Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:31:24 (3321)

1998-02-03 14:31:24# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:31]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Meginefni þessa frv. sem hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir er að setja heildarlöggjöf um það sem hingað til hefur verið í tveimur lagabálkum, annars vegar í jarðræktarlögum og hins vegar í lögum um búfjárrækt. Jarðræktarlögin eru mjög gömul en þau marka þá umgjörð sem hefur verið í gildi hérlendis alla þessa öld, þ.e. að ríkið styðji sérstaklega við jarða- og húsabætur í sveitum. Í greinargerð með frv. kemur fram að í fyrstu fjárlögum Alþingis fyrir meira en 100 árum var kveðið á um slíka styrki til jarðabóta.

Búfjárræktarlögin eru rúmlega 60 ára gömul að stofni til en þar er kveðið á um skipulag búfjárræktar, þátttöku ríkisins við það starf og hvaða aðili sér um framkvæmd þeirra mála.

Þótt vissulega geti verið gott, herra forseti, að fella í ein lög tvenn eldri lög og endurmeta efni þeirra eins og gert er í hinu nýja frv. þá þarf vitaskuld samt sem áður að svara pólitískum spurningum sem vakna. Meginstefið í jarðræktarlögunum og lögum um búfjárrækt er þátttaka ríkisvaldsins í þessum verkefnum. Vitaskuld er hægt að færa rök fyrir því að í upphafi þessarar aldar og langt fram á öldina hafi ekki verið óeðlilegt að ríkisvaldið kæmi vel inn í þessa atvinnugrein á afmörkuðum sviðum jarðræktar og búfjárræktar og stuðlaði þannig að meiri hagkvæmni í atvinnugreininni. Í frv. er þessari meginstefnu haldið við. Ríkisvaldið skal áfram vera sá aðili sem fjármagnar og ber ábyrgð á jarðrækt og sá aðili sem ber ábyrgð á og fjármagnar búfjárrækt. Mér finnst, herra forseti, mjög mikið álitamál hvort þetta eigi við lengur.

Samskipti ríkisvaldsins og landbúnaðar hafa verið mjög mikil hérlendis alla þessa öld. Hin síðari ár höfum við séð búfjársamninga gerða, bæði í sauðfjárframleiðslu og í mjólkurframleiðslu, þar sem kveðið er á um framleiðsluskipulag og allt sem viðkemur atvinnurekstrinum sjálfum. Þetta skipulag í íslenskum landbúnaði hvað varðar framleiðslustýringuna og aðstoð ríkisvaldsins hefur ekki skilað bændum góðri afkomu.

Þótt hér sé ekki verið að fjalla um framleiðsluskipulagið í íslenskum landbúnaði verður að hafa í huga að allt eru þetta greinar af sama meiði, þ.e. samþætting atvinnugreinarinnar, hagsmunasamtaka hennar og ríkisvaldsins. Vitaskuld er enginn annar mælikvarði á árangur slíks kerfis en afkoma bænda og hún er slök. Bændur eru tekjulægsti hópur hérlendis. Á sama tíma er vernd landbúnaðarins kostnaðarsamari hérlendis en í nær öllum löndum í heiminum.

Ég vil aðeins í þessari umræðu, herra forseti, varpa ljósi á nokkrar staðreyndir í alþjóðlegu samhengi. Mig langar að vitna nokkuð til talna frá OECD í þessum efnum. Ég byggi á grein sem birtist á ensku fyrir nokkru og verður innan tíðar birt í Fjármálatíðindum hérlendis og er eftir Þorvald Gylfason prófessor. Hún var tekin sérstaklega saman fyrir þingmannafund EFTA núna á sl. ári. Ekki er hægt að fara ítarlega í þessa grein og upplýsingar sem þar koma fram, sem eru eiginlega samantekt á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins og yfirlit yfir það styrkjaumhverfi sem landbúnaður býr víða við.

Ýmsir merkilegir hlutir koma þar fram svo sem að í upphafi áttunda áratugs 19. aldar --- fyrir 125 árum --- var 1/3-- 2/3 vinnuafls í Evrópu bundið við landbúnað. Í Sviss sem er mikið landbúnaðarland og hefðbundið um aldir, var fyrir rúmum 100 árum 60% af vinnuaflinu bundið í landbúnaði. Það er núna 5%. Sams konar tölur frá Frakklandi: Var 50%, er nú 5%. Í Þýskalandi var 47% af vinnuafli bundið í landbúnaði en núna 3%. Í Bretlandi, þar sem iðnbyltingin var í mestri framför á þessum tíma, var ekki nema 15% af vinnuaflinu bundið í landbúnaði en einungis 2% núna. Þetta segir okkur mikla sögu, herra forseti, um hvað umhverfi landbúnaðarins hefur breyst geysilega mikið á liðnum 100 árum og ekki hvað síst á síðustu 20--30 árum.

Sérstaða landbúnaðar í efnahagskerfi Vestur-Evrópu hefur verið viðurkennd almennt af pólitískum flokkum í meginatriðum þótt vitaskuld hafi verið ágreiningur um stefnuna, en þá hafa menn sama hvar þeir hafa verið í flokki sagt sem svo: Það gildir nokkur sérstaða um þessa atvinnugrein með tilliti til forsögu hennar. Og við jafnaðarmenn sem höfum verið þeir sem hafa hvað mest gagnrýnt landbúnaðarstefnu hérlendis undanfarna áratugi, höfum alltaf sagt: Þessi atvinnugrein hefur sérstöðu í íslensku þjóðlífi. Það breytir því ekki að sú stefna sem ríkisstjórnin, bæði þessi og fyrri ríkisstjórnir sem þessir flokkar hafa átt aðild að, hefur ekki verið hagkvæm, hvorki fyrir bændur né neytendur.

Það er athyglisvert að heildarstuðningur við landbúnað í OECD-löndunum 1997 hafði hækkað á milli áranna 1996 og 1997. Ef maður ber saman stuðning innan OECD við landbúnað tíu ár aftur í tímann, þá hefur stuðningurinn hækkað um 7 prósentustig. Þetta er athyglisvert vegna þess að fyrir mörg lönd hefur stuðningur að vísu lækkað, þar á meðal hjá okkur. Hins vegar hefur stuðningurinn lækkað minna hjá mörgum öðrum. Stuðningur við landbúnað er í mismunandi formi. Það geta verið beinar tilfærslur frá skattgreiðendum sem verða þá að greiða hærri skatta. Beingreiðslurnar teljast til þessa forms. Síðan getur það verið vernd sem kemur óbeint fram í verðstuðningi við landbúnað þannig að stuðningur við landbúnað getur verið margs konar. Þetta er hins vegar í opinberum alþjóðlegum skýrslum samræmt í efnistökum þannig að hér er um algjörlega sambærilega hluti að ræða.

Ef maður skoðar, herra forseti, hvað hefur gerst á Íslandi í samanburði við önnur land á síðustu tíu árum, kemur í ljós að dregið hefur úr stuðningi við landbúnað. Árið 1986, fyrir tíu árum, var þessi stuðningur tæp 4% af landsframleiðslu og hann er núna um það bil 2%. Það hefur dregið verulega úr stuðningi. En það sem meira er, ef við skoðum hvað aðrir hafa verið að gera, þá var þessi stuðningur hjá Evrópusambandinu tæp 3% og er núna kominn niður í rúmt 1%. Stuðningur okkar sem hlutfall af landsframleiðslu er tvöfalt meiri en stuðningur Evrópusambandsins við sinn landbúnað. Og Evrópusambandið, herra forseti, hefur alltaf verið tekið sem dæmi um glórulausa stefnu sem menn eru núna undir forustu Tonys Blairs að reyna að breyta. Ég veit ekki hve oft sú atlaga hefur eiginlega verið gerð. En það hefur verið viðurkennt af öllum stjórnmálaflokkum í Evrópu að þessi stefna, landbúnaðarstefna Evrópusambandsins, væri sú stefna sem brýnast væri að endurskoða. Samt sem áður eru þeir með helmingi minni stuðning við sinn landbúnað en við.

Lítum á meðaltal OECD-ríkja. Það eru 29 ríki, iðnríki að langmestu leyti, og þar er það sama uppi á teningnum. Við erum með helmingi meiri stuðning við okkar landbúnað. Það hefur dregið úr stuðningnum hérlendis en samt sem áður erum við langt fyrir ofan þessar þjóðir. Einu nágrannaþjóðirnar sem við gætum borið okkur saman við og tölur eru til um, eru Tyrkland, Pólland og Sviss. Þar er meiri stuðningur. Allir aðrir hafa dregið mun meira úr stuðningi og eru langt fyrir innan það sem við erum að gera.

Stuðningur við landbúnað sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er bara einn mælikvarði. Það er einnig hægt að taka stuðninginn á hvern íbúa. Það er ekkert ósanngjarnt að gera þetta. Þetta eru alþjóðlegar tölur. Þetta eru geysiháar tölur, herra forseti, sem við erum hér að tala um. Þar hefur dregið úr okkar stuðningi, farið úr tæpum 800 dollurum niður í tæpa 600, en við erum samt sem áður langt fyrir ofan t.d. Evrópusambandið sem er með um það bil 300 dollara á hvern íbúa í stuðning. Japanir eru aðeins fyrir ofan okkur, Noregur og Sviss, en önnur ríki langt fyrir neðan okkur. Þannig er stuðningur hjá okkur tæpir 600 dollarar, 568 dollarar á mann, en 66 dollarar á mann á Nýja-Sjálandi sem sker sig úr vegna þess hve þar er lítill opinber stuðningur við landbúnað. Þessi opinberi stuðningur kemur fram með annaðhvort beinum greiðslum eða sérstakri vernd.

