Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 16:49:48 (3345)

1998-02-03 16:49:48# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[16:49]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það voru fjölmörg atriði í umræðunni sem hæstv. ráðherra kom ekki inn á en verður fjallað um í þingnefndinni. Ég vil geta sérstaklega um 3. gr. sem fjallar um samninginn. Það hefur bæði komið fram hjá mér og hv. þm. Agli Jónssyni. Menn vilja gjarnan sjá hvað verður í þessum samningi. Ég bendi á að sennilega er þetta frv. í andstöðu við önnur lög, sérstaklega lög um fjárreiður ríkisins.

Það er ljóst að eins og gengið er frá ákvæðunum varðandi rekstrarverkefni þá brýtur það líklega í bága við 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Þetta verður kannað í þingnefnd. Ég er í sjálfu sér ekkert að ætlast til að hæstv. ráðherra tjái sig um það efni. Málið er núna á forræði þingsins.

Ég vil hins vegar geta þess, af því að hæstv. ráðherra fór aðeins inn á styrkveitingar eða verndun landbúnaðarins og sagði að við værum í hærri kantinum, að við erum meira en í hærri kantinum, herra forseti. Við erum með þeim allra hæstu. Stuðningur okkar við landbúnaðinn er tvöfalt meiri en stuðningur að meðaltali í OECD-ríkjum og tvöfalt meiri en stuðningur að meðaltali innan Evrópusambandsins þannig að þó svo að okkur hafi miðað rétt áfram, þá erum við samt utan vega. Þetta þarf að vera ljóst.

Þegar ég er að draga fram að hollast hefði verið fyrir íslenskan landbúnað að búa við sömu skilyrði og aðrir atvinnuvegir, þá er það einmitt sjávarútvegurinn sem er mjög gott dæmi um að okkur hefur tekist að byggja upp mjög öflugan sjávarútveg þegar nágrannalöndin hafa búið við forsjárkerfi framsóknarhyggjunnar, sem ég nota nú svona sem hugtak til að lýsa þessari aðkomu stjórnvalda að atvinnugreinum og sumir taka óstinnt upp. Menn verða að hafa það eins og þeir vilja.

Meginþátturinn í minni gagnrýni hefur verið sá að einmitt þessi forsjárhyggja og afskiptasemi stjórnvalda af atvinnugreininni, í stað þess að leyfa henni að þróast sjálfri þó viss sérstaða gildi um landbúnað, hefur valdið þessari atvinnugrein miklu tjóni og það held ég að hafi verið rökstutt ágætlega í umræðunum.