Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 15:52:01 (3228)

1998-01-29 15:52:01# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg þessarar umræðu um vegáætlun og langtímaáætlun í vegagerð sem verið er að ræða. Saga þessarar áætlunargerðar er með nokkuð skrautlegum hætti í tíð hæstv. samgrh. Til að mynda er þannig ástatt um þessar mundir að starfað er samkvæmt hálfri vegáætlun. Það nýmæli var tekið upp síðast að afgreiða vegáætlun til tveggja ára. Nú kemur langtímaáætlun sem að vísu tekur samkvæmt vegalögum til tólf ára tímabils en margt mætti líka segja um aðdraganda hennar og langar fæðingarhríðir sem þar eru á undan gengnar. Það er t.d. athyglisvert að þetta er fyrsta áætlunin sem hér er lögð fram, ef ég veit rétt, af núv. hæstv. samgrh. eftir tæp sjö ár í embætti, þannig að á ýmsu hefur gengið.

Ég verð einnig að segja, herra forseti, sögunnar vegna að ég harma það að hæstv. ráðherra skyldi ekki standa svipað að undirbúningi þessarar áætlunar eins og áður hafði tíðkast, þ.e. að kalla fulltrúa allra þingflokka að því undirbúningsstarfi. Ég held að það sé mjög miður að menn ,,pólaríseri`` vinnu af þessu tagi þegar um langtímaáætlunargerð og stefnumótun í málaflokki er að ræða, eins og hér er á ferðinni, áætlanagerð og stefnumótun til þriggja kjörtímabila og rúmlega það þannig að vænta má þess að pólitískir sviptivindar þýði einhver stjórnarskipti og breytingar á áherslum á þeim tíma. Þá liggur það í hlutarins eðli, herra forseti, að miklu betra sé fyrir stöðugleika og fagleg vinnubrögð á þessu sviði að reynt sé að leita þverpólitískrar samstöðu um grundvöll áætlunargerðarinnar og undirbúningsvinnuna. Það verður best gert með því að gefa fulltrúum allra stjórnmálaflokka og þingflokka kost á að koma að því verki. Þannig hafði það ætíð verið í tíð margra samgönguráðherra á undan þeim sem nú situr, í minni tíð, í tíð Matthíasar Bjarnasonar, í tíð Steingríms Hermannssonar, Ragnars Arnalds og ég hygg jafnvel fleiri hæstv. samgönguráðherra sem komið hafa að verki á þeim tíma sem áætlunargerð af þessu tagi hefur tíðkast. En auðvitað verður hver að velja sér verklag og hæstv. ráðherra hefur sem kunnugt er að mestu leyti horfið frá því að hafa þverpólitískt samstarf um hlutina og situr að sjálfsögu uppi með afleiðingarnar og ábyrgðina af því.

Herra forseti. Gallinn á þeirri ágætu vegáætlun og langtímaáætlun, sem hér er lögð fram, er sá að hún byrjar jafnilla og hún á endar fallega. Þannig er um glæst áform að þau verða þeim mun trúverðugri sem menn hafa staðið sig betur í raunveruleikanum og hafa af meiru að státa í verkum sínum sem af er. Staðreyndin er sú að það eru verkin sem tala skýrast og eru hinn eini raunhæfi dómur á frammistöðu manna og hæstv. samgrh. verður að kyngja því að hann hefur látið fara verr með sig en nokkurn samgrh. fyrr og síðar, a.m.k. fyrr, hvað varðar það að stela tekjum Vegasjóðs í ríkissjóð.

Herra forseti. Það er harla ótrúverðugt að leggja fram vegáætlun af þessu tagi, sem felur í sér að hætta eigi með öllu að krukka í tekjur Vegasjóðs frá og með næsta eða a.m.k. þar næsta ári, þegar talað er út frá þeirri staðreynd og á því ári þegar meira er gert upptækt af tekjum Vegasjóðs í ríkissjóð í miðju góðærinu en nokkru sinni fyrr. Hér er á ferðinni sá hæstv. ráðherra sem hefur orðið að sæta því flestöll árin í embætti að meira eða minna af tekjum Vegasjóðs hefur verið gert upptækt úr höndunum á honum og runnið í ríkissjóð.

