Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:04:36 (3229)

1998-01-29 16:04:36# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:04]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég er auðvitað sammála hv. þm. Steingrími Sigfússyni um að brýn nauðsyn er til þess að gera átak til þess að ryðja burt malarvegunum. Ég er líka sammála honum um að mönnum er vandi á höndum þegar þeir eru að gera það upp við hvaða framkvæmd eigi að sitja fyrir annarri. Svo ég taki kjördæmi okkar var það t.d. álitamál hvort Fljótsheiði ætti að sitja fyrir Tjörnesi, svo ég taki gott dæmi. En niðurstaðan varð nú að láta Fljótsheiðina sitja fyrir eins og hv. þm. man.

Ég vek líka athygli á því að hv. þm. lauk ræðu sinni eins og ýmsir aðrir sem hafa talað hér með því að flytja eggjunarorð um að það væri geðleysi að sætta sig við að ekki væri gert ráð fyrir jarðgöngum á þessu 12 ára tímabili. Rök hans voru þau að síðar væri ekki hægt að koma inn jarðgöngum nema ryðja öðru út. Orð hans verða ekki skilin öðruvísi en að hann telji að erfiðlega muni ganga í framtíðinni að ná meiri fé til vegamála en hér er gert ráð fyrir að því leyti sé áætlunin raunsæ. Ég er að vísu ekki sammála honum um það og tel óhjákvæmilegt að ráðast í stórframkvæmdir á þessu 12 ára tímabili sem eru ekki inni í áætluninni.

En ef það er skoðun þingmannsins að ekki sé hægt að koma jargöngum inn í þessa 12 ára áætlun nema ryðja öðru út þá hlýtur það líka að eiga við ályktunina eins og hún liggur fyrir hér þannig að orð hans verða ekki skilin öðruvísi en að hann telji að jarðgöng og kostnaður við slík ættu að ryðja ýmsum vegaframkvæmdum út sem þó er gert ráð fyrir.