Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:33:10 (3303)

1998-02-03 13:33:10# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Opinberir styrkir eða ríkisstyrkir eru algengir í atvinnustarfsemi hér á landi. Tilgangurinn með þeim er oft að halda uppi atvinnu í tilteknum starfsgreinum, hlúa að tilteknum atvinnugreinum eða framfylgja einhvers konar byggðastefnu. Á hinn bóginn er meðferð þessara styrkja vandmeðfarin og getur haft þveröfug áhrif ef ekki er vel á málum haldið.

Það mál sem við ræðum hér lýtur að úthlutun á 20 millj. kr. styrkjum til heilsárshótela á landsbyggðinni. Ég hef áður rætt þetta mál á hinu háa Alþingi en það var í kjölfar þess að samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu að rökstuðningur og vinnubrögð úthlutunarnefndar sem hæstv. samgrh. skipaði færi í bága við gildandi samkeppnislög. Rökstuðningur sem nefndin notaði til skýringar á styrkveitingum var um margt mjög sérstakur og lítt skiljanlegur á köflum. Rökstuðningur nefndarinnar var tvíþættur: Annars vegar að þau hótel sem fengju styrki hefðu efnahagslega þörf fyrir styrki en af þessari röksemdafærslu má gagnálykta á þá leið að þau sem ekki hlutu styrki hafi ekki haft efnahagslega þörf á styrkjum. Hins vegar notaði nefndin þá röksemdafærslu að aðeins væru styrkt hótel sem hægt væri að skilgreina sem heilsárshótel. Skilgreiningin á heilsárshótelum var sú að þau ein teldust vera heilsárshótel sem væru forsenda aukins ferðamannastraums, og voru þau styrkt, en þau sem ekki fengu styrk væru þá meira til uppfyllingar eða afleiðing aukins ferðamannastraums. Sem dæmi um þessa dómadagsrökleysu má nefna að á Akureyri eru starfandi fjögur heilsárshótel en einungis eitt þeirra fékk styrk, þ.e. Hótel KEA, sem hlýtur að skýrast sem svo að önnur hótel væru afleiðing af auknum ferðamannastraumi, en Hótel KEA væri þá eitt hótela forsenda aukins ferðamannastraums. Að sjálfsögðu komst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu að aðferðafræði af þessu tagi stæðist ekki lög og átaldi hæstv. samgrh. harðlega fyrir vinnubrögðin.

Nýlega kvað umboðsmaður Alþingis upp úrskurð í þessu sama máli. Í úrskurði hans kemur fram að skipun umræddrar nefndar til úthlutunar þessum 20 millj. kr. styrkjum, sem Alþingi hafði ákveðið í fjárlögum að Ferðamálaráð skyldi úthluta, stæðist ekki lög. Í úrskurðinum segir svo, með leyfi forseta:

,,Með vísan til ótvíræðs orðalags ákvæðisins [í fjárlögunum] var það hins vegar eingöngu á valdi þessara aðila [Ferðamálaráðs] að mæla fyrir um skipun undirnefndar`` til þess að ráðstafa þeim fjármunum. --- ,,Breytir þá engu, þótt samgönguráðuneytið fari ... með yfirstjórn þeirra mála, ... Samkvæmt þessu brast samgönguráðherra heimild til að takmarka valdsvið Ferðamálaráðs með þeim hætti sem raun varð á og skipun hinnar sérstöku úthlutunarnefndar fól í \mbox{sér. ...}

Það er því niðurstaða mín [þ.e. umboðsmanns], að nefnd sú er samgönguráðherra skipaði 10. maí 1995 til að gera tillögur`` --- þ.e. um ráðstöfun fjárins --- ,,hafi ekki verið bær til að fara með það verkefni. Var því að lögum ekki staðið rétt að úthlutun þess fjár, sem hér um ræðir.``

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er því sú að tvær eftirlitsstofnana samfélagsins hafa komist að þeirri niðurstöðu, hvort heldur sem litið er til vinnubragða nefndarinnar eða tilvistar hennar, að þá fái hvorugt staðist landslög. Á mannamáli mundi þetta væntanlega vera kallað að opinberu fé hafi verið úthlutað eftir pólitískum geðþótta, þ.e. án viðunandi rökstuðnings, enda lentu hæstu styrkirnir hjá fyrirtækjum sem eru í kjördæmi formanns nefndarinnar.

Ég segi það alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég hélt og ég taldi að vinnubrögð af þessu tagi heyrðu fortíðinni til en svo virðist ekki vera. Ég hlýt því að spyrja hæstv. forsrh. hvers konar starfsumhverfi stjórnvöld eru að skapa einkarekstri í ferðaþjónustu. Áttar ríkisstjórnin sig ekki á því að athafnir nefndar samgrh. eru til þess fallnar að eyða öllu frumkvæði og grósku í hótelrekstri á landsbyggðinni? Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. forsrh. geri hinu háa Alþingi grein fyrir því í þessari umræðu hver stefna ríkisstjórnarinnar sé í styrkveitingum í ferðaþjónustu. Enn fremur tel ég nauðsynlegt að hæstv. forsrh. upplýsi hið háa Alþingi um það hvort hann muni beita sér fyrir því að hæstv. samgrh. sæti pólitískri ábyrgð í kjölfar þess að eftirlitsstofnanir samfélagsins hafa í tvígang komist að þeirri niðurstöðu að tilvist nefndar sem hann bar ábyrgð á og vinnubrögð hennar hafi ekki verið í samræmi við lög.

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að viðbrögð hæstv. forsrh. liggi fyrir áður en hið háa Alþingi getur tekið á því hvort það muni bregðast sérstaklega við úrskurði umboðsmanns Alþingis.