Sú skerðing er núna samkvæmt fjárlögunum sem afgreidd voru fyrir jólin upp á litlar 1.164 millj. kr. Það er drjúgur hluti af fjárlögunum. Það er yfir 1% eða nálægt 1% (KHG: 3 millj. á dag.) af fjárlögunum, 3 millj. á dag, og svo geta menn haldið áfram að reikna, þeir sem eru flinkir í því, hvað þetta eru margar krónur á mínútu eða guð má vita hvað. Það er því ekki mjög trúverðugt að úr því að ekki gekk betur í sjálfu góðærinu, með tekjuafgang úr ríkissjóði, með miklar viðbótartekjur og skatttekjur af umferð, að halda þeim inni í Vegasjóði, að setja svo upp áætlun af þessu tagi sem í raun byggir öll á þeim sandi að þeirri skerðingu verði allri hætt. Áætlunin er með öðrum orðum þannig, herra forseti, að allur þungi framkvæmdanna á að byggjast á því að horfið verði frá skerðingu markaðra tekna. Reyndar er í mörgum tilvikum athyglisvert hversu stór hluti framkvæmdanna á beinlínis að vinnast á allra síðustu árunum, á árunum frá 2007--2010. Segja má að margar af þeim framkvæmdum eigi að vinnast í desember árið 2010, sem hæstv. ráðherra er hér að lofa, og það er ekki mjög trúverðugt. Það er ekki mjög gott.

Mér urðu það t.d. mikil vonbrigði hvernig ákveðin verkefni hverfa úr þessari langtímaáætlun þó að þau séu þar á blaði. Ég nefni þar, og kemur kannski ekki á óvart, hið stóra átak sem er að koma norðausturhorni landsins í nútímalegt vegasamband. Þar eru á ferðinni t.d. bara á leiðinni frá Húsavík til Þórshafnar, 2.600 millj. kr. framkvæmdir að áætlað er, en þunginn af þeim framkvæmdum á að vinnast á síðasta tímabili áætlunarinnar. Ekki er auðvelt að sjá að það vegakerfi geti beðið að miklu leyti án úrbóta í átta ár. Ég held að það hefði breytt miklu fyrir fólk á því svæði og gagnvart þeirri framkvæmd ef menn hefðu spýtt í lófana og gert myndarlegt átak þó ekki hefði verið nema fyrstu eitt, tvö árin, t.d. í að ryðja út versta þröskuldinum sem er Tjörnes eða Auðbjargarstaðabrekka, þó menn hefðu jafnvel orðið að sætta sig við að slaki hefði komið í framkvæmdirnar aftur. En að byrja þetta með niðurskorinni vegáætlun ársins í ár þar sem eru nánast engar framkvæmdir og síðan minna en helmingi á fyrsta tímabili á við það sem á að vera á því síðasta er ekki mjög trúverðugt. Það er von að fólk verði tortryggið þegar því eru sýndir slíkir pappírar.

Ég vil leyfa mér að spyrja að því hvort útilokað sé að einhver tilflutningur verði innan verkefna í verkefnaflokknum Ný verkefni sem svo heitir og er rökstutt m.a. út frá þeirri forsendu að markmiðið sé að koma bundnu slitlagi til allra þéttbýlisstaða með 200 íbúum eða fleiri.

[16:00]

Herra forseti. Ég geri þá sérstöku athugasemd við þessa vegáætlun að ég held að það sé langt frá því að settur sé nægur kraftur í að bæta úr þeim hluta vandans sem er mest knýjandi nú, þ.e. að er að útrýma malarvegunum og koma vegum með bundnu slitlagi í grófum dráttum til allra helstu byggðarlaga í landinu. Ég held að það hefði átt að gera alveg sérstakt þjóðarátak í því að koma þessum vegum fortíðarinnar út úr myndinni, út úr heiminum. Þetta eru ekki vegir í skilningi dagsins í dag. Þeir þjóna á engan hátt þeim markmiðum sem við hljótum að setja okkur varðandi umferðaröryggi, burðarþunga, afnotagildi og annað því um líkt.

