Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:57:52 (3325)

1998-02-03 14:57:52# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:57]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess sérstaklega í ræðu minni að þessi vernd hafi minnkað verulega hérlendis á síðustu árum. Ég gat þess einnig að það hafi gerst hjá öðrum ríkjum. Við erum langt fyrir ofan nágrannaríkin, öll meðaltöl, hvort sem við tökum OECD eða Evrópusambandið varðandi þessa þætti. Það er staðreynd málsins. Það er ekki að okkur hafi ekki miðað áfram á réttri leið. Það er ekki hægt, herra forseti, að koma hingað og segja að þetta taki tíma. Í áratugi hafa íslenskir bændur verið fátækastir allra stétta hérlendis. Það er ekki nýtt. Að segja við bændastéttina og neytendur: Þið skuluð áfram búa við lágar tekjur og hátt matarverð vegna þess að við viljum ekki breyta stefnunni. Hér er ekki verið að boða góð stjórnmál. Þetta eru ekki góð stjórnmál. Af hverju í ósköpunum fallast ekki þessir aðilar, fulltrúar framsóknarhyggjunnar, hvort sem þeir eru í Sjálfstfl. eða Framsfl. ekki á að þessi stefna sé gjaldþrota? Stefnan hefur engu skilað. Stefnunni verður að breyta vegna þess að þeir sem líða fyrir hana eru ekki aðeins neytendur heldur einnig bændastéttin sem býr við verulega fjárhagsörðugleika. Það þarf ekki að segja hv. þingheimi það. Menn þekkja það mætavel í þingsölum. En þeir ættu að koma og segja: Gott og vel, það má vera að við höfum lagt upp með ranga hluti hér áður fyrr en við skulum þá taka höndum saman og reyna að bæta úr því. Það væri meiri manndómur í því, herra forseti, ef þessir fulltrúar framsóknarhyggjunnar gætu nú hugsað á þeim nótum. (Gripið fram í: Ómerkilegt.)