Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:25:28 (3234)

1998-01-29 16:25:28# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:25]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkrar athugasemdir og spurningar til hv. þm. Í fyrsta lagi: Er það ekki rétt munað, af því hv. þm. var trúaður á að þessi áætlunargerð gæti staðist, að frá því hv. þm. kom til þings í upphafi þessa kjörtímabils, hafi hann aldrei við fjárlagagerð afgreitt framlög til vegamála í samræmi við markaða tekjustofna til vegamála? Með öðrum orðum, hann hefur alltaf staðið að því, öll þau ár sem hann hefur setið á þingi, öll þessi þrjú ár, að skera þau niður. Er ástæða til að ætla að þar verði breyting á í framtíðinni?

Í öðru lagi. Hv. þm. nefndi með réttu að í þessa listun vantaði algerlega Suðurstrandarveg. Hann greip hins vegar til þess ráðs, eins og raunar kollegi hans annar, hv. þm. Magnús Stefánsson, fyrr í dag, að segja að það þýddi ekki að þessi mál væru ekki á dagskrá. Þingmenn viðkomandi kjördæma gætu einfaldlega notað almenna liðinn til að verja til slíkra verkefna. Ég hugsa að þótt þingmenn kjördæmisins yrðu ásáttir um að nota allan þennan almenna lið sem til staðar er þá dygði það tæpast til að ljúka þessu stóra og mikilvæga verkefni sem Suðurstrandarvegurinn er og þá undanskil ég ekki vegtengingu frá Krísuvík í Hafnarfjörð. Það eru því hreinar blekkingar þegar menn fara fram með þessum hætti og eru að halda því fram við allan almenning og kjósendur í viðkomandi kjördæmi að þessi mál séu á dagskrá þótt þau séu ekki hér niðurskrifuð, þegar þau eru það alls ekki í raun og sanni því verkefnin eru það stór og fjárfrek.

Virðulegi forseti. Hefur hv. þm. og aðrir þingmenn engar áhyggjur af því að þetta sé nú frekar vonarpeningur en hitt, að raunveruleikinn eigi þar að ráða ferð, þegar 60% mikilvægs verkefnis eins og Reykjanesbrautar eigi í þessari langtímaáætlun að framkvæma á síðasta tímabili? Eða eins og hér hefur verið orðað: Desember fyrir áramótin 2009/2010. Með öðrum orðum, langstærsti hluti þeirra fjármuna sem eiga að renna til þessa stóra verkefnis er á síðasta tímabilinu, rétt fyrir árið 2010, eftir tólf ár. Er það trúverðugt, virðulegi forseti?