Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 15:46:45 (3226)

1998-01-29 15:46:45# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[15:46]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er vel við hæfi í umræðu um langtímaáætlun í vegamálum þar sem menn horfa 12 ár fram í tímann að velta fyrir sér hugmyndum sem virðast vera fjarri nútímanum. Við skulum minnast þess að ekki eru nema 15 ár síðan það var einróma álit þingmanna Vestfjarðakjördæmis og Vegagerðar ríkisins að um tómt mál væri að tala að gera 3,5--4 km löng jarðgöng um Óshlíð. Það var talið óviðráðanlegt verkefni bæði tæknilega og fjárhagslega. Í dag væri það ekkert áhorfsmál að menn mundu velja þann kostinn ef þingmenn kjördæmisins stæðu frammi fyrir því í dag sem var fyrir 15 árum, þ.e. að velja á milli jarðgangahugmyndar og endurbyggingar á þáverandi vegi.

Ef við horfum aðeins fram í tímann skulum við minnast þess að í dag eru uppi miklar hugmyndir um að gera jarðgöng á milli landa. Þar nefni ég göng á milli Englands og Frakklands, sem reyndar eru orðin að veruleika, og líka milli Englands og Írlands. Það eru líka svipaðar hugmyndir uppi á Norðurlöndum, þ.e. að gera göng á milli eyja og landa. Það er því ekki fráleitt að eftir 10--15 ár stöndum við frammi fyrir allt öðrum veruleika hvað þetta varðar en við gerum í dag. Það er því ekki nema eðlilegt að menn velti fyrir sér að draga slíkar hugmyndir inn í umræðuna og ég skora á hv. þm. að beita sér fyrir því sem þingmaður Suðurlandskjördæmis að láta skoða í alvöru þá hugmynd að gera jarðgöng til Vestmannaeyja.