Gjaldþrotaskipti

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:30:30 (3297)

1998-02-02 17:30:30# 122. lþ. 56.4 fundur 389. mál: #A gjaldþrotaskipti# (tilkynningar skiptastjóra) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:30]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Með frv. því sem hér liggur fyrir er lögð til sú breyting á 84. gr. gjaldþrotaskiptalaganna, að skiptastjóri þrotabús sendi lögreglustjóra tilkynningu, í stað ríkissaksóknara, ef skiptastjóri fær vitneskju í starfi sínu um atvik sem hann telur geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaðurinn eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi. Telja verður eðlilegt að þeirri meginstefnu sé fylgt að kærum vegna refsiverðra brota sé beint til lögreglu og að skráning þeirra sé sem mest á einni hendi. Sú skipan horfir til skilvirkari meðferðar þessara mála og er í samræmi við þær skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið á lögreglumálum í landinu að undanförnu.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og hv. allshn.