Framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:22:58 (3353)

1998-02-03 17:22:58# 122. lþ. 57.5 fundur 197. mál: #A framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þá tillögu sem er til umræðu. Ég vil fyrst og fremst vísa til þess sem ég sagði áðan um dagskrármálið hið næsta á undan, um þá vinnu sem er í gangi í landbrn. og varðar ekkert síður málið sem nú er á dagskrá, um framleiðslu íslenskra matvæla og forsendur sjálfbærrar þróunar og vottunarkerfi fyrir það. Ég hygg að við eigum kannski meiri möguleika í því að votta landbúnaðarafurðir okkar á vistrænan hátt ef við uppfyllum ákveðin skilyrði sem nauðsynlegt er að höfð séu í huga. Þar búum við náttúrlega vel að því hvað það varðar að hafa t.d. ekki leyft hormónanotkun við framleiðslu landbúnaðarafurða okkar, að lyfjanotkun er í algjöru lágmarki og aðbúnaður dýra almennt þannig að menn geti verið sáttir við. Ég held að málefni eins og frárennsli, sorphirða, vatnið, jarðvegurinn sé allt saman þess eðlis líka að slíkt ætti að geta gengið. En við þurfum sjálfsagt í einhverjum tilvikum að skoða það vandlega að landnýting sé sjálfbær og með þeim hætti að ekki sé gengið á auðlindina. Auðvitað á það því betur einnig víðast hvar við en á því kunna þó að vera einhverjar undantekningar. Þetta eru allt saman hlutir sem þarf að skoða í þessu samhengi. Eins og ég sagði um fyrra málið hef ég efasemdir um að við getum framleitt mjög mikið af landbúnaðarafurðum okkar með lífrænni vottun og þó fer það eftir þeirri verðlagningu sem markaðurinn þolir á vörum af þessu tagi en þær eru í sókn. Það er vilji, bæði hér heima og ekki síður erlendis að kaupa vörur sem framleiddar eru á þann hátt að þær hafi vottun um vistræna framleiðslu. Ef það kemst upp í 40% hærra verð þá hygg ég að farið sé að muna verulega um það en menn hafa hingað til verið að tala um 10--15% hærra verð og það er að mínu áliti of lítið. Það þarf meira til. Til þess að þetta sé fjárhagslega eða efnahagslega mögulegt og hagkvæmt fyrir bændur að stunda þessa framleiðslu þarf verðmunur að vera umtalsvert meiri en það. 20% er sjálfsagt algjört lágmark. Það sem þar er fram yfir færi þá til þess að styrkja framleiðsluna.

Ég vildi aðeins minna á það, hæstv. forseti, að við höfum verið að vinna að verkefni þessu tengdu í landbrn. og þingið hefur það þá til hliðsjónar þegar það fjallar um tillögurnar.