Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 16:37:57 (3276)

1998-02-02 16:37:57# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:37]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna skýrslunni sem hér er til umræðu. Hún var nauðsynleg eftir utandagskrárumræðu sem fram fór í þinginu í mars sl. Fram hefur komið í umræðunni og kemur skýrt fram í skýrslunni að skipulagi lögreglunnar í Reykjavík gagnvart yfirstjórn og starfsháttum ávana- og fíkniefnadeildar sé eða hafi verið um margt ábótavant, umsjón og eftirlit hafi verið ófullnægjandi. Í skýrslunni kemur fram að hugsanlega hafi lögreglumenn brotið hegningarlög og lög um ávana- og fíkniefni, ekki hafi verið fylgt erindisbréfum og starfslýsingum í veigamiklum atriðum. Lögreglustjóri virðist ekki hafa haft vitneskju eða yfirsýn yfir stöðu mála og ekki hafa beitt sér fyrir nauðsynlegum úrbótum. Allt eru þetta mjög alvarlegar ásakanir og til þess fallnar að skapa tortryggni milli almennings og lögreglu.

Þá kemur fram að legið hafi fyrir í ferilskýrslum Franklíns Steiners að hann hafi verið umsvifamikill. En mál hans hafa ekki verið rannsökuð til hlítar. Tvö mál eru rannsökuð án eðlilegrar framhaldsmeðferðar og fram kemur að tveir fyrrverandi lögreglufulltrúar hafi verið í upplýsinga- og trúnaðarsambandi við Franklín Steiner, að því er virðist án heimildar eða vitundar yfirstjórnar. Þetta eru sem sagt mjög alvarlegar niðurstöður sem koma fram í þessari skýrslu, þó svo að þær séu, eins og fram hefur komið hér, skammtaðar af ráðherra til þingsins því hina raunverulegu rannsóknarskýrslu höfum við alþingismenn ekki fengið að sjá. Ríkissaksóknari ákveður að fenginni þessari skýrslu að ekki sé tilefni til aðgerða af hálfu ákæruvaldsins, þ.e. ekki ástæða til að gefa út ákæru.

Virðulegi forseti. Ég get ekki skilið skýrsluna öðruvísi en svo að ýmislegt hafi farið úrskeiðis í meðferð þessara mála hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, t.d. það að gögn týnast og fleira sem hér hefur komið fram í umræðunni. Furðuleg er því niðurstaða ríkissaksóknara að ekki hafi verið tilefni til ákæru og að skýrslan sjálf skuli ekki birt. Ég vil taka undir það að mér finnst þessi skýrsla að ýmsu leyti vera áfellisdómur yfir starfsemi lögreglunnar.

Þá kemur fram í skýrslunni að ráðherra telur að ný lögreglulög hafi kippt þessum málum í liðinn og hann hafi átt fund með yfirstjórn lögreglu þar sem hann hafi lagt áherslu á virkt eftirlit og stjórnun af hálfu yfirstjórnar gagnvart fíkniefnalögreglunni. Um réttmæti ályktunar ráðherra er ekki hægt að fullyrða þar sem skýrslan er ekki birt og ekki ljóst hvaða atriði skipaður rannsóknarlögreglustjóri gagnrýndi. Tryggt þarf að vera að skipulag, eftirlit og stjórnun sé slík að viðunandi sé.

Ég vil fagna því að skýrar reglur eru í mótun um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir í fíkniefnamálum en jafnframt vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst nánar um þau atriði sem skipaður rannsóknarlögreglustjóri gagnrýndi. Þó ef til vill finnist rök fyrir því að birta ekki skýrsluna, nefnilega þau að ekki var talin ástæða til að ákæra og ákvörðun ríkissaksóknara um að birta ekki skýrsluna, hefur allt málið valdið tortryggni í garð lögregluyfirvalda og skaðað nauðsynlegt traust á milli lögreglu og almennings. Slíkt er algjörlega óviðunandi að mínu mati, ekki síst þegar um þennan viðkvæma málaflokk er að ræða. Því tel ég annað óviðunandi en að þingnefnd, t.d. allshn. eða sérnefnd, fái nánari upplýsingar úr nefndri skýrslu, helst aðgang að skýrslunni sjálfri með heimild ríkissaksóknara og því vil ég að lokum, hæstv. forseti, spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann geti tekið undir þessa beiðni.