Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 18:17:19 (3365)

1998-02-03 18:17:19# 122. lþ. 57.7 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[18:17]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er svo merkilegt til þess að hugsa að þegar maður veltir fyrir sér stöðu sauðfjárbænda á Íslandi, þá eru lífskjör þeirra nú í lok aldarinnar sennilega verri en þau hafa nokkurn tíma verið á öldinni. Ég rökstyð það með því að lífskjör eru ekki bara þau kjör sem menn hafa á hverjum tíma heldur eru lífsjör líka það hvernig mönnum líður, hvernig þeir hafa það og hvaða tekjur menn hafa miðað við aðra. Ég er alveg sannfærður um að ef við berum saman kjör sauðfjárbænda í dag við það sem var fyrir 50 eða 60 árum, þá var staða þeirra í þjóðfélaginu miklu betri og miklu sterkari en hún er núna.

Núna er veruleikinn sá að þetta er í raun sú stétt manna sem hefur fórnað mestu fyrir þær lífskjarabreytingar sem hafa verið að ganga yfir í íslenska þjóðfélaginu. Og það er mjög alvarlegt umhugsunarefni ef við ekki tökum á þessu máli af fullri alvöru. Ég segi fyrir mitt leyti, herra forseti, að ég gef ekkert fyrir almennt tal um að menn vilji taka á vanda bænda og jaðarbyggðanna, ekkert. Spurningin er: Hvað vilja menn gera? Hverju vilja menn kosta til að styrkja stöðu þessa fólks, ekki síst sauðfjárbænda á litlum búum í jaðarbyggðunum sem lifa við afskaplega slæm, svo ég segi ekki niðurlægjandi lífskjör, hreint út sagt? Hvað vilja menn gera til að styrkja stöðu þeirra og þá á kostnað annarra, þ.e. þeirra sem betur hafa það? Það gerist ekki öðruvísi. Eru menn tilbúnir til að gera eitthvað í þeim efnum? Eru menn tilbúnir til að láta þessa bændur, þessi svæði hafa forgang? Eru menn tilbúnir til að segja: Svæðin t.d. Mið-Mýrar, Dalir, Vestfirðir, Skaginn, Norður-Þingeyjarsýsla, hluti Austurlands eiga að hafa forgang umfram önnur svæði? Ég svara þeirri spurningu þannig, herra forseti, að þau eigi að hafa forgang. Ég tel að það ætti að gera að því er varðar stuðning hins opinbera hvernig svo sem hann birtist, þá eigi hann að koma fyrr inn á þau svæði en önnur, svo lengi sem hann er til. Ég held líka að það sé stórkostlega mikið álitamál hvort nokkur rök eru fyrir því að hneppa það fólk sem býr á þeim svæðum í framleiðslufjötra þó að það eigi við um aðra. Ég held að það eigi að opna þessu fólki meiri möguleika til sölu og framleiðslu á dilkakjöti innan lands og erlendis. Ég tek undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að mér finnst að verulegan kraft og fjármuni eigi að setja í þennan útflutning og ég tek einnig undir með honum að nálgast á málið nákvæmlega eins og hann lýsti því. Þetta er lítið magn í hinum stóra heimi sem menn eru að tala um í þessu sambandi.

Hvað er það sem hefur gerst? Fyrir 20 árum eða svo töluðu menn um að eðlilegt væri að miða við að á Íslandi væri vetrarfóðrað sauðfé sennilega yfir 1 milljón kinda. Það væri stefna. Það væri eðlilegt að vera með 1,4 millj. sauðkinda á fóðrum samkvæmt skýrslu Rannsóknarráðs ríkisins sem kom út árið 1977. Þetta voru menn að tala um. Hvað erum við með núna? Erum við með 400--500 þúsund fjár eða svo? Menn sjá því hversu gífurleg breyting hefur átt sér stað. Hún kemur fram í því að þessi hópur þjóðfélagsins hefur tekið á sig lífskjaraskerðingu sem er í raun algerlega ólýsanleg. Þeir sem þekkja eitthvað til í sveitum þekkja þetta sjálfir. Maður finnur það þegar maður fer um þær byggðir hvernig lífskjarahrunið hefur leikið þetta fólk sem einstaklinga.

Hvað hefur gerst? Það eru fjögur atriði sem skipta þarna mestu máli. Í fyrsta lagi er það hinn almenni umhverfisvandi, ofbeitarvandinn sem birtist okkur á stórum svæðum og hafði mjög mikla þýðingu. Í öðru lagi fór þjóðin að bera saman verð á þessum vörum við það sem gerðist í öðrum löndum. Í þriðja lagi varð almenn fæðuvalsbreyting og breytt viðhorf til fæðuvals í landinu. Og í fjórða lagi var það sá veruleiki að ríkissjóður hefur ekki takmarkalausa peninga og skera varð niður þann kostnað sem skattgreiðendur höfðu af kerfinu eins og það var. Allt þetta lagðist saman og lagðist eins og ofurfarg á þessa stétt, bændastéttina í landinu, sérstaklega sauðfjárbændur.

Ég hef verið þingmaður fyrir Reykjavík um allmargra ára skeið og ég er sannfærður um það eftir umræðum og kynnum mínum af fólki í mínu byggðarlagi, Reykjavík, að verulegur skilningur er á þessum vanda. Það hefur þó verið reynt að slá keilur og atkvæði á því að tala illa um bændur og þar greina menn ekki sundur hvort um er að ræða bjargálna menn eða fátækt fólk.

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að ódýr málflutningur af því tagi er fordæmanlegur vegna þess að í rauninni eru menn að setja hlutina upp með öðrum hætti en eðlilegt er. Ég gagnrýni það að það liggur við að í hvert einasta skipti sem talað er um landbúnað, þá rísi menn sjálfvirkt upp til að hjóla í landbúnaðinn í heild og athuga ekki að sá málflutningur, eins og hann hefur verið um landbúnaðinn, bitnar líka á þessu fólki. Ég nefni engin nöfn, enga fjölmiðla, enga hópa í þessu sambandi en ég harma þennan málflutning vegna þess að hann hefur spillt fyrir því að Alþingi Íslendinga geti með eðlilegum hætti tekið á vanda sauðfjárbænda í jaðarbyggðum.

Hér er flutt tillaga sem er lítil. Hún segir í raun ekki neitt annað en það að menn vilji gera eitthvað jákvætt í þessum efnum og ég lýsi stuðningi mínum við að eitthvað ákveðið, tiltekið verði gert, ekki bara talað heldur tekið á málinu í alvöru. Þetta fólk sem hefur tekið á sig meiri byrðar af lífskjarabreytingu undanfarandi ára en nokkrir aðrir í samningum um lífskjör sín á skilið að við sýnum því a.m.k. virðingu.