Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 15:42:39 (3224)

1998-01-29 15:42:39# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[15:42]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég staldraði aðeins við hugmynd þingmannsins um jarðgöng í gegnum Hellisheiði að hluta til. Mér finnst það dálítið djörf hugmynd svo ekki sé nú fastar að orði kveðið en auðvitað er það hugmynd sem er vert að skoða. Vissulega er það oft þannig að ýmsar gagnlega framkvæmdir hafa í upphafi komið fram sem óvæntar hugmyndir. Þannig að það að hugmynd þyki djörf er ekki ástæða til að vísa henni á bug.

Hins vegar finnst mér að nær mundi vera fyrir Sunnlendinga og þjóna þeirra hagsmunum betur og að byggja upp svokallaðan Suðurstrandarveg og koma þar á mjög öruggum samgöngum milli Suðurlandsundirlendis og Suðurnesja og síðan þaðan til Reykjavíkur ef á þarf að halda. Það hefði líka þann kost sem vegabætur á Hellisheiði hefðu ekki, að tengja saman sjávarútvegssvæðið á Suðurnesjum og Hafnarfirði við sjávarplássin á Suðurlandi, þ.e. Þorlákshöfn og Vestmannaeyjar, sem ég held að væri mjög áhugavert að gera.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, segja að ef menn eru að velta fyrir sér hugmyndum af stærðargráðu eins og þeirri að grafa jarðgöng í gegnum Hellisheiði að einhverju leyti --- sem ég veit ekki alveg hvað gætu orðið löng en ímynda mér að það hljóti að vera vegalengd upp á sex til átta eða níu kílómetra --- hvort ekki væri þá ástæða til að breyta hugmyndinni lítils háttar, einkum í ljósi þess sem ég segi um Suðurstrandarveg, og skoða möguleikana á jarðgöngum til Vestmannaeyja.