Staða umferðaröryggismála

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:41:48 (3299)

1998-02-02 17:41:48# 122. lþ. 56.5 fundur 393. mál: #A staða umferðaröryggismála# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil fagna framkomu þessarar skýrslu og þakka fyrir hana og þá sérstaklega að hún kemur nú fram eins og samþykkt Alþingis gerir ráð fyrir í upphafi árs og dómsmrh. gerir með henni grein fyrir stöðu umferðaröryggismálanna og hvernig miðað hefur samkvæmt settum markmiðum starfs- og framkvæmdaáætlunar í umferðaröryggismálum.

Eins og kom fram er þetta framhald af starfi sem á sér nokkurn aðdraganda frá því fyrst komu fram tillögur á þingi um slíka framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum. Það var reyndar sá sem hér talar sem lagði sem þingmaður fram þingályktunartillögu um slíka stefnumótun og síðan kom fram sú tillaga sem byggði á starfi nefndar sem hæstv. þáv. og reyndar núv. dómsmrh. skipaði. Ég held að þessi vinnubrögð séu tvímælalaust til bóta og það var vonum seinna að þau væru upp tekin hér á landi. Þau hafa um alllangt skeið verið viðhöfð í ýmsum nágrannalöndunum, til að mynda á hinum Norðurlöndunum þar sem menn standa framarlega í þessum efnum, og hafa tvímælalaust skilað árangri.

Ég vil jafnframt lýsa ánægju minni með að þau markmið sem nú er unnið eftir, þ.e. að fækka dauðsföllum og alvarlegum slysum niður fyrir 200 á árinu 2000, eru efnisleg og ákveðin markmið sem eru metnaðarfyllri en þau sem voru lögð til í upphaflegri áætlun. Það markmið að fækka umferðarslysum um 20% miðað við meðaltal áranna 1982--1992 var gagnrýnt á sínum tíma sem of metnaðarlítið í ljósi þess að þar var um gamla viðmiðun að ræða sem tók ekki mið af þróuninni sem í gangi hafði verið. Hér er um að ræða raunhæf, efnisleg markmið sem mundu fela í sér allmikla fækkun alvarlegra slysa frá því sem verið hefur á undanförnum árum, frá og með 1990, eða á þessum áratug.

Ég tel að vísu að of snemmt sé að meta hvernig til hefur tekist og þó svo ánægjulega vilji til að á fyrsta ári slíkrar stefnumótunar hafi banaslysum í umferðinni fækkað nokkuð, sé auðvitað of snemmt að gefa sér að þar sé um varanlegan árangur af þessu starfi að ræða. En svo sannarlega vonum við að svo sé og það á reynslan á næstu árum eftir að leiða í ljós. Ég hygg að reynsla þurfi að koma á þessi störf í nokkur ár til að unnt verði að meta árangurinn þannig að hann verði a.m.k. tölulega marktækur. En reynslan erlendis frá af sambærilegum markvissum og skipulögðum vinnubrögðum gefur vissulega tilefni til ákveðinnar bjartsýni í þeim efnum.

[17:45]

Herra forseti. Eftir sem áður er ýmislegt í umferðinni sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Ég vil aðeins nefna tvennt eða þrennt. Það fyrsta og kannski það alvarlegasta eru þær upplýsingar sem liggja fyrir um aukinn ölvunarakstur og hefur þeim tilvikum fjölgað þar sem slys verða og áfengi kemur við sögu. Slíkum slysum hefur fjölgað hér á landi á meðan umtalsverð fækkun er á þeim annars staðar á Norðurlöndum. Þetta kemur fram í skýrslunni. Á því er að vísu að einhverju leyti sú skýring að áfengisneysla er á niðurleið á sumum hinna Norðurlandanna. Þar hefur markvisst forvarnastarf og ýmsar aðgerðir skilað þeim árangri að áfengisneysla fer minnkandi en það gerir hún ekki hér. Með aukinni umferð má náttúrlega búast við því að slysum þar sem ölvunarakstur á í hlut fjölgi, þó ég þekki nú ekki hvernig hlutfallstölur standa nákvæmlega í þeim efnum. Þetta gefur sannarlega tilefni til að herða róðurinn og ekki síst vegna þess samhengis sem er milli ölvunaraksturs og slysa þar sem annaðhvort ungir ökumenn eða ungir þolendur eiga í hlut.

Í öðru lagi kemur fram, sem er auðvitað alveg svakalegt, að það sem einkennir banaslys á sl. ári er að tæpur helmingur ökumanna og farþega sem létust var í bifreiðum þar sem ekki var notaður öryggisbúnaður, þ.e. öryggisbúnaður eins og bílbelti og barnastólar. Þetta er náttúrlega ákaflega dapurleg niðurstaða og sýnir okkur að þrátt fyrir lög og reglur þá dugar ekkert annað en stanslaus fræðsla og áróður til þess m.a. að tryggja að slík öryggistæki séu notuð. Bílbeltanotkun virðist ekki fara vaxandi hér. Í besta falli stendur hún í stað miðað við kannanir milli ára og það er auðvitað á engan hátt nógu gott.

Í síðasta lagi nefni ég unga ökumenn. Það er ljóst að ástæða er til að beina áróðri alveg sérstaklega að þeim og hinni óheyrilega háu slysatíðni á t.d. fyrsta árinu í ævi hvers ökumanns. Það er reyndar eitt af fjórum meginviðfangsefnum sem á að einbeita sér að á nýbyrjuðu ári og það er vel. Ég hef sjálfur haft hugmyndir um að ástæða gæti verið til að gera breytingar á ákvæðum umferðarlaga hvað varðar útgáfu ökuréttinda. Ég tel t.d. að skoða ætti fyrsta missirið, fyrstu sex mánuðina í ferli hvers ökumanns og ástæða væri til að fá sundurliðaðar upplýsingar, greindar niður á mánuði. Reynslan sums staðar annars staðar erlendis þar sem ég hef komist yfir tölur sýnir að slysatíðnin er oft ótrúlega há, t.d. á þriðja, fjórða, fimmta og sjötta mánuði í ferli ökumanns sem bendir til þess að menn fari varlega fyrstu einn, tvo mánuðina en svo sé eitthvað farið að slá á það og þá taki við tímabil sem sé sérstaklega hættulegt. Spurningin er þá sú: Er hægt að bregðast við þessu? Er t.d. hægt að takmarka eða skilyrða ökuréttindin á einhvern hátt fyrsta hálfa til heila árið? Ég hef hugmyndir um að það mætti gera, m.a. með því að gera áskilnað um að reyndari ökumaður væri jafnan í bifreiðinni fyrsta árið á meðan menn væru að þjálfast þannig að í raun væru ökuréttindin einhvers konar áframhaldandi reynsluréttindi fyrsta árið sem menn hefðu bílpróf. Fleira af þessu tagi er sannarlega ástæða til að skoða í tengslum við það mál sem við ræðum.

Að lokum, herra forseti, fagna ég þessari skýrslu og þetta starf er alveg tvímælalaust á réttri braut. Ég hvet til þess að unnið verði markvisst og ötullega að þessum málum og vonandi sjáum við þá markmiðin rætast um umtalsverða fækkun dauðsfalla og alvarlegra slysa í umferðinni fyrir aldamót.