Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 15:23:09 (3331)

1998-02-03 15:23:09# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[15:23]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir því að mér finnst hv. þm. Össur Skarphéðinsson sýna mikla skapstillingu að þola það að skvett sé yfir hann úr koppum og fara ekki fram á að því sé hætt en mælist aðeins til þess að landbrh. fái einnig gusur yfir sig. En svona breytast menn þegar þeir eru orðnir vanir því að sitja undir ákúrum.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að standa upp og ræða þau mál sem eru á dagskrá og flokkast undir landbúnaðinn er sú, að frv. sem hér er lagt fram hlýtur að hafa mikil áhrif á m.a. hverjar tölur í hagskýrslum frá Íslandi verða þegar menn meta stuðning við íslenskan landbúnað. Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar það er skoðað hvort endurheimtur fornra landgæða, eins og stuðningur eða framlög til sandgræðslu, sem ég hygg að allir Íslendinga vilji að eigi sér stað, eigi að flokkast sem landbúnaður eða umhverfismál. Í mínum huga er það umhverfismál að endurheimta forn landgæði. Í mínum huga er það líka umhverfismál að sjá til þess að flórgoðinn fái að lifa á Íslandi en ástæðulaust að reyna að smygla því undir landbúnað og láta svo kannski annan skamma menn á eftir fyrir styrki til landbúnaðar út á að þeir eru að vernda flórgoða. Ég held að það sé þá eina þjóðin í heiminum sem hefur það í hagskýrslum sínum að stuðningur við villta fugla sé stuðningur við landbúnað.

Ég held nefnilega að mjög mikið atriði sé að við áttum okkur á því að íslenskur landbúnaður mun sitja undir þeim svipuhöggum í nánustu framtíð að gerður verður samanburður á því hver stuðningurinn er við hann hér og hver stuðningurinn er við hann erlendis.

Hv. þm. Ágúst Einarsson flutti mjög yfirgripsmikla ræðu þar sem hann vakti athygli á því að sá stuðningur hefur minnkað hjá Evrópusambandsríkjunum og hann hefur líka verið að minnka á Íslandi vegna þess að við lifum í öðru viðskiptaumhverfi en áður. Hitt má svo deila um hvort að okkur miðar hægar en öðrum. Hann fullyrti að svo væri. Þar hefur þróunin orðið sú að þeir hafa farið frá 3% niður í 1%, minnkað um 2%. Við höfum farið frá 4% niður í 2%, minnkað um 2%. Mér sýnist þetta vera sami hraði. Mér sýnist erfitt að skamma menn sem hafa staðið í því að breyta þeirri þróun á þennan veg fyrir að fara of hægt.

Hitt er annað mál að það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. að samanburður við útlönd er vissulega til staðar þegar verið er að meta hér verð á matvælum. En ég hygg að menn megi kannski örlítið hugleiða að kostnaður við íslenska heilbrigðiskerfið er ekkert smáræði. Ef menn fara yfir allar þær kröfur sem þar eru á ferðinni hlýtur hver maður að spyrja sjálfan sig: Eru þessar kröfur sambærilegar við þær sem eru erlendis? Ég segi nei.

Ég segi: Það er búið að dauðhreinsa íslenska þjóð svo, að senda þarf hana á sérstaka staði til að komast í almennilegt sýklaumhverfi svo hún sé orðin fær um að fara til útlanda án þess að bíða skaða á heilsu sinni á eftir. Þannig er ástandið orðið. Það er búið að dauðhreinsa allt liðið. Og spurningin er: Á að setja og skrá allan þann kostnað á íslenskan landbúnað? Hvað halda menn að þetta kosti í matvælaverðinu á Íslandi? Seinasta aðgerð var frumutalningin, það er verið að breyta henni enn. Ekki veit ég hvort þær hugmyndir sem þar eru uppi séu hugsaðar til að ýta mönnum út. En slík frumutalning, sem verið er að setja af stað á nýjan leik, er náttúrlega beinlínis til þess gerð að hækka verð á landbúnaðarvörum. Hún hlýtur að kosta eitthvað. Hún hlýtur að kosta bændurna eitthvað, hún hlýtur óbeint að kosta neytendur eitthvað.

