Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:13:23 (3233)

1998-01-29 16:13:23# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:13]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna því að í fyrsta skipti er lögð fram þáltill. sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að skipuleggja vegaframkvæmdir 12 ár fram í tímann. Í mínum huga eru það stórpólitísk tíðindi að samgrh. skuli hafa styrk til að geta lagt slíkt plagg fram og ég hygg að ekki hafi áður reynt í raun eins rækilega á það hvað hægt er að ná fram með mikilli vinnu eins og mér finnst vera í þessu tilviki. Að sjálfsögðu er bæði stórpólitískt og mikið byggðamál að átta sig á því hvaða leiðir eru fram undan og hvernig leysa á úr þeim þáttum sem snúa að byggðinni í heild og hvernig löggjafinn og framkvæmdarvaldið hugsa sér að gera það saman.

Ég er einn af þeim sem hafa haft mikið mál um það í hv. Alþingi hversu brýnt sé að malbika t.d. allan hringveginn ásamt tengingum til allra þéttbýlisstaða landsins enda er það eitt mesta byggðamálið sem hugsast getur að koma samgöngum í það horf að hægt sé að tala um að við séum á 20. öldinni eða jafnvel í upphafi 21. aldarinnar. Ef eitthvað er hefur þetta dregist allt of lengi.

[16:15]

Ég fagna því að menn sjá fyrir endann á þessu þó framkvæmdir séu ekki komnar af stað en unnið verður samkvæmt þessari áætlun. Og ég held að engin ástæða sé til að ætla, þegar plagg eins og þetta hefur verið samþykkt í þinginu, að þó svo að nýtt kjörtímabil hefjist á næsta ári verði það til þess að menn fari að hlaupa út undan sér og svíkja það sem Alþingi hefur ákveðið, eins og í þessu tilfelli, eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur áðan, að efast um heilindi á bak við plagg eins og hér liggur fyrir. (ÁRJ: Hafa þær ekki allar verið sviknar?) Hv. þm. kallar hér fram í og spyr hvort þær hafi ekki allar verið sviknar. Ég held að það sé misjafnt og í þessu tilfelli held ég að engin ástæða sé til að ætla það, enda geri ég ráð fyrir því að Sjálfstfl. fari með þessi mál á næsta kjörtímabili og þá getum við staðið við það sem hér hefur verið lagt fram. Ég vona að kjósendur sjái til þess að svo verði, að við fáum styrk til að stýra þessum málaflokki áfram. Það er þó a.m.k. trygging fyrir því að hægt sé að standa við það sem hér er lagt til.

Ég vil fagna því líka hversu mikið af þeim málefnum sem kjördæmin hringinn í kringum landið hafa lagt fram á undanförnum árum, koma fyrir í þessari áætlun. Það er ekki einungis að verið sé að malbika hringveginn og tengivegi eins og á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og víðar heldur er einnig verið að laga leiðir sem lengi hafa þótt erfiðar eins og yfir Snæfellsnesfjallgarðinn með vatnaleiðinni og yfir Tröllatunguheiði, með styttingu leiðarinnar vestur á firði til Ísafjarðar með þeirri tengingu og fleiri leiðir sem hafa verið hér til umræðu.

Með þessari áætlun er einnig gefinn möguleiki á að hægt að sé að ljúka við aðrar þjóðvegaframkvæmdir eða stofnvegaframkvæmdir, eins og nefndar eru í þessari áætlun, með framlögum sem þingmenn geta sjálfir skipt og þar lít ég svo á að hægt sé að sinna verkefnum sem ekki koma fram í áætluninni beint. Vil ég þá nefna leiðir eins og Suðurstrandarveg sem hefur verið á óskalista Reyknesinga og Suðurlandskjördæmis. Slík leið mundi skiptast nokkurn veginn að jöfnu milli kjördæmanna en hvort kjördæmi um sig hefur 750 millj. á þessu tímabili til að sinna slíkum óskráðum verkefnum, verkefnum sem ekki eru skráð í þessari áætlun. Bæði kjördæmin ættu því að hafa möguleika á að koma þeirri leið á enda á tímabilinu. Hvort það tekst fyrr verður að koma í ljós.

