Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 16:55:38 (3348)

1998-02-03 16:55:38# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[16:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var einmitt um þá samninga sem frv. gerir ráð fyrir að eigi sér stað milli ríkisvaldsins og Bændasamtakanna. Það er e.t.v. ekki auðvelt að gefa sér alveg fyrir fram hvernig þeir muni hljóða fyrr en við sjáum hvort og þá hvernig málsmeðferð frv. fær í þinginu. Í greinargerðinni hafa verið settar fram hugmyndir um hvað komi til greina að semja um í þessu breytta umhverfi miðað við það sem kveðið er á um í gildandi lögum.

Í öðru lagi liggur fyrir, samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum ársins í ár, hvaða fjárveitingu við höfum úr að spila. Tæpar 40 millj. kr. sem gætu runnið til þessara verkefna þannig að þetta er a.m.k. sú umgjörð sem nefndin hefur fyrir sér í starfi sínu. En eftir því sem það þróast er auðvitað hægt með viðræðum við ráðuneyti og Bændasamtökin að komast nær því að gera það upp við sig.

Það allra seinasta sem mig langar að nefna er varðandi það sem hv. þm. fjallaði um í fyrstu ræðu sinni, að hér sé verið að framfylgja stefnu sem hefur ekki skilað neinu og að þetta frv. væri angi af henni. Ég held að hvað sem okkur kann að finnast um stuðning við framleiðsluna beint með samningum um sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu þá sé einmitt með þessu frv. verið að taka á málum sem er afar brýnt, nauðsynlegt og eðlilegt að hið opinbera styðji, sé á annað borð eðlilegt að stjórnvöld komi eitthvað að stuðningi við atvinnugreinina. Það eru leiðbeiningar, það eru rannsóknir og það eru þróunarverkefni og þau eiga sér ekki síst stað í sambandi við búfjárræktarþátt þessa frv. eða lagasetningar.