Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:44:46 (3306)

1998-02-03 13:44:46# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:44]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir aðkomu núv. meiri hluta fjárln. að því máli sem hér er til umræðu. Á árinu 1995 urðu stjórnarskipti og fjárln. eða núv. meiri hluti fjallaði um málið um haustið í sambandi við fjárlög 1996. Í ræðu minni við 3. umr. fjárlaga kom ég inn á þennan lið en þá var úthlutað beint til samgrn. en ekki Ferðamálaráðs og þar segir svo, með leyfi forseta:

[13:45]

,,Að lokum er lagt til að taka inn nýjan lið, heilsárshótel á landsbyggðinni. Fyrr á þessu ári skipaði samgrh. nefnd til að gera tillögur um ráðstöfun á 20 millj kr. sem Alþingi ákvað að veita til hótela á landsbyggðinni sem eru opin allt árið. Meginhlutinn, eða 16 millj. kr., fer samkvæmt tillögu nefndarinnar til markaðsátaks hjá þeim hótelum sem helst uppfylla þau skilyrði að mati nefndarinnar að kallast heilsárshótel á landsbyggðinni. Það sem þá er eftir fer til samtaka hótela sem standa sameiginlega að markaðsátaki. Meiri hluti fjárln. leggur hins vegar til að veittar verði 15 millj. kr. til heilsárshótela á næsta ári og fjárveitingin verði notuð til markaðsaðgerða samkvæmt tillögum framangreindrar nefndar.``

Síðan hefur ekki verið framlag í þessu skyni en hins vegar hefur álit meiri hluta Alþingis legið fyrir um þetta mál og fram hefur komið að Ferðamálaráð samþykkti á sínum tíma að nefnd yrði stofnuð til úthlutunar þeirra fjármuna sem gengu til ráðsins á árinu 1995 í tíð fyrri meiri hluta. Síðan álit umboðsmanns Alþingis var gefið út hafa komið fram viðbótarupplýsingar frá Ferðamálaráði sem lágu ekki fyrir þegar úrskurðurinn var kveðinn upp. Sjálfsagt er að taka þessar upplýsingar inn í umræðuna. Að öðru leyti er þetta mál allt saman áminning um að gæta formsins í því umhverfi sem nú er, á þeim sjónarmiðum sem nú gilda varðandi samkeppni, jafnræði milli aðila og annarrar stjórnsýslu.