Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 16:11:26 (3340)

1998-02-03 16:11:26# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[16:11]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta fór eins og ég minntist á, að fyrri kafli ræðu hv. þm. var nokkuð góður en síðan kom þessi andi frá ókunnu landi með hávaða, yfirgang og rökleysur. Ég hef aldrei hafnað kerfi framfara. Ég held að það sé mjög mikilvægt að landbúnaðurinn njóti frelsis og frelsið er bændum mikilvægt. Ég er þeirrar skoðunar að meira að segja GATT-stefnan muni eiga eftir að gefa Íslendingum mikið um leið og niðurgreiðslur og spilling Evrópusambandsins lúta í lægra haldi, þeir leggja niður útflutningsbætur sínar o.s.frv. og um leið og ég sé að gæðin muni ráða því hvaða vara verður á diski neytandans. Þannig að hagsmunir bænda og hagsmunir neytenda fara saman í mínum huga. Þess vegna þurfum við og erum að bæta þetta kerfi, hv. þm.

Ég skynja aldrei hver er stefna Alþfl. í landbúnaðarmálum því að hún kemur yfirleitt aldrei fram. Það er rógburður og æsingur þegar kemur að þessum kafla málflutningsins hjá flestum hv. þm. fyrir utan einn sem situr nú hljóður og les hér bók. En ég vona að um leið og Alþfl. hverfur inn í hina stóru sameiningu sem þeir tala um, þá deyi kannski þessi rödd út því að þeir þurfa eins og flórgoðinn að lifa í fleiri kjördæmum en fimm.