Jarðalög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:49:27 (3359)

1998-02-03 17:49:27# 122. lþ. 57.6 fundur 198. mál: #A jarðalög# (kaup og sala jarða o.fl.) frv., Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:49]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra undirtektir hans við frv. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að nauðsynlegt er að endurskoða jarðalögin í heild. Þar eru ýmis mjög flókin umfjöllunarefni, t.d. eins og ákvæði IV. kafla laganna um forkaupsrétt sem kostar talsverðan tíma í endurskoðun og ekki verða endurskoðuð nema af mjög færum lögfræðingum. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir því í frv. eða ekki er gerð tillaga um frekari breytingu laganna en kveður á um í lagagreinunum sjálfum, en gert er ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða að ráðherra ljúki heildarendurskoðun jarðalaganna fyrir 1. okt. 1998. Þau atriði sem frv. vísar að eru hins vegar tiltölulega einföld og varða t.d. samræmingu þessara laga við stjórnsýslulög. Ekki er gert ráð fyrir að afnema jarðanefndir heldur að draga úr valdi þeirra og skylda jarðanefndir t.d. til að afgreiða erindi innan tilskilins frests sem mikill misbrestur hefur verið á að þær hafi gert þannig að kaupendur og seljendur jarða hafa þurft að bíða mánuðum og jafnvel missirum saman í óvissu um hvort samningar þeirra um jarðakaup og jarðasölu fengju að standa eða ekki. Þetta er mjög óeðlilegt miðað við nútímastjórnsýsluhætti og þess vegna er gerð tillaga um það í frv. að jarðanefnd verði að fella úrskurð innan tilskilins tíma, ella skuli samningar standa.

Þá hefur einnig vantað ákvæði í jarðalögin um að niðurstaða jarðanefndar skuli vera rökstudd, þ.e. að jarðanefnd skuli gera grein fyrir niðurstöðu sinni og rökstyðja hana en krafa til þess er ekki gerð í núgildandi jarðalögum sem hefur valdið því að jarðanefndir hafa fellt mjög umdeilanlega úrskurði um jarðaviðskipti, m.a. nýverið norður í landi, eins og ég ræddi um áðan, sem hafa nánast falist í einni setningu, þeirri að jarðanefnd hafni því að bóndinn fái að selja þeim aðila sem hann vill selja og sá sem vill kaupa fái að kaupa á því verði sem samið hefur verið um. Punktur.

Þá er líka gert ráð fyrir því að jarðanefnd hafi ekki vald til að skikka bónda til að selja einum tilteknum aðila ef sá aðili er ekki sá hinn sami og bóndinn óskar eftir að selja sína jörð eða hefur náð samningum við. Þetta eru allt saman ákvæði sem mjög tímabært er að breyta til bóta og til aukinna réttinda fyrir bændur landsins. Ég tel ekki ástæðu til að bíða með þær breytingar eftir heildarendurskoðun laganna þannig að fleiri dæmi um óeðlileg afskipti jarðanefnda af ráðstöfun bónda af jarðeign sinni komi upp en þegar eru komin upp. Og ég minni enn á það að hæstv. umhvrh. hefur nýlega þurft að hafa afskipti af og fella úr gildi slíkar ákvarðanir sem stórsköðuðu þá aðila sem með frjálsum samningum höfðu náð samkomulagi sín á milli um jarðakaup.

Ég tel að þessi atriði í frv. a.m.k. eigi vissulega að geta fengið framgang á þessu þingi því að þau eru tiltölulega einföld og ættu ekki að vera umdeilanleg þó svo heildarendurskoðun laganna bíði betri tíma því að hún er, eins og ég sagði áðan, mjög flókin og þarf sérfróða og lögfróða menn til að koma að ýmsum köflum þar um.

Ef lögin halda áfram gildi sínu eins og þau eru koma þau í veg fyrir eða torvelda a.m.k. mjög, að bændur sem ekki eiga möguleika á því að halda áfram hefðbundnum búskap á jörðum sínum svo lífvænlegt sé geti tekið þær jarðir að hluta til eða öllu til annarrar og ábatasamari notkunar eða þá að þeir geti fengið sannanlegt markaðsverð fyrir jarðir sínar og náð hagstæðum samningum ef þeir kjósa að selja. Það er mjög óeðlilegt þegar verið er að þrengja að hefðbundnum búskap bænda, að beita þá slíkum reglum sem koma í veg fyrir að þeir geti nýtt sér eignir sínar til fullnustu, eins og allir aðrir þjóðfélagsþegnar geta gert án afskipta ríkisvaldsins. Þeim fyrirmælum laga á að eyða þannig að íslenskir bændur geti ráðstafað eignum sínum með sama frjálsa hætti og allir aðrir landsmenn geta gert í dag með þær eignir sem þeir hafa annaðhvort til rekstrar eða til sölu.