Ég hygg líka að þegar menn standa upp og segja, --- og ætla ég að víkja örlítið að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni: Sökudólgurinn fyrir því að flórgoðunum hefur fækkað er að búið er að breyta mýrum á Íslandi í valllendi. Það er eitt það ánægjulegasta sem gerst hefur í ræktunarmálum, að heilgrös hafa tekið við af hálfgrösum. En skyldi minkurinn ekki eiga einhvern þátt í þessu máli? Skyldi nú ekki umhvrh., sem var svo elskur að minkinum, eiga einhvern þátt í að flórgoðinn er í hættu? (Gripið fram í.) Ég hygg að það þurfi að hugleiða og sérstaklega væri gott að gera það að kvöldi dags svo að menn gætu haft draumfarir góðar til að meta hvort íslenskir bændur hefðu með ræktunaraðgerðum sínum vegið frekar að flórgoðanum en þeir sem telja það sjálfgefið að minkurinn eigi að verða eitt af hinum villtu dýrum íslenskrar náttúru. Fyrir mína parta tel ég að minkurinn hafi mjög orðið til þess að minnka mófuglalíf almennt í landinu og ég tel það ekki af hinu góða.

[15:30]

Ég ætla þá að víkja aftur að atriðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar. Hann gat þess að Nýfundnaland nyti minnstra styrkja allra landa sem hann var með tölur yfir í stuðningi við landbúnað. Ef ég man þetta rétt voru það 66 dollarar á íbúa.

Nú vill svo til að Nýfundnaland er trúlega eitt besta landbúnaðarland í heimi og flytur út mikið af landbúnaðarvörum. Eitt af því ánægjulega sem orðið hefur á þessari öld er að mannkynið hefur borið gæfu til þess að hagnýta sér hin ýmsu landsvæði í samræmi við landkosti þeirra, þ.e. þar sem best er að framleiða landbúnaðarvörur hafa menn framleitt þær og flutt þær svo á milli. Hann gat þess aftur á móti að Noregur væri með einna hæstu styrkina. Ætli ástæðan sé ekki sú að Noregur er harðbýlt land? Að mínu viti er ekki hægt að tala um að þar sé auðvelt að stunda landbúnað, sérstaklega ef menn mundu bera Noreg saman við Danmörku sem er af Norðurlöndum trúlega best til þess fallið að landbúnaður sé stundaður. Þegar menn bera þetta saman hlýtur að vera nokkurt umhugsunarefni hvort það sé ekki á vissan hátt rökrétt að stuðningur við landbúnað á Íslandi sé meiri og eigi að vera meiri en í öðrum löndum. Hins vegar hljótum við að verða að gæta hófs í því hvað við viljum að sé framleitt hér á landi. Það er mikil spurning bæði varðandi kjúklingaframleiðslu og svínakjötsframleiðslu hvort það sé að öllu leyti sjálfgefið að framleiða alla þessa vöru innan lands. Það er mikil spurning vegna þess einfaldlega að þar eru menn fyrst og fremst að nýta erlend aðföng til framleiðslunnar eða að mjög miklu leyti.

Þegar menn skoða þróunina er líka rétt að horfa á að sú öld sem fer senn að kveðja hefur verið mjög viðburðarík. Í lok seinustu aldar gátu Íslendingar flutt út lifandi búfé til Bretlands. Engin heilbrigðisreglugerð bannaði slíkt. Við fengum að slátra þessu fé erlendis, þetta voru sauðir, og við höfðum greiðan aðgang inn á þennan markað og íslenskur landbúnaður var fullkomlega samkeppnisfær við breskan landbúnað í því að framleiða sauðakjöt eða koma kindakjöti á markað.

