Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 17:21:57 (3254)

1998-01-29 17:21:57# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[17:21]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að verða til þess að draga úr trú hv. þm. á það að jarðgöng á Austurlandi verði næst í röðinni og jafnvel svo að þau verði á þessu áætlunartímabili. En það breytir ekki þeirri staðreynd að í þeirri áætlun sem við erum að fjalla um, og munum væntanlega samþykkja á þessu vorþingi, er ekki kveðið á um þá framkvæmd. Ég spyr því hv. þm. enn á ný hvort henni og kjósendum hennar þyki það ekki býsna létt í vasa að einhverjir hv. þm. hér eða þar hafi þá trú að þrátt fyrir það að hæstv. ráðherra og áætlunin hér segi það hreint og klárt að ekki verði ráðist í framkvæmdir við jarðgöng samkvæmt skrifuðum texta þessarar þáltill. þá trúi viðkomandi því samt. Er þá ekkert að marka þetta plagg? Er eitthvað annað í plagginu sem er okkur dauðlegum ekki sjáanlegt en öðrum trúuðum kannski frekar? Spurning mín er því þessi: Skipta þá engu máli þau fyrirheit sem þingmenn Austfjarða og raunar þingið allt hafa gefið kjósendum á Austurlandi og íbúum þar um langt árabil um að ráðist verði í þessa jarðgangagerð? Skiptir það þá engu máli í raun og sann þegar kemur til kastanna og menn ætla að sýna það svart á hvítu að það er ekki að finna hér? Er þetta plagg þá bara sumpart marktækt en að öðru leyti marklaust?