Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:49:20 (3244)

1998-01-29 16:49:20# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:49]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl.v. að þagað sé um jarðgöng í þessari vegaáætlun. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að leggja fé til jarðgangarannsókna næstu ár. Það liggur fyrir og er hv. þingmönnum kunnugt að menn treysta sér ekki á þessari stundu að segja til um það hvar besti kosturinn sé, --- að jarðgöng komi milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar --- hvað þá að menn geti með einhverri sannfæringu lagt fram kostnaðaráætlun. Ég vil líka minna á að hér stóð upp einn þingmaður áðan og sagði að hann vissi ekki hvort ætti að taka alvarlega óskir um jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Það sýnir þá samstöðu sem er í þinginu um það að taka ákvörðun um að slík jarðgöng verði látin ganga fyrir og upplýst af mörgum þingmönnum, þó ég sé ekki í þeirra hópi, að þeir telja að þingið hafi bundið sig á sínum tíma um það að næstu jarðgöng kæmu á Austurlandi og þær hugmyndir sem hér hefur verið lýst í þeim efnum, þó óljósar væru í dag sumar hverjar a.m.k., benda ekki til þess að þar sé um smáfjárhæðir að ræða. Ég held því að það sé alveg óhjákvæmilegt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að ákvörðun um hvar næstu jarðgöng komi verður að bíða að þessu sinni. Við erum að tala um verulegar fjárhæðir og það er fullkomlega óskiljanlegt að mínum dómi hvers vegna þingmenn geta ekki unað því að menn reyni fyrst að átta sig á því hvar jarðgöng eigi að vera, kostnaðaráætlun og öðru slíku, en inn í áætlun séu settar fastar fjárhæðir í þeim efnum.