Þegar frystivélarnar komu til sögunnar gerðist það að hægt var að flytja, m.a. frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu, dilkakjöt til Bretlands og Bretar gripu til aðgerða til þess að tryggja að hægt væri að vernda breskan landbúnað. Þeir gripu til þeirra aðgerða sem við vitum hverjar voru, þ.e. að banna innflutning á lifandi búfé til slátrunar í Bretlandi. Þetta var fyrsta alvarlega áfallið sem sauðfjárræktin á Íslandi varð fyrir.

Við horfðum svo á það að þegar styrjaldir geisuðu vildu menn gjarnan kaupa mat frá Íslandi og flytja það inn til þeirra landa sem áttu erfitt með á þeim tíma að afla sér nægilegra matfanga, m.a. seldum við saltkjöt úr landi í nokkuð stórum stíl. Svo gerist það sem verður að skoða af mikilli alvöru, og þó að ég segi það hér og nú ætla ég ekki með þeim orðum að gerast neinn dómari yfir þeim mönnum sem tóku þær ákvarðanir. Ég hygg að þeir hafi gert það í góðri trú en það er vitað að á dögum viðrreisnarinnar sömdu Ingólfur Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason um það sín á milli að koma á sérstöku útflutningsbótakerfi sem var 10%. Fljótt á litið gat þetta verið nokkuð meinlaust en í framkvæmd var þetta þannig að sambandið á milli verðlagningar á vörunni erlendis og verðlagningarinnar sem þurfti að fást fyrir vöruna innan lands var rofið. Það miðaði aðeins að því að heildarútflutningurinn færi ekki upp fyrir ákveðið magn.

Ég er sannfærður um að þetta kerfi varð í reynd mjög skaðlegt fyrir íslenskan landbúnað vegna þess að það skapaði þær væntingar að það væri allt í lagi að framleiða, aðeins ef menn væru innan þessara leikreglna. Þegar ákvörðun var loksins tekin um að snúa frá þessu hlaut það að leiða til þess að hér væri komin mjög mikil offramleiðsla á dilkakjöti eins og allir vita. Segja má að í dag hafi svo tekist til að jafnvægi hefur náðst í framleiðslu á mjólkurafurðum án þess að það þyrfti að minnka búin. Nú bið ég hv. þm. Ágúst Einarsson að taka vel eftir því hér komum við að lykilatriði vandans varðandi sauðfjárræktina.

Ekki hefur tekist að ná þeim árangri að minnka sauðfjárræktina í landinu nema með því neikvæða formerki að minnka fjárbúin. Það hlaut að skapa vandræði. Það hlaut að leiða til óeðlilegs kostnaðar við framleiðslu á dilkakjöti. Þetta er sá hausverkur sem enn er til staðar og menn hafa ekki komið sér saman um. Bændasamtökin hafa gjarnan sagt: Við eigum ekki að bera ábyrgð á byggðastefnu. Gott og vel. En ég spyr á móti: Er óeðlilegt að þau landsvæði Íslands þar sem beitilönd eru best njóti vissra forréttinda varðandi sauðfjárframleiðslu? Mér sýnist að það sé takt við tíma okkar að taka eitthvert tillit til þess. Með þessu er ég ekki að segja að það sé algengt í dag að afréttir séu ofbeittir þó að e.t.v. megi finna þess dæmi.

Ég gat um sandgræðsluna áðan sem ég taldi að væri eðlilegt að flokka undir umhverfismál. Ég ætla að taka annan lið sem hefur fengið vaxandi fjármagn á seinustu árum og ég hef verið hlynntur að fengi það fjármagn alveg eins og ég hef stutt framlag til sandgræðslu og það er skógrækt. Er skógræktin á Íslandi í dag landbúnaður eða er hún endurheimt fornra landgæða?

Vel má vera að skógræktin á Íslandi eigi eftir að verða landbúnaður og það er hægt að segja að á vissum stöðum sé hún orðin það nú þegar. En í reynd er skógræktin á Íslandi miklu frekar endurheimt landgæða og á þess vegna ekki heima í tölum undir landbrn. heldur í kostnaði við umhverfismál.

