Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:55:58 (3324)

1998-02-03 14:55:58# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:55]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. erum sammála um að við viljum öflugan landbúnað á Íslandi. Í tíð núv. hæstv. landbrh. hefur orðið ákveðin breyting og losnað hefur um ákveðin tök varðandi styrki og annað slíkt. Menn eru að trappa sig niður að þessu leytinu eins og það er kallað. Ég var í Brussel um daginn og skoðaði m.a. fyrirtæki... (ÖS : Hver borgaði?) DV borgaði ekki. (ÖS: Er það feimnismál hver borgaði?) Það er ekkert feimnismál. Hv. þm. og ritstjóri hefur væntanlega skrifað um þetta í blað sitt. (Gripið fram í: Ekki orð.) Þar skoðaði ég m.a. fyrirtæki sem heitir Govee sem selur íslenskt lambakjöt. Í verslunarkeðjunni voru þeir með 52 íslenskar vörutegundir.

Í þessari ferð sáum við hvers við getum verið megnug þó það gerist ekki á stundinni. Það kann vel að vera að styrkjakerfið hafi verið barn síns tíma. Hæstv. landbrh. hefur verið að breyta ákveðnu mynstri í landbúnaðarmálum. Ég er sannfærður um að landbúnaður á Íslandi mun standa sig. Í dag komum við m.a. til með að ræða um lífrænan landbúnað og fleira. Möguleikarnir eru fyrir hendi.