Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:51:57 (3322)

1998-02-03 14:51:57# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:51]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða hv. þm. Ágústs Einarssonar var að mörgu leyti merkileg og auðvitað fróðleg. Sá samanburður sem hann setur hér fram er á margan hátt hæpinn þegar hann talar um styrki ESB-landa við landbúnaðinn. Fjölmargar búgreinar eru alls ekki styrktar á Íslandi en hins vegar styrktar hjá ESB-löndum. Ég nefni sem dæmi kornrækt og margt fleira mætti nefna. (Gripið fram í: Fiskeldi.) Fiskeldi. Þakka þér fyrir, hv. þm., ég gæti nefnt fleira.

Þegar við berum Ísland saman við ESB-ríkin þá sést að við greiðum fleira niður en landbúnaðarvörur. Við erum að greiða niður ýmis konar menningarstarfsemi, sem betur fer. Ég spyr líka: Hvar við stæðum úti á landsbyggðinni ef við hefðum ekki búskapinn? Hvernig væri byggðarmynstur á Íslandi ef við hefðum ekki búskap? Í ljós hefur komið að samkvæmt jarðræktarlögum skuldar ríkið bændum stórar fjárhæðir sem ekki hefur tekist að standa við. Ég tel að frv. sem hér er til umræðu muni bæta úr þeirri stöðu. Það er auðvitað ekki forsvaranlegt að vera með lög í þessu landi sem ekki er hægt að standa við. En ég endurtek að þegar við berum saman svona tölur verðum við að vera klár á því sem við erum að tala um.