Framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:26:23 (3354)

1998-02-03 17:26:23# 122. lþ. 57.5 fundur 197. mál: #A framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:26]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í dag ræðum við um tvær tillögur sem tengjast lífrænum málum, annars vegar þáltill. um aðlögun að lífrænum landbúnaði og hins vegar þáltill. um framleiðslu íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar.

Síðustu ár hefur orðið talsverð hugsunarháttarbreyting hjá Íslendingum og reyndar öðrum þjóðum. Fólk hugsar meira um það nú en áður var hvað það borðar og hvernig þau matvæli hafa orðið til. Landsmenn hafa í gegnum tíðina verið tilbúnir að borga heilmikið fyrir ákveðnar merkjavörur þegar um fatnað er að ræða, ýmiss konar tækni, hljómtæki, heimilistæki og þess háttar. Það sama gildir um bifreiðar, að fólk er tilbúið að greiða hátt verð fyrir ákveðin merki. Hins vegar hefur verið kappkostað að bjóða fram matvöru á sem allra lægstu verði. Auðvitað kemur þetta fram í gæðum matvörunnar. Það sjáum við t.d. á ýmsum kjötáleggstegundum sem boðið er upp á í matvöruverslunum hér á landi. Mismunandi aðferðir eru notaðar til að vinna áleggstegundirnar og við sjáum það líka á verðlagningu þeirra. En hinn almenni borgari gerir sér ekki alltaf grein fyrir þessum gæðamun. Munurinn kemur fram í verðlagningu og líka á gæðum matvælanna. Mér finnst ákveðin hugsunarháttarbreyting hafa orðið hvað þetta varðar. Við sjáum að á síðustu árum hefur verið boðið upp á lífrænar vörur í ýmsum verslunum og Íslendingar eru tilbúnir að borga örlítið meira, þó held ég að ég geti fullyrt að menn séu ekki tilbúnir enn þá að borga nema örlítið meira fyrir þessa vöru sem er ákaflega dýr í framleiðslu. Nágrannalönd okkar, t.d. Norðurlandaþjóðirnar, hafa náð lengra hvað þetta varðar, þ.e. þessar vörur eru mun dýrari þar en þær hafa verið hér á landi. En við sjáum að þær vörur sem boðið hefur verið upp á í verslunum á Íslandi eru mjög vinsælar, t.d. önnum við ekki eftirspurn eftir þeim mjólkurvörum, lífrænt ræktuðum, sem boðið hefur verið upp á.

[17:30]

Þegar rætt er um vottaðar gæðavörur þá er nauðsynlegt að þær fari gegnum ákveðið ferli, ákveðnar vottunarstöðvar, sem eru tvær hér á landi. Það hefur verið ákveðin togstreita milli þessara tveggja vottunarstöðva. Það er eins og með ýmislegt annað sem við erum að gera að við erum ekki alltaf nógu dugleg við að fella hlutina í alveg ákveðinn farveg. Það er mýmargt í umhverfinu sem þarf að gæta vel að við vottun vöru, eins og t.d. fráveitumál, sorphirðumál, áburðargjöf og margt fleira því tengt.

Mörg landbúnaðarvara sem framleidd er á Íslandi er vistvæn eins og fram kemur. Í auknum mæli hafa bændur og framleiðendur landbúnaðarvara fengið vistvæn vottorð. En lífræni þátturinn er mun strangari og það þarf að fara eftir mun strangari fyrirmælum þegar um lífræna framleiðsluvöru er að ræða. Nokkur býli hér á landi sem hafa sérhæft sig hvað þetta varðar. Á svæðinu í Mýrdal má t.d. nefna Pétursey þar sem framleidd er mjólk og kartöflur. Í Skaftholti í Gnúpverjahreppi er framleiðsla á grænmeti og fleiri lífrænum vörum. Eins hafa íbúar á Sólheimum í Grímsnesi náð býsna langt í þessum efnum, einnig á Dyrhólum í Mýrdal og síðan á Neðra-Hálsi í Kjós og Vallanesi á Héraði.

Ég vonast til þess og treysti í raun formanni landbn. til að afgreiða þessar tvær þáltill. á þessu þingi. Áhugi okkar flm. er mikill á að hrinda þessum málum í framkvæmd og ég trúi því og treysti, þar sem virðulegur form. landbn. er nú nýstiginn niður úr forsetastóli, að hann bretti upp ermar í landbn. og afgreiði þessar tvær tillögur.