Framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:12:50 (3352)

1998-02-03 17:12:50# 122. lþ. 57.5 fundur 197. mál: #A framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar# þál., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:12]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég held að rétt sé að gera grein fyrir því að það mál sem var til umræðu rétt áðan, 195. mál., till. til þál. um aðlögun að lífrænum landbúnaði, og sú tillaga sem nú er til umræðu, 197. mál, till. til þál. um framleiðslu íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar, hafa fylgst að frá því að fyrir þeim var mælt á síðasta þingi. Flutningsmenn eru í mörgum tilvikum hinir sömu að báðum málum og eftir því sem ég best veit eru allir þeir sem að málunum standa sammála um flutning beggja tillagnanna. Þeir eru auk undirritaðs hv. þm. Egill Jónsson, Svanfríður Jónasdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Halldórsdóttir, Þuríður Backman, Sigríður Jóhannesdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir. Af þessu er ljóst að á bak við þessi mál stendur breiður hópur. Þar að auki get ég upplýst að þau hafa bæði fengið góðar undirtektir víða úti í þjóðfélaginu þar sem leitað hefur verið umsagna. Því ætti að vera létt að koma þessum tveimur málum í gegnum virðulega landbn. Þau þurfa að hluta til að fara þar í gegn.

Herra forseti. Í mörgum málum væri betra að menn sneru sér að athöfnum fremur en orðavaðli eins og átti sér stað áðan þegar fjallað var um frv. til búnaðarlaga. Þar virtust menn í málflutningi sínum á öndverðri skoðun en þó hygg ég að staðreyndin sé sú að mikill vilji ríki á hinu háa Alþingi til að bæta stöðu bænda og er sá vilji að mínu mati þvert á flokkslínur.

[17:15]

Ég hef skömm á því, herra forseti, þegar menn standa í því sem ég vil kalla fornháttaruppgröft í pólitík og ég tel að hann eigi ekki við eins og hér var notað í þeim orðræðum sem fram fóru. Það er langt því frá að verið væri að ræða það frv. sem var lagt fram og ég hafði ekki geð í mér, herra forseti, til að taka þátt í þeirri umræðu. Ég vil bara segja það. Við eigum nefnilega að sjá sóma okkar í því, hv. þm., að búa umhverfi landbúnaðarins á þann veg að þeir sem stunda hann hafi sambærilega afkomu og aðrir þegnar landsins. (EgJ: Þú verður rekinn úr Alþfl.)

Herra forseti. Sú þáltill. sem ég mæli fyrir lýtur einmitt að bættu umhverfi og ég lít þannig á að þau orð sem féllu hér frá hv. varaformanni landbn. hafi verið grín en ekki nein alvara sem fylgdi þeim því að á þeim tíma sem undirritaður hefur unnið að þessum málum hefur hann unnið að þeim af fullum heilindum.

Á síðasta þingi voru fluttar tillögur um vottun lífrænna og vistrænna vara og framleiðslu íslenskra matvæla og forsendur sjálfbærrar þróunar. Einnig var flutt sú tillaga sem ég gat um áðan um aðlögun að lífrænum landbúnaði. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að tillögurnar fái að fylgjast að á sama máta og gert var á síðasta þingi og ég treysti því að hv. formaður landbn. fari létt með að afgreiða þessi mál í gegnum þingið af því að þau hafa samstöðu í öllum flokkum. Ég tel að þrátt fyrir mikið annríki í landbúnaðinum hljóti að vera unnt að koma þessum litlu málum áfram sem eru með jákvæðar umsagnir. Og ég treysti því. Við flutningsmenn ákváðum að breyta lítillega tillögunni sem lýtur að framleiðslu íslenskra matvæla og hún miðar nú að forustu Íslendinga í vottun matvælaframleiðslu, einnig úr sjávarfangi, þar sem reynsla okkar er til forustu fallin. Það verður til þess að ég verð að óska eftir því þegar ég bið um brautargengi fyrir tillöguna að málinu verði einnig vísað til hv. sjútvn. Ég tel að ekki sé annað fært en að það sé gert á þann veg á sama tíma og landbn. fjallar um málið.

