Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:53:53 (3323)

1998-02-03 14:53:53# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:53]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Vitaskuld á að vera búskapur í sveitum, hann á að vera myndarlegur og hann á að skila afkomu. Sú umgjörð sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa búið þessari atvinnugrein hefur ekki skilað þessu. Málið snýst um það. Tölurnar sem ég nefndi hér eru allar sambærilegar. Við erum langt úti í móum hvað varðar skipulag, styrkveitingar og verndun landbúnaðarins. Framlag ríkisins hefur ekki skilað sér í bættum tekjum bænda. Það er meginatriðið í þessum efnum. Ég tel mesta ógæfu íslensks landbúnaðar vera að hafa ekki fengið að starfa eins og aðrar atvinnugreinar hérlendis, sjávarútvegur, iðnaður og verslun. Þessar þrjár atvinnugreinar sem hafa smátt og smátt stækkað og eflst og eru kraftmiklar meðan alltaf hefur verið ríghaldið í framsóknarhyggju Sjálfstfl. og Framsfl. gagnvart landbúnaði og atvinnugreinin aldrei fengið að standa á eigin fótum. Íslenskur landbúnaður getur staðið á eigin fótum. Hann gæti það ef hv. þm. Sjálfstfl. og Framsfl. létu af tökum sínum á greininni. Árangur hv. þm. Sjálfstfl. og Framsfl. sem standa fyrir þessari stefnu er ömurlegur þegar bornir eru saman tekjumöguleikar bænda og matarverð neytenda. Það er sá eini mælikvarði sem gildir. Ég vil öflugt starf í sveitum landsins. Ég vil að bændur hafi tekjur á við aðra þegna og þurfi ekki í hvert skipti að koma fram sem bónbjargaraðilar. Þetta frv. um búnaðarlög er áframhald á gjalþrotastefnu Framsfl. og Sjálfstfl. og það er sorglegt að tveir stærstu pólitísku flokkar landsins ásamt hagsmunasamtökum bændastéttarinnar skuli standa vörð um þetta kerfi. Þeir eru ekki að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda.