Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 18:24:12 (3366)

1998-02-03 18:24:12# 122. lþ. 57.7 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[18:24]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég hlýt sem landbrh. að lýsa ánægju minni með þá umræðu sem farið hefur fram í dag um landbúnaðarmálin og ekki síst nú síðustu mínúturnar í tengslum við þá þáltill. sem hér liggur fyrir vegna þess að ég leyfi mér að skilja það svo, eins og ég reyndar gat um fyrr í umræðum í dag, að lesa mætti út úr þessum umræðum vilja löggjafans til að viðurkenna þessa atvinnugrein sem mikilvæga og enn væri nauðsyn að styðja hana á einn eða annan hátt, þó menn hafi kannski skiptar skoðanir um hvernig, hversu lengi og hversu mikið. En það sjá allir að atvinnugreinin er mikilvæg í mörgu tilliti og ekki síst í sambandi við byggðamál og byggðaþróun. Það er út frá því sem mig langar til að nálgast það mál, sem hér er til umræðu, að ég er sammála flutningsmönnum og hv. frsm. tillögunnar, þegar hann talar um jaðarinn. Jaðarinn er veikastur. Þar eyðist gróðurinn og þar eyðist byggðin og þá er spurning hvernig við styrkjum þann jaðar. Ég er líka viss um að þeir erfiðleikar sem hafa verið í landbúnaðinum á undanförnum árum, breytingar sem þar hafa orðið, samdráttur, tekjuhrun og fólksflutningar hafa ekki bara áhrif á búsetuna í sveitunum eða jaðarbyggðunum eða hvað sem við köllum það, það hefur líka áhrif á búsetuna í þéttbýliskjörnunum um allt land og hefur átt sinn þátt í þeirri byggðaþróun sem við horfum upp á núna og hefur mjög verið til umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum vikum og mánuðum.

Mig langar líka að geta þess að þegar við hófum endurskoðun á búvörusamningnum hvað varðar sauðfjárræktina síðla árs 1995 viðraði ég þær hugmyndir og bað um að það yrði rætt í upphafi þeirra samninga, hvort menn væru tilbúnir til að mismuna í einhverju eða á einhvern hátt í stuðningi við atvinnugreinina eftir landsvæðum, eftir getu einstakra svæða til að bera ákveðnar atvinnugreinar eða þeim aðstæðum sem menn töldu að væru öðruvísi frá einu svæði til annars. Niðurstaðan varð sú að menn treystu sér ekki í þá mismunun eða í þær aðferðir við stjórnunina og töldu að afar erfitt væri að haga opinberum stuðningi þannig að þeir sem stunduðu sauðfjárrækt ættu ekki völ á sama stuðningi hvar svo sem þeir stunduðu sinn atvinnurekstur. Þetta er því ekki einfalt mál. Ég vil láta það koma fram strax. Ég hugleiði einnig hverju hv. flutningsmenn eru að velta fyrir sér þegar þeir tala um jaðarbyggð. Ég hafði ímyndað mér að það væri þrengri skilgreining en kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, þegar hann talar um Vestfirði, Strandir, Húnavatnssýslu eða hluta af Norðurlandi vestra, Norður-Þingeyjarsýslu, hluta af Austfjörðum, þá er hann náttúrlega að tala um talsvert stóra hluta af landinu sem vissulega eru betur fallnir til sauðfjárræktar en ýmsir aðrir sem ekki hafa verið nefndir, hvorki af honum né mér en menn gætu kannski stundað aðrar atvinnugreinar. (Gripið fram í: Það verður nú að vera fólk til staðar á þessum svæðum.) Það er fólk á þeim svæðum sem við höfum nefnt, og það er einmitt fólkið sem enn er að glíma við sauðfjárræktina, eins og hv. þingmenn hafa sagt og hv. frsm. hefur ítrekað, að þar er sauðfjárræktin kannski undirstaða á mörgum þessum svæðum. Og spurningin er hvort hægt er að ná samkomulagi eða samstöðu um að styðja það sérstaklega ef við þrengjum þau svæði um leið og við veltum fyrir okkur einhverjum séraðgerðum eða sérstökum stuðningi á slíkum svæðum þar sem sveitahreppar eru kannski hreinlega að leggjast í eyði sem ástæða væri til að halda uppi búsetu í, fremur en við séum að hugsa um sauðfjárræktina heildstætt í þessu efni, sem ég tel að verði mjög erfitt að ná samkomulagi um. Ég tala þar af þeirri reynslu sem ég upplifði við upphaf endurskoðunarinnar á búfjársamningnum hvað sauðfjárræktina varðaði síðla árs 1995.

Ég verð líka að taka undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni varðandi framleiðslu til útflutnings, þó að sannarlega hafi mjög ánægjulegir atburðir gerst varðandi útflutning á lambakjöti á seinustu missirum og við höfum verið að sjá þar nýja hluti. Staðið er öðruvísi að útflutningi en gert var og verðið í sumum tilfellum að nálgast það sem menn geta kannski sagt viðunandi, en þó tel ég nú samt að það sé enn þá undir því sem þyrfti að vera til að við gætum farið að framleiða fyrir slíkan markað í einhverjum mæli. Það verður að vera breyting á, 160--170 kr. er alls ekki nægjanlegt í því efni. Það þarf meira til. Það er hægt að framleiða fyrir þessar upphæðir eða kannski 200--250 kr. ef um er að ræða tiltölulega lítinn hluta af framleiðslunni, umframframleiðslu í einhverjum mæli, en ef það á að vera meiri hluti eða meginhluti af framleiðslunni hygg ég að verðið þurfi að vera hærra án þess að ég ætli að setja nokkrar krónutölur á þann verðmiða.

Þetta er eins og ég sé fyrir mér. Ég fagna því út af fyrir sig að þingið vilji ræða þetta og að landbn. taki málið til sérstakrar skoðunar. Við verðum að styðja þetta eins og hægt er og skoða til hlítar hvað má ná út úr þessum útflutningi --- þegar ég segi styðja er ég ekki að tala um að taka upp útflutningsuppbætur --- en við höfum hins vegar stutt í nokkrum mæli við þá aðila sem hafa lagt áherslu á að byggja sig upp til þess að geta mætt útflutningskröfunum, t.d. í þeim sláturhúsum sem þurfa að leggja í fjárfestingar í því efni. Það er því reynt að koma til móts við þau sjónarmið á einn eða annan hátt. En hér hygg ég að menn séu að tala um öðruvísi aðgerðir og þarf auðvitað að skilgreina það betur, a.m.k. í umfjöllun nefndarinnar ef tillagan fær þar frekari skoðun sem ég tel mjög eðlilegt.

Ég vildi aðeins láta þessar hugleiðingar mínar koma fram. Ég er ánægður með umræðuna og efni málsins en ég veit líka að á þessu eru vissir vankantar sem við þurfum að skoða betur.