Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:52:19 (3246)

1998-01-29 16:52:19# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:52]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að líka sé nauðsynlegt að taka fram að hér er gert ráð fyrir að 680 millj. fari til vegagerðar yfir Lágheiði. Nú liggur fyrir að snjóþyngsli á þessum slóðum eru þvílík að eins og nú standa sakir býst Vegagerðin ekki við að um heilsársveg geti orðið að ræða á milli Fljóta og Ólafsfjarðar. Mætti búast við því að síðari hluta vetrar, í marsmánuði og jafnvel fram í apríl, yrðu snjóþyngsli slík að ógerningur yrði að halda vegi opnum. Eftir sem áður erum við að tala um 20% af þeim kostnaði sem búast má við að jarðgöng kosti milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Ég er ekki viss um að í annan tíma hafi verið lagt meira fé til hliðar í vegáætlun en þetta, fyrir fram, svo mörgum árum áður til þess að fara í jarðgöng, ef sá kostur verður fyrir hendi. Þess vegna skil ég ekki þegar hv. þingmenn eru að amast við því að þarna séu 680 millj. eyrnamerktar Lágheiði.

Og það er heldur ekki rétt að með þessu sé verið að útiloka jarðgöng síðar meir. Ég hef lýst því yfir og ég hygg að aðrir þingmenn séu mér sammála um það, að óðs manns æði væri að leggja veg yfir Lágheiði ef menn ætluðu síðan að fara í jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Þessar 680 millj. greiða fyrir því að hægt sé að taka slíka ákvörðun, spilla ekki fyrir því, og menn verða að gera upp við sig á næstu fjórum árum þangað til fjögurra ára áætlunin verður ákveðin næst, hvernig eigi að fara að því að tengja Ólafsfjörð og Siglufjörð. Það má raunar vera að menn telji byggðalega og atvinnulega þýðingu slíks vegar slíka að menn vilji jafnvel flýta göngum meir.