Það er því ljóst, herra forseti, að við höfum verið í miklum ógöngum með okkar landbúnaðarstefnu um áratuga skeið. Samt er athyglisvert að skoða bústuðning á ársverk í landbúnaði, þ.e. á hvern bónda því það er líka sanngjarn mælikvarði. Þar lítur þetta ekki eins illa út fyrir okkur. Við erum að vísa langt fyrir ofan Evrópusambandið. En það er t.d. merkilegt að bústuðningur á ársverk í landbúnaði hér er svipaður og í Bandaríkjunum. Og í þessari umræðu gæti ég fullrar sanngirni gagnvart íslenskum landbúnaði þegar ég er að vitna til þessara nýju talna sem að ég held hafi ekki birst áður opinberlega hér á landi.

Þetta, herra forseti, tel ég nauðsynlegt að draga fram í umræðunni vegna þess að frv. sem við erum að ræða hér er angi af þessari stefnumótun, það er angi af þessari stefnu sem hefur ekki skilað árangri. Ég nefndi að sárafáir eru fyrir ofan okkur. Vitaskuld hefur stuðningur og verndun minnkað nokkuð á síðustu árum en við erum langt fyrir ofan aðra. Þetta á að vekja okkur til umhugsunar.

Hér eru nokkrar staðreyndir sem eiga að vekja okkur til umhugsunar um stefnuna. Bændur á Íslandi eru tekjulægsta stétt landsins. Stuðningsumhverfið í landbúnaði er eitt það víðtækasta sem þekkist á byggðu bóli. Matvæli eru dýrari fyrir neytendur en í velflestum löndum. Matvæli hér eru 30% dýrari en að meðaltali í Evrópusambandslöndunum.

Það er engin furða, herra forseti, þó að sagt sé: Það er eitthvað rangt í þessu kerfi. Það er eitthvað rangt í kerfi sem skilar bændum lægstu tekjum allra stétta og neytendum hæsta matarverði í Evrópu. Og hvað framleiðslustýringuna varðar þá tel ég að treysta hefði þurft bændum miklu frekar til sjálfstæðs í þeim efnum en forsjárhyggja Framsfl. og Sjálfstfl. hefur leyft um áratuga skeið. Skynsamlegast væri að í landbúnaði giltu almenn lög um samkeppni og vitaskuld er hægt að opna möguleika á takmörkuðum innflutningi sem landbúnaður getur vitaskuld keppt við.

Tækifæri var til þess fyrir tveimur árum þegar GATT-samningurinn var lögfestur. Eitt af meginatriðum þess samnings var að innlend framleiðsla fengi 97% af innanlandsmarkaði og ég, herra forseti, studdi það, að innanlandsmarkaður væri verndaður fyrir íslenska bændur með 97%, að markaðshlutdeild íslenska bænda yrði 97%. En það átti að vera hægt að lofta aðeins út og leyfa innflutning til að mæta 3%, ekki meira. Það átti að vera hægt að mæta 3% af innanlandsneyslunni með innflutningi.

[14:45]

Ríkisstjórnin kaus hins vegar að útfæra GATT-samninginn þannig að tollar voru hafðir svo háir að nær enginn innflutningur var á landbúnaðarvörum. Í svari utanrrh. við fyrirspurn minni á Alþingi fyrir tæpu ári síðan kom t.d. fram að í kjötvörum var einungis 0,2% af neyslunni flutt inn í stað þessara 3% sem ég ræddi um og hefði verið í anda GATT-samningsins. Vitaskuld er heilbrigðisreglna alltaf gætt. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi en vegna hárra tolla varð ekki af innflutningi. Niðurstaðan er ömurleg og grátleg útfærsla á GATT-samningnum. Hann hefði getað leitt til bættrar afkomu íslenskra bænda og bættrar stöðu íslenskra neytenda. Menn notfærðu sér ekki það tækifæri vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vildu halda gömlu framsóknarhyggjunni við lýði. Herra forseti. Það er einmitt verið að gera í þeim lögum sem hér var verið að tala fyrir. Ný búnaðarlög sem eiga að koma í stað jarðræktarlaga og laga um búfjárrækt. Enn og aftur er gengið út frá því sem meginstefnu að ríkisvaldið fjármagni þá þætti sem frv. fjallar um. Í markmiðsgrein laganna, í 2. gr. þessa frv., er sagt með leyfi hæstv. forseta:

,,Fjárframlög ríkisins samkvæmt lögum þessum stuðli að þróun nýrra framleiðsluhátta og nýrra greina innan landbúnaðarins og í tengslum við hann og miðist við að bændur hér á landi hafi ekki lakari starfsskilyrði en almennt gerist í nágrannalöndunum.``

Ættum við ekki, herra forseti, að setja samsvarandi lög fyrir sjávarútveg og afgreiða hér á hinu háa Alþingi lög sem orðist sem svo:

Fjárframlag ríkisins skv. lögum þessum stuðli að þróun nýrra framleiðsluhátta og nýrra greina innan sjávarútvegs og í tengslum við hann og miðist við að útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkafólk hafi ekki lakari starfskilyrði en almennt gerist í nágrannalöndunum. --- Af hverju setjum við ekki svona lög, herra forseti, um sjávarútveginn, um iðnaðinn og hverja aðra atvinnugrein hérlendis? Hvers vegna er landbúnaðurinn alltaf tekinn í faðm ríkisvaldsins? Faðmlag framsóknarhyggjunnar. Þetta faðmlag hefur ekki skilað bændum öðru en því að vera tekjulægsta stétt landsins en hið banvæna faðmlag framsóknarhyggjunnar skal enn vera við lýði.

Í frv. er í 3. gr. kveðið á um að landbrh. skuli gera samning við Bændasamtökin um verkefni skv. lögum þessum og framlag þeirra þar sem kveðið er á um framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins vegna atvinnuuppbyggingar í sveitum. Hér er verið að setja fjárlög, herra forseti. Ég efast um að þessi ákvæði standist vegna þess að í frv. segir einnig:

,,Ríkissjóður veitir árlega framlög til verkefna á sviði jarðabóta, búfjárræktar og leiðbeiningarstarfsemi samkvæmt lögum þessum ...`` Hlutverk búnaðarlaga er ekki að kveða á um fjárframlög úr ríkissjóði. Það er Alþingis að gera það í sérstökum lögum sem heita fjárlög og við höfum samþykkt hér merka löggjöf um fjárreiður ríkisins. Þar eru sett skilyrði fyrir fjárveitingu úr ríkissjóði og kveðið á um vinnubrögð.

Hér er íslenskur landbúnaður enn og aftur gerður að bónbjargaraðila gagnvart umhverfi sínu. Að mínu mati eru fleiri atriði sem brjóta beinlínis í bága við önnur lög. Í ákvæði til bráðabirgða í frv. segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ríkissjóður mun verja 50 millj. kr. hvert ár á fjárlögum áranna 1998, 1999 og 2000 til efnda á samningum landbúnaðarráðherra.``

Hér er um að ræða uppgjör varðandi gamalt mál sem tengist framkvæmdum á lögbýlum frá árunum 1992--1997. Hér er verið að gera fjárlög til þriggja ára, skuldbinda ríkið og skuldbinda Alþingi til að hafa þennan lið á fjárlögum.

Herra forseti. Ég óska eftir því að formaður fjárln. eða forsn. skoðaði þetta mál. Er samræmis gætt við lög um fjárreiður ríkisins? Þessu til stuðning get ég dregið til vitnis ráðuneyti hæstv. fjmrh. því í umsögn frá fjmrn. sem fylgir frv. segir með leyfi forseta:

,,Ekki verður ráðið af efni frumvarpsins né greinargerðarinnar hvaða fjárhagsleg markmið verða höfð að leiðarljósi við gerð þess samnings milli ríkis og bænda sem boðaður er og er því erfitt um vik að áætla breytingar á kostnaði ríkissjóðs.`` Það er laukrétt hjá þeim. Áfram segir: ,,Rétt er að vekja athygli á því að við gerð framangreinds samnings þarf að taka tillit til ákvæða 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, þar sem um er að ræða samning um rekstrarverkefni til lengri tíma en eins árs. ``

Þetta var hin fræga grein um þjónustusamning, 30. gr. úr fjárreiðufrv. sem mest var deilt á hér sl. vor. Ég mun óska eftir því í landbn., herra forseti, að þetta frv. verði skoðað sérstaklega út frá löggjöfinni um fjárreiður ríkisins og athugað hvort hér sé rétt að staðið. Meginþátturinn í gagnrýni minni er þó að ég tel þetta upplegg með hinni miklu þátttöku ríkisvaldsins á þessu sviði vera tímaskekkju. Ég tel að bændur geti vel staðið undir jarðabótum og bætt búskaparaðstæður á viðkomandi býlum. Hægt væri að veita þeim kost á að sækja um lán eða styrkveitingar. Það er ekki málið en hin sjálfvirka umgjörð sem hér er verið að laga er röng stefna að mínu mati.