Jarðalög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:39:16 (3357)

1998-02-03 17:39:16# 122. lþ. 57.6 fundur 198. mál: #A jarðalög# (kaup og sala jarða o.fl.) frv., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:39]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Gildandi jarðalög eru að stofni frá árinu 1976 og bera þess merki að umhverfi í búskap var þá með allt öðru móti en er nú. Meginkjarni laganna er sá að varðveita í byggð við óbreytta búskaparhætti allar þær jarðir sem byggðar voru og stundaður var hefðbundinn búskapur á árið 1972. Til þess að auðvelda þetta voru settar ýmsar takmarkanir á frjálsri ráðstöfun bænda á jarðeignum sínum. M.a. þurfa þeir áður en þeir ráðstafa jarðeignum sínum að fá leyfi jarðanefnda, ekki bara til þeirrar ráðstöfunar sem þeir hyggja á til einkanota, svo sem eins og til byggingar orlofshúsa eða sumardvalarheimila eða í aðra þágu ferðaiðnaðar á þeirra eigin vegum, heldur er þeim líka óheimilt, án samþykkis nefndarinnar, að skipta jörðum sínum meðal erfingja eða ganga frá ráðstöfun til erfingja á jörðum sínum, og þeim er óheimilt að taka jarðir til annarra nota í sölu heldur en til hefðbundinna búskaparnota nema með samþykki jarðanefnda. Þá þurfa jarðanefndir einnig að samþykkja þann aðila sem hugsanlega vill kaupa bújörð af bónda og geta þá gert kröfu til þess að bújörðin verði ekki nýtt til annars en til hefðbundins búskapar. Og því miður, virðulegi forseti, eru ýmis dæmi um geðþóttaákvarðanir jarðanefnda í þessum efnum. Þær geta hafnað frjálsri ráðstöfun bónda á bújörð sinni án þess að þurfa að rökstyðja þá höfnun og jarðanefndir hafa líka í hendi sér mjög víðtækt vald til að ákveða hvaða einstaklingur má kaupa jörð af bónda sem vill selja jörðina. Dæmi eru einnig um að jarðanefnd hafi beitt sér gegn vilja jarðeigenda um ráðstöfun á jörð hans án þess að þurfa að skýra frá því eða rökstyðja þá ákvörðun sína með fullnægjandi hætti, þ.e. afgreiðslu sem ekki samrýmist stjórnarskipunarlögum eins og þau eru í dag og er ekki langt að minnast þess að upp kom dæmi um slíkt norður í landi sem hæstv. umhvrh. þurfti að hafa afskipti af og breyta ákvörðunum jarðanefndar.

Bændur búa við allt annað umhverfi nú en árin 1972--1976. Af hálfu ríkisvaldsins hefur m.a. verið gert sérstakt átak til þess að skera niður hefðbundinn búskap á jörðum, fækka sauðfé o.fl. og koma þannig til móts við þau sjónarmið að hefðbundinn búskapur væri stundaður á allt of mörgum jörðum og í allt of miklum mæli. Þessi gömlu lagaákvæði í jarðalögunum frá 1976, sem torvelda það að bóndi geti annaðhvort sjálfur eða með ráðstöfun til þriðja aðila tekið upp á jörð sinni aðra búskaparhætti en hefðbundna, standa að sjálfsögðu gegn þeirri stefnu sem rekin hefur verið, m.a. af stjórnvöldum í landbúnaðarmálum á undanförnum árum.

Frv. þetta er flutt til þess að auka sjálfræði bænda og frelsi þeirra um ráðstöfun sinna jarðeigna, hvort heldur er til eigin nota, svo sem til byggingar orlofshúsa og sumardvalarstaða og til ferðaþjónustu, eða til að ráðstafa til erfingja sinna eða í þriðja lagi með því að selja þeim sem kaupa vill án afskipta þriðja aðila eins og jarðanefndar. Það er megintilgangur frv.

Frv. var flutt á 120. löggjafarþingi, þ.e. ekki í fyrra heldur í hittiðfyrra og var þá sent til umsagnar og fékk mismunandi umsagnir, sumar mjög jákvæðar, m.a. vestan af Vestfjörðum, en aðrar neikvæðari. Frv. er nú flutt í óbreyttum búningi frá því sem þá var. Þá gerði ég mjög ítarlega grein fyrir meginefni frv. í framsögu. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það hér og nú þegar það er flutt í annað sinn en óska eftir því, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og til hv. landbn. Jafnframt óska ég eftir því að landbn. taki efnislega afstöðu til frv., enda benda umsagnir sem nefndin fékk í þá átt að talsverður vilji sé til þess að þessum gömlu ákvæðum verði breytt og bændur fái auknar heimildir til að ráðstafa jörðum sínum til þeirra nota sem þeim sjálfum eru best þóknanlegar og ráðstafa þeim jafnframt í sölu þannig að þeir fái sem mestan arð af sölunni. Það hvílir víst nóg af erfiðleikum á bændastéttinni í dag að ekki sé verið að tamarka það að bændur geti nýtt bújarðir sínar til þeirra þarfa sem þeir álíta sjálfir réttastar og bestar eða koma í veg fyrir að þeir geti selt jarðir sínar hæstbjóðanda á því hæsta verði sem fyrir þær fæst, auk þess sem það er mjög óeðlilegt að einhver nefnd aðila heima í héraði geti valið eða hafnað bjóðendum í jörð eins bónda, þ.e. ákveðið hver má kaupa og hver má ekki kaupa, hvað þá ef slík nefnd, eins og jarðanefnd, virðist fara eftir geðþóttaákvörðunum án þess að rökstyðja sína niðurstöðu eins og önnur stjórnvöld.