Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 15:49:16 (3271)

1998-02-02 15:49:16# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:49]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Í skýrslu minni eru allar þær upplýsingar sem ráðuneytið ræður yfir í málinu. Skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra sem afhent var ríkissaksóknara er ekki birt í heild heldur er byggt á greinargerð sem ríkissaksóknari birti. Annað hefur ráðherrann ekki heimild til að birta. Alþingi sjálft hefur samþykkt lög um sjálfstæði ríkissaksóknara. Vilji Alþingi breyta þeirri skipan mála og kveða á um að stjórnmálamenn geti ákveðið hvaða rannsóknargögn skuli birt og hvenær verður Alþingi að taka þá afstöðu með því að breyta lögum. Það getur ekki ætlast til að ráðherra fari á svig við þau lög sem Alþingi hefur sjálft sett. Vilji Alþingi breyta þessari stefnu og að teknar verði pólitískar ákvarðanir um birtingu rannsóknargagna þá þarf Alþingi að breyta lögum til þess að svo megi verða.