Aðrar leiðir koma einnig þarna inn í og vil ég sérstaklega tiltaka leiðina út á Snæfellsnes yfir Fróðárheiði og vestur á fjörðum sem gæti hæglega, eftir því sem þingmenn kjördæmisins velja, orðið með bundnu slitlagi mun fyrr en gert er ráð fyrir í þessari áætlun vegna þess að þingmenn telja brýnt að ljúka þeim leiðum. Ég held því að opnað sé fyrir það að koma brýnum verkefnum af stað sem ekki eru á áætluninni og eins eru gríðarlega mikilvæg verkefni á þessari áætlun sem sjá dagsins ljós.

Þar vil ég sérstaklega tiltaka Reykjanesbrautina sem verður samkvæmt þessari áætlun tvöfölduð alla leið til Reykjanesbæjar frá Kópavogshálsi. Leiðinni frá Kópavogshálsi og niður Breiðholt og þaðan eftir Sæbraut og niður á Granda verður væntanlega breytt þannig að gatnamót sem eru þar verulega mikil verða gerð mislæg sem er reyndar mjög dýrt. Gatnamótin við Kringlumýrarbraut verða mislæg og svo mætti lengi telja. Breytingar á Hringbrautinni eru líka inni í þessari áætlun og lagfæringar vegna mikillar mengunar sem kvartað hefur verið yfir af íbúum þessa svæðis. Við erum því að tala um feiknalegar breytingar á höfuðborgarsvæðinu jafnframt því sem við erum að fylla upp í þær glufur sem menn hafa horft til á Reykjanessvæðinu sjálfu.

Þegar þessi áætlun hefur runnið sitt skeið verðum við búin að sjá að Reykjanesbrautin verður tvöföld alla leið til Reykjanesbæjar ásamt lúkningu Suðurstrandarvegar, eins og ég sagði áðan. Tengivegir sem hafa þar að auki vægi í þessari áætlun, eins og vegur um Bláfjöll, Nesvegur frá Reykjanestá til Grindavíkur, Meðalfellsvegur, Ósabotnavegur og fleiri vegir eru innan áætlunar sem tengivegir.

Annar stofnvegur sem mætti minnast á er vegurinn út á Álftanes sem gert er ráð fyrir að falli innan höfuðborgarsvæðisins. Hann er einnig inni á þessari áætlun. Ég held því að þó svo að menn sjái þetta ekki á næstu tveimur til fjórum árum, þá geri það okkur kleift, þar sem við erum með fjármuni til allra þessara verkefna, að flýta þeim ef þingmenn og framkvæmdarvaldið telja það nauðsynlegt.

Hvað varðar Reykjanesbrautina tel ég að þar höfum við möguleika á að flýta tvöfölduninni verulega með t.d. svonefndu skuggagjaldi sem hefur oft verið til umræðu og felst í því að verktaki er fenginn til að framkvæma verkið og fjármagna það um leið, en endurgreiðslan fari fram í formi fjárveitingar á vegáætlun í takt við þá umferð sem um vegina fer og gæti fjármögnun og endurgreiðsla hennar þá tekið mun lengri tíma en áætlunin gerir ráð fyrir. Það væri að sjálfsögðu samningsatriði. En aðalatriðið er að hægt væri að ljúka verkefninu miklu fyrr en ella. Þannig hef ég a.m.k. séð fyrir mér að við gætum flýtt Reykjanesbrautinni þótt það sé ekki komið á neitt annað stig en að vera til umræðu manna á meðal. Ég mun alla vega sem þingmaður Reyknesinga leggja áherslu á að sú framkvæmd gæti orðið mun fyrr en gert er ráð fyrir í þessari áætlun. Ég hygg að margir hafi hug á að gera eitthvað slíkt en það kemur í ljós hvernig það vinnst.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en vil ítreka ánægju mína með þessa áætlun og þann mikla stórhug sem fylgir henni. Ég veit að margt vantar eflaust upp á að öllum finnist sinn hlutur nógur og skil ég það vel að Austfirðingar vilji fá göng. En eins og komið hefur fram eru það framkvæmdir sem ekki er útilokað að verði fyrr á ferðinni en þessi áætlun gerir ráð fyrir og þá fjármagnaðar með öðrum hætti.