Reynsla okkar í sjávarútvegi er til forustu fallin á heimsmælikvarða. Við vitum að miðin kringum landið eru takmörkuð auðlind og auknir tekjumöguleikar felast í hærra verði fyrir afurðir en ekki fyrir aukið magn. Þar kemur að neytendur eru tilbúnir að greiða 20--40% hærra verð fyrir vottaðar gæðavörur umfram aðrar. Við sem flytjum þáltill. viljum leggja okkar af mörkum til að hvetja til sóknar í þessum efnum og að tekin verði upp samræmd stefna í matvælaframleiðslu í landbúnaði og sjávarútvegi Íslendinga. Nauðsynlegt er að taka upp meiri samvinnu milli þessara greina þegar umræða um hollustu fer sífellt vaxandi. Það vekur upp hugsun að e.t.v. sé rétt að setja landbúnaðar- og sjávarútvegsmál undir sama ráðuneyti. Mat okkar flutningsmanna er að við Íslendingar eigum að byggja upp eigið vottunarkerfi fyrir sjávarafurðir á forsendum okkar þar sem viðurkennt er að við búum við ströng lög um veiðar og vinnslu sjávarafla, auk þess sem við byggjum afkomu okkar að mestu á sjávarútvegi. Það eru æ fleiri innan þessara atvinnugreina sem fjallað er um í tillögunni sem eru farnir að hugsa um framleiðslu okkar á þessum nótum og hlutverk löggjafarvaldsins er að bregðast við og leiða til lykta efnislega það sem þessar þáltill. fjalla um fyrir aldamót. Annað er ekki ásættanlegt fyrir þingmenn allra flokka sem standa að tillögunni eins og hér hefur verið gerð grein fyrir.

Nágrannalönd okkar hafa flest sett sér markmið hvað varðar framleiðslu lífrænna landbúnaðarafurða. Þau búa þó við þann ókost að á mörgum svæðum er jörð mengaðri af völdum áburðarnotkunar en þekkist hér á landi. Íslendingar geta margt lært af nágrannaþjóðunum í þessu efni, en möguleikar okkar eru ekki síðri, m.a. vegna legu landsins. Hins vegar getur Ísland verið forustuland hvað varðar vottun sjávarafurða. Ekki þarf annað að gera en byggja á því stjórnunarkerfi sem nú er unnið eftir í landinu og er meðal þeirra fremstu í heiminum. Ísland hefur þá sérstöðu að 82% gjaldeyristekna vegna vöruútflutnings koma úr sjávarútvegi og það undirstrikar mikilvægi málsins sem verið er að fjalla um. Það er ekki hægt að bíða eftir því að aðrar þjóðir setji okkur leikreglur um hvernig skuli fara með sjávarafurðir heldur eigum við að setja upp vottunarkerfi á þeim grunni sem við höfum byggt upp í landinu. Það má ljóst vera að neytendur gera meiri kröfur um að vita um uppruna þeirra matvæla sem þeir kaupa, hvaða tegund sem um er að ræða. Spurt verður um alla þætti, frá veiðum á fiski eða framleiðslu landbúnaðarafurða til þess þegar afurðirnar eru komnar á borð neytenda. Því verður að vinna ötullega að framgangi vottunar íslenskra matvæla um heilbrigði, hreinleika og hollustu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla um þetta mál frekar. Það hefur verið gert áður og í ljósi þess að umsagnir eru komnar víða að og það ætti að taka tiltölulega skamman tíma að fara í umfjöllun og kannski þær breytingar sem e.t.v. verður samkomulag um að gera á þessum þáltill. ætti að vera auðvelt að koma þeim til afgreiðslu til þingsins á tiltölulega skömmum tíma, eða a.m.k. fyrir lok þingsins. Ég mælist eindregið til þess, herra forseti, að tillögurnar sem liggja fyrir fylgist að og hljóti afgreiðslu á sama tíma frá hv. landbn. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál en læt staðar numið.