Þó að það sé aldrei ámælisvert að fara á flug og vera með vangaveltur um að það ætti að kanna þetta og hitt upp á framtíðina, eins og jarðgöng til Vestmannaeyja, jarðgöng undir Hellisheiði eða hálendisveg eða hvað það nú er finnst mér menn býsna borubrattir að vera í slíkum vangaveltum á meðan ástandið er jafnhörmulegt og raun ber vitni hvað varðar grundvallarsamgöngur heilla byggðarlaga og landshluta. Átakið þarf að beinast að því að koma þeim landshlutum og þeim byggðarlögum sem eftir eru í nútímalegt vegasamband. Það eru Vestfirðir, það er vestanvert landið að hluta til og það er norðausturhornið og svæði á Austfjörðum. Þessi svæði standa algjörlega upp úr hvað það varðar að samgöngur heilla byggðarlaga og landshluta eru á malarvegum svo tugum eða hundruðum kílómetra skiptir á landi. Þetta gengur ekki, eins og ég veit að hæstv. samgrh. gæti átt til að taka til orða. Það er allt of mikill hægagangur í því að lofa fólki einhverjum úrbótum þegar liðinn verður næstum áratugur af næstu öld.

Ég held t.d. að einhver allra besta fjárfesting sem menn hefðu getað ráðist í og þá ráðstafað til þess tekjum úr ríkissjóði en ekki sífellt að hafa það fjárstreymi öfugt, að vera að stela tekjum af Vegasjóði, væri að leggja eins og milljarð kr. á ári í þrjú til fjögur ár af skatttekjum til viðbótar vegafénu í að gera sérstakt átak í þessum efnum. Menn geta fært það sem byggðaátak alveg eins og samgöngupólitískt átak mín vegna ef þeim líður eitthvað betur.

Ég segi þetta, herra forseti, og ég áskil mér allan rétt og hef allan fyrirvara á um það að geta stutt þá útfærslu sem hér er lögð til, t.d. hvað varðar dreifingu framkvæmdafjárins á framkvæmdum á norðausturleiðinni. Ég minni á tillögu mína til þál. á þskj. 60, sem ég flyt ásamt fleiri hv. þm. úr þingflokki Alþb. og óháðra um sérstakt átak í vegtengingu afskekktra landshluta.

Mig undrar, herra forseti, að hér skuli jarðgöngum í raun og veru vera ýtt út af borðinu. Ég verð að segja alveg eins og er að fyrir nokkrum árum hefði ég seint trúað þeirri niðurstöðu að t.d. þingmenn Austurlands stæðu að tillöguflutningi af því tagi. Nokkuð þykja mér þeir orðnir geðlitlir þeir garpar að sætta sig við að tillaga af þessu tagi komi á inn á borð þingmanna þar sem jarðgöng eru hvergi inni í myndinni, engin einasta króna ætluð í þau.

Auðvitað liggur í hlutarins eðli að það verður mjög erfitt ef menn ætluðu síðan að reyna að koma þeim inn í áætlun sem búið væri að samþykkja og ryðja þá öðru út. Menn skulu þá átta sig á því að verið er að leggja til að ekkert verði ráðist í slíkar framkvæmdir næstu tólf árin. Það er ég ekki tilbúinn til að skrifa upp á, m.a. vegna þess að ég lít svo á að um það hafi verið gert pólitískt samkomulag, sem mönnum beri nokkur skylda til að reyna að efna, að röðin kæmi að Austurlandi í kjölfar þess að framkvæmdum lyki á Vestfjörðum. Orð skulu standa, herra forseti, og ég vil a.m.k. standa við minn hlut í þeim efnum.

Herra forseti. Margt fleira hefði ég gjarnan viljað segja en tíminn leyfir það ekki. Því miður verð ég að láta nægja að endurtaka þau orð mín að það dapurlega við þessa áætlun er að hún á að enda jafnfallega og hún byrjaði illa.