta átt að ræða. Mér finnst engu að síður þegar við fjöllum um vegamál til svona langs tíma að við þurfum að vera nokkuð djarftæk í hugmyndaflugi og hugflæði.