Í 16. gr. frv. segur að landbrh. eigi að skipa fimm menn í nefnd og jafnmarga til vara og eitt af verkefnum nefndarinnar er að fylgjast með og halda skrá um erfðabreytileika og þróun hans í helstu búfjárstofnum, villtum landdýrum og ferskvatnsfiskum. Þarna komum við enn að þessu sama. Er þetta landbúnaður? Eru hreindýrin á Íslandi landbúnaður? Á að setja kostnað vegna þessa þarna inn? Ég segi nei. Þetta er ekki landbúnaður. Þetta eru umhverfismál og ekkert nema umhverfismál. Það er sjálfsagður hlutur að þjóðin kosti það en það á að setja þetta í þá dálka þar sem er eðlilegt að það sé haft svo að hagskýrslurnar verði ekki jafnskakkar og þær eru. Hér kemur áfram b-liðurinn: að gera tillögu til landbrh. um sérstakar ráðstafanir til verndunar þeirra tegunda, stofna og eiginleika sem eru í útrýmingarhættu að mati nefndarinnar. Ef flórgoðinn er þarna inni, sem ég geri ráð fyrir, dreg ég enn í efa að hann verði nokkurn tíma nytjaskepna fyrir íslenskan landbúnað. Hvers vegna á hann þá að vera þarna? Hvers vegna á að skrá kostnaðinn af honum á bændur og segja svo: Það er verið að styrkja bændurna þegar menn eru að styðja allt annað og allt önnur verkefni.

Í 17. gr., þar sem vikið er að markmiðum, kemur í 3. lið enn eitt atriði fyrir: ,,kynna fyrir bændum og öðrum viðkomandi stefnumörkun stjórnvalda í málefnum landbúnaðarins og á öðrum þeim sviðum er hann snerta, svo sem í landverndar- og umhverfismálum.`` Vissulega á að veita fjármagn í þetta. En hvers vegna er verið að raða þessu á vitlausa hillu? Hvers vegna er verið að setja umhverfismál inn í frv. til landbúnaðarlaga og skekkja enn hagskýrslurnar sem munu segja að verið sé að styðja bændur? Ég held að það sé orðið mjög brýnt að menn taki það alvarlega að samanburður á kostnaði milli landa og stuðningi milli landa er eitt af því sem menn munu í vaxandi mæli horfa á. Þess vegna er mjög brýnt að kostnaður sé settur þar sem hann á að vera þegar hann er bókfærður en ekki færður á milli liða eins og mér sýnist að verið sé að gera.

Ég vil bæta því við að því miður gerðist það að þegar ætlunin var að efla aðrar atvinnugreinar í sveitum lentum við í mikilli niðursveiflu varðandi verð á skinnum. Sú loðdýrarækt sem átti að fara af stað lenti í þeim hremmingum að miklir öfgamenn náðu því markmiði sínu að ófrægja alla þá sem notuðu skinn í klæðnað og það kostaði okkur Íslendinga mikið. Það hafði áhrif og ég fullyrði að það hefur haft áhrif á matarverð hjá Íslendingum. Ef loðdýraræktin hefði þá fengið að rísa í friði til þeirra verka sem henni var ætlað stæði íslenskur landbúnaður miklu betur að vígi í dag að ná fram því markmiði sínu að geta stækkað sauðfjárbúin en jafnframt tryggt að byggð héldist í sveitum.

Ég sé að ljósið er farið að blikka og nú er það orðið rautt. (Forseti hringir.) Það er nú svo að vafalaust er punktakerfið komið í gildi og ég ætla aðeins að koma með eina athugasemd til viðbótar.

Í lið 7 í 17. gr. stendur: ,,vinna að eflingu byggðar í sveitum og viðhalds menningararfs sveitanna.`` Þarna legg ég til að verði breytt um orð og standi: Menningararf íslenskrar þjóðar.