Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 18:13:52 (3363)

1998-02-03 18:13:52# 122. lþ. 57.7 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[18:13]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki vil ég nú gera of lítið úr vonum hv. þm. varðandi útflutning á kindakjöti og víst er það rétt að vitaskuld er allt öðruvísi staðið að þessu núna en var á árum áður og þarf ekkert að hafa mörg orð um það. En það er eitt lögmál sem gildir í þessum fræðum og það er að enginn vandi er að framleiða vörur en það er mikill vandi að selja. Margir hafa brennt sig á þessari einföldu staðreynd og ekki hvað síst við Íslendingar á mörgum sviðum. Við teljum að þegar við séum búin að framleiða góða vöru sé auðvelt að selja hana. Það er ekki svo. Það er mjög erfitt að selja landbúnaðarvörur alls staðar í heiminum, það eru heldur ekki ný sannindi. Vitaskuld fylgja hjá mér eins og hjá hv. þm. góðar óskir til þeirra bænda og framleiðenda sem standa í þessu og ég gleðst yfir hverjum sigri á því sviði. Hins vegar vara ég við því að ofmeta stöðuna þó ein og ein sala takist og þó við vitum að við séum með góða vöru í höndunum. Þetta er mjög erfitt. Þetta hefur yfirleitt ekki gefið tekjur og ég er ekki að tala um hér á landi heldur erlendis. Ég endurtek enn og aftur og hv. þm. tók undir það að þetta þarf að skoða í víðara samhengi en e.t.v. einungis aukningu á sauðfjárframleiðslu og við erum alveg sammála í þeim efnum. Þarna þarf að koma til margþætt stefna. Hluti af því verður vitaskuld stuðningur við markaðssetningu á kindakjöti en einungis hluti af þeirri aðstoð sem er nauðsyn.