Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 17:07:40 (3249)

1998-01-29 17:07:40# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[17:07]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ráðist var í Hvalfjarðargöngin var gert ráð fyrir því að 400 millj. kr. yrðu fjármagnaðar af vegáætlun. Það er gert hér samkvæmt þessari áætlun og er ekki eyrnamerkt einu eða neinu kjördæmi heldur er einungis um endurgreiðslu á þessu fé að ræða og kemur inn í áætlunina sem slíkt. Þessi áætlun er ekki þannig byggð upp að fyrir fram séu fundnar deilitölur einstakra kjördæma heldur reyndu starfsmenn Vegagerðar að setja fram skynsamlega framkvæmdaáætlun sem búast mætti við að staðið yrði við og þingmenn mundu fallast á og væri nokkuð í takt við framkvæmdaþörf. Auðvitað er þörfin alls staðar mikil. Alveg eins og þegar nú er verið að borga lán vegna Reykjavíkur, þá verða greiðslurnar alltaf vegna vega á höfuðborgarsvæðinu. Eins er það svo að engu máli skiptir hversu lengi dregst eða dregst ekki, né hvar fyrir er komið endurgreiðslu á láni vegna vega á Vesturlandi. Endurgreiðslan verður alltaf vegna lána fyrir vegum á Vesturlandi. Þetta var ekki þannig hugsað að verið væri að taka eyrnamerkt fé Vesturlands til greiðslu á þessum lánum.