Frumvarp um hollustuhætti

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 15:05:32 (3264)

1998-02-02 15:05:32# 122. lþ. 56.94 fundur 189#B Frumvarp um hollustuhætti# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:05]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir og ítreka þær athugasemdir sem hér hafa komið fram. Nefndinni var ekki kunnugt um þau vinnubrögð sem hér er verið að lýsa fyrr en eftir að málið var tekið til 1. umr. og þess vegna gat ég t.d. ekki tekið það upp hér við 1. umr. sem hefði sannarlega verið eðlilegt. En skömmu síðar kom þetta í ljós, þegar nefndinni bárust athugasemdir frá báðum fulltrúum Alþingis. Ég þarf ekki að fara nákvæmlega út í málið því að staðreyndir þess liggja á borðum þingmanna og þeir geta kynnt sér þær. Þarna er að sjá athugasemdir frá fulltrúum Alþingis sem voru tilnefndir og kjörnir samkvæmt samkomulagi á Alþingi. Það er auðvitað grafalvarlegt mál þegar svona er staðið að verki, að sérlegur fulltrúi umhvrh. beiti valdi sínu og umboði til að hindra þingkjörna fulltrúa í því að taka þátt í stefnumótun stofnunar eins og þeir eru þó kjörnir til og þess vegna bið ég hv. alþm. að kynna sér þetta mál og taka afstöðu til þess. Ég tel að þetta sé svo alvarlegt mál að stjórn þingsins hljóti að taka á því og senda frá sér ályktun um það.