Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:10:46 (3232)

1998-01-29 16:10:46# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. er nú stórbrotinn þegar hann kemst á flug í útúrsnúningum sínum. Ég sagði ekkert af því tagi sem hæstv. ráðherra var að reyna að segja áðan. Að ég hefði lýst því yfir að jarðgöng á Austurlandi ættu að sitja fyrir jarðgöngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, ég sagði ekkert af því tagi. Ég fór yfir bakgrunn málsins og söguna eins og hún liggur fyrir. Það er best að nota rétt orð í þessum efnum, ég talaði um pólitískt samkomulag og það var pólitískt samkomulag. Það var auðvitað meira en það vegna þess að Alþingi samþykkti endurtekið í vegáætlun eftir vegáætlun fé til undirbúnings jarðgangaframkvæmd á Austurlandi. Þetta veit ég að hæstv. samgrh. hlýtur að vita, a.m.k. geta rifjað upp og þá með hjálp góðra manna ef ekki vill betur til. Þetta liggur alveg fyrir. Í ljósi þessa sagði ég að mig undraði það geðleysi þingmanna Austurlands að samþykkja þetta plagg til framlagningar.

Hitt er svo alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, og auðvitað er tilgangurinn með því að endurskoða vegáætlun eins og aðra áætlanagerð, að aðstæður breytast. Menn geta að sjálfsögðu tekið nýjar pólitískar ákvarðanir. Menn framselja ekki vald eða ganga ekki frá því um aldur og ævi þó að stefna sé mótuð. Þar af leiðandi ber t.d. að endurmeta aðstæður þegar þær hafa breyst eða nýir hluti komið til sögunnar eins og segja má að gerist nú á Mið-Norðurlandi hvað varðar tengingu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og reyndar í stærra samhengi hugmyndir sem ég tel að séu mjög áhugaverðar, sem er einhvers konar stór bogi til norðurs, strandleið, þar sem vegur yfir Þverárhlíðarfjall gæti verið hluti af og myndað nýja samgönguæð sem tengdi byggðakeðjuna og þéttbýlisstaðina við ströndina frá Blönduósi um Skagaströnd, Sauðárkrók, Hofsós, Siglufjörð, Ólafsfjörð, Dalvík og áfram inn á Akureyri. Enginn vafi á því að slík megintenging gegnum byggðina með ströndinni væri geysilega spennandi kostur sem framtíðarmarkmið í þessum efnum þó það hljóti að taka nokkur ár. En auðvitað þarf alltaf að hafa þessa hluti til endurmats og skoðunar en eftir sem áður ber að reyna að láta orða standa og gangast við hlutunum eins og þeir liggja fyrir og það hef ég a.m.k. ætlað mér að gera, hvort sem það snertir jarðgöng á Austurlandi eða eitthvað annað.