Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 15:45:02 (3225)

1998-01-29 15:45:02# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[15:45]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hinum víðsýna þingmanni, sem að hluta til fékk uppeldi sitt á Suðurlandi ef ég man rétt, fyrir að taka vel í þessar hugmyndir. Hv. þm. velti fyrir sér lengd þessara jarðganga sem ég er í raun að ræða um á algerum byrjunarreit. Ég hef látið mæla út ákveðið svæði á þessum stað sem er liðlega 8 km. Talið er að slík jarðgöng mundu kosta svipað og Hvalfjarðargöngin kosta í dag. Þetta er ekki eitthvað sem gerist í dag eða á morgun en það er sjálfsagt að slá þessum hugmyndum fram og sjálfsagt að skoða þetta í þaula. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. að Suðurstrandarvegur er mörgum Sunnlendingum og reyndar Reyknesingum mjög hugleikinn vegna þess að ef hann yrði að veruleika þá værum við sannarlega að tengja saman atvinnusvæði bæði hvað fiskiðnað snertir og einnig varðandi ferðaþjónustu. Þetta eru atriði sem